Plasttilvera
Við mannfólkið höfum eingöngu lifað með fjöldaframleiddu plasti síðan eftir seinni heimstyrjöldina og á þessum tíma hefur plast orðið nær órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Hlutir úr tré, gleri, málmi, beinum og vömbum hafa oft vikið fyrir plasti. Plast þótti, og þykir enn, vera algjört undraefni því það mótast mjög auðveldlega og hægt er að búa til endalausar útgáfur af því. Plast getur verið allt frá því að vera örþunnt og mjúkt í að vera grjóthart og þola eld og hita. En vandamálið við plast er að það er aðallega unnið úr jarðefnaeldsneyti og eykur þannig á áhrif loftslagsbreytinga ásamt því að valda lífríki í sjó miklum skaða. Í nýlegri rannsókn á framleiðslu og örlögum plasts í heiminum kemur fram að um 8.300 milljón tonn af plasti hafa alls verið framleidd í heiminum. Um 76% af þessu heildarplasti hafa orðið að úrgangi og af því hefur einungis 9% verið endurunnið. 12% hefur verið brennt og 79% endaði í urðun eða úti í náttúrunni og þá aðallega hafinu. Árlega eru nú framleidd um 300 milljón tonn af plasti. Þetta samsvarar um það bil heildarþyngd allra Jarðarbúa.
Plast er að finna í símunum okkar, tölvum, hjálmum, barnabílstólum, húsgögnum, gleraugum, heyrnartækjum og lengi má áfram telja. Plast er því ekki alvont. Í mörgum tilfellum hefur plast aukið lífsgæði okkar, minnkað matarsóun og plast hefur m.a. verið notað til að létta farartæki eins og flugvélar og bíla og minnkað þannig kolefnismengun þeirra. En þegar við lítum á einnota plast sem búið er til úr jarðefnaeldsneyti erum við komin með vandamál sem verður að leysa.
Umhverfisvænu vörurnar Umbúðir utan um mat eru stórt vandamál og þær eru oft úr plasti. Það verður ekki hægt að losna algjörlega við allar umbúðir því sumar hverjar lengja líftíma matvörunnar og hindra að viðkvæmur matur eins og t.d jarðarber kremjist. En það er bæði hægt að minnka magn umbúðanna og einnig sleppa plastinu. Ég hlakka til framtíðar þar sem t.d. rækjusalatið kemur í lífplasti sem unnið er úr rækjuskel og kartöfluflögurnar koma í lífplastpokum unnum úr kaftöfluhýði. Lífplast er m.a. unnið úr sterkju, sellulósa og próteinum og mestur ávinningur verður ef úrgangsafurðir eru nýttar í svona framleiðslu. Þetta er úrgangur sem annars myndi enda í urðun. Uppskriftirnar að þessum framtíðardraumi eru til og nú þegar er byrjað að framleiða t.d. poka úr maísúrgangi en vonandi munum við sjá framfarir og hreinlega sprengingu í þessum iðnaði á næstu áratugum. Hér eru komin frábær tækifæri fyrir umhverfisvæn fyrirtæki og hönnuði til að láta gott af sér leiða. Við hönnun og framleiðslu á vörum, og þá skiptir engu hvort þetta er húsgagn, sími eða umbúðir utan um mat, þarf að huga að öllum lífsferli vörunnar frá vöggu til grafar. Allan umhverfiskostnað verður að taka með í reikninginn og þar með talið hvernig á að endurvinna eða endurnýta vöruna. Með svona vinnubrögðum, sem að mínu mati ætti að binda í lög, er hægt að tryggja umhverfisvænar vörur. Hver hefur ekki lent í því að vera í vandræðum með að endurvinna hluti sem eru sambland af plasti, pappír, áli og svo einhverju sem maður veit ekkert hvað er? Þetta er stundum það flókið og illa hannað að fólk gefst upp og varan lendir í almenna ruslinu og í urðun. Ef hlutirnir eru hannaðir með endingu og endurvinnslu að leiðarljósi verður þetta ekki lengur vandamál.
Góðar leiðir fyrir byrjendur Núna í september er að byrja skemmtilegt átak sem heitir Plastlaus september. Skilaboð átaksins eru skýr: að minnka plastnotkun með því að endurnota, endurvinna og almennt neyta minna. Ég skora á ykkur, kæru hlustendur, að taka þátt í plastlausum september. Bara láta vaða og muna að margt smátt gerir eitt stórt. Hér koma nokkur dæmi sem auðvelt er að byrja á.
Í fyrsta lagi, notið fjölnota burðarpoka eða bakpoka í stað plastpoka. Það er mjög einfalt að sniðganga plastpoka ef maður man eftir fjölnota pokunum sínum. Það er því gott ráð að vera alltaf með einn lítinn fjölnota, samanbrjótanlegan poka í veskinu sínu. Þessi poki nýtist mjög vel þegar farið er í óvænta búðarferð. Svo er gott að hafa nokkra poka í bílnum, ef maður á bíl, og búa til rútínu þar sem hægt er að grípa poka á leiðinni út þegar farið er í stærri búðarferðir.
Í öðru lagi, drekkið úr glasinu í stað þess að nota rör úr plasti. Þetta atriði er mjög einfalt, einfaldlega segja nei við röri og plastloki ef farið er t.d. á skyndibitastað. Sumir gætu hugsað með sér, tja, eitt lítið rör skiptir kannski litlu máli en sem dæmi þá nota Bandaríkjamenn 500 milljón rör á dag. Þetta röraflóð myndi fylla 125 rútur á hverjum einasta degi.
Í þriðja lagi, komið með ykkar eigin ferðamál fyrir drykki í stað þess að taka einnota drykkjarmál. Ég elska ferðakaffimálið mitt, það er lítið og létt og ég get fengið mér kaffi, te eða bara vatn í það. Ég reyni að hafa það alltaf með mér og á reyndar nokkur sem ég er með bæði heima og í vinnunni. Flest kaffihús bjóða meira að segja afslátt ef maður kemur með eigið mál og fleiri staðir mættu taka sér það til fyrirmyndar. Ef ferðamálið gleymist þá er líka hægt að grípa venjulegan kaffibolla og fara með hann á kaffihúsið. Svo er um að gera að nota einnig margnota flöskur fyrir heilsudrykkina. Það er líka gaman að sýna frumkvæði og oft getur spunnist skemmtilegt spjall við fólk þegar útskýrt er af hverju maður vill ekki einnota plast. Þetta hvetur líka aðra til góðra verka.
Þeir sem lengra eru komnir geta farið að búa til sína eigin sápu og sjampó, nota plastlausa tannbursta og plastlausa eyrnapinna. Hinn yndislegi álfabikar hjálpar konum að hætta að nota tappa og dömubindi og samfélag foreldra sem notar margnota bleyjur fer vaxandi. Það er verið að finna plastlausar lausnir hvert sem litið er og fyrirtæki finna vel fyrir þrýstingi ef vaxandi hópur hefur hátt og sniðgengur óumhverfisvænar og oft ónauðsynlegar pakkningar. Fleiri góð ráð er að finna á heimasíðu átaksins.
Það mikilvæga í þessu samhengi er að hvert skref skiptir máli. Sumir vilja taka þetta með trukki og það er hið besta mál en hafa verður í huga að á Íslandi er erfitt að ætla að verða 100% plastlaus og ef farið er of geyst getur það valdið kvíða og streitu. Best er að byrja á einu atriði og bæta svo við þegar maður er tilbúinn. Það er líka mikilvægt að ganga ekki berserksgang heima hjá sér og henda öllu plasti af heimilinu þegar byrjað er á svona átaki. Það er búið að kaupa þetta dót og það er algjör sóun að henda því ónotuðu, jafnvel þó það sé endurunnið. Einnig þarf ekki að hlaupa til og kaupa nýja hluti þó þeir sé umhverfisvænir ef til er eitthvað sem dugar alveg eins vel til verksins. Margnota pokar, plastílát og kaffimál eru oft úr plasti en þessir hlutir eru langlífir og minnka einnota plast í lífi okkar. Þegar hlutirnir sem við eigum nú þegar hafa klárað sitt hlutverk, þá er um að gera að setja þá í endurvinnslu og kaupa umhverfisvænsta kostinn.
Gangi ykkur vel að minnka plastið, það er til mjög mikils að vinna.