top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Hákarlategundir í útrýmingarhættu


Hákarlar og aðrir háffiskar Mín fyrstu persónulegu kynni af háffiskum eða hákörlum, eins og þeir eru almennt kallaðir, voru þegar ég var ungur líffræðinemi. Ég var svo heppin að fá sumarvinnu í sjávarlíffræði og fór m.a. norður til Grenivíkur að taka sýni úr Grænlandshákarli sem hafði lent í fiskineti. Þegar við mættum á bryggjuna lá hákarlinn þar og við hófumst handa við að taka ýmis sýni og gera alls kyns mælingar. Við leituðum sérstaklega að litlum krabbadýrum sem lifa sníkjulífi í augum hákarlanna. Þó hákarlinn væri dauður þá fannst mér svolítið óhuggulegt að halda mælibandinu við trýnið á þessu magnaða rándýri þegar við lengdarmældum það. Ég hálfímyndaði mér að hann myndi allt í einu vakna til lífsins og glefsa í mig eins og hvítháfurinn í bíómyndinni Jaws. Ég áttaði mig á því hve misskilin þessi dýr hlytu að vera fyrst ég, dýraáhugamanneskjan og líffræðineminn, hugsaði svona. Það er samt kannski ekkert skrýtið að vera svolítið smeykur þegar maður sér í fyrsta skiptið svona stóran hákarl með ógrynni af oddhvössum tönnum. En, þessi vettvangsferð var stórkostleg í alla staði. Ég lærði mikið um Grænlandshákarla og íbúar Grenivíkur virtust álíka spenntir og við fyrir þessum viðburði. Það tók okkur nokkra klukkutíma að vinna þarna á bryggjunni en við vorum aldrei ein, því íbúar bæjarins streymdu að í stríðum straumum. Allir voru áhugasamir að sjá þessa mögnuðu skepnu og við notuðum tækifærið og spjölluðum við fólk um hákarla á meðan við unnum.

Afar lítið er vitað um lífshætti Grænlandshákarlsins, en þetta er eina hákarlategundin sem dvelur allt sitt líf í köldum heimskautasjó Norður-Atlantshafs og kæst kjötið er einn af þjóðarréttum Íslendinga. Nýlegar rannsóknir benda til að Grænlandshákarlar verði mjög seint kynþroska, jafnvel ekki fyrr en þeir ná 150 ára aldri og að þeir geti orðið allt að 3-400 ára gamlir. Vegna offeiða hér áður fyrr er stofninn líklega ekki í eðlilegu ástandi. Búið er að veiða flest gömlu dýrin og lítið er um kynþroska kvendýr og þó það séu margir „unglingar“ til staðar þá gætu verið 100 ár þangað til þeir verða kynþroska. Það er því margt sem bendir til að Grænlandshákarlinn sé lang

lífasta hryggdýr sem vitað er um.

Ofsóknir í kjölfar hákarlaárása En kynni mín af hákörlum enduðu ekki í Grenivík heldur kynntist ég fleiri spennandi tegundum þegar ég ferðaðist um Ástralíu. Okkur bakpokaferðalöngunum var bannað að vaða í sjónum á eyjunni Fraser Island, sem er staðsett við austurströnd Ástralíu, því í sjónum fyrir utan eyjuna eru æxlunarstöðvar tígrisháfa (Tiger shark). Dæmi voru um að forvitnir tígrisháfar væru á vappi við flæðarmálið. Því miður sá ég enga hákarla við Fraser Island, en heppnin var með mér þegar ég fór sem sjálfboðaliði að vinna með höfrungum á stað á Vesturströnd Ástralíu sem heitir því lýsandi nafni Shark Bay eða Hákarlaflói. Þar sá ég óteljandi hákarla, flestir voru litlir og meinlausir en nokkrum sinnum sá ég tígrismunstraða tígrisháfa koma uppúr kafinu við hlið litla bátsins sem við vorum á. Hjartað tók kipp í hvert sinn því þetta eru stór og hættuleg dýr og það voru forréttindi að komast svona nærri þeim.

Í gegnum mannkynssöguna höfum við mennirnir átt í illdeilum við þau dýr sem lifa á sama fæði og við og þau dýr sem hafa sett okkur sjálf á matseðil sinn. Við mennirnir höfum oftar en ekki unnið þessar deilur við dýrin og er ein ástæða þess að margar tegundir eru nú í útrýmingarhættu. Hákarlar hafa sérstaklega orðið illa fyrir barðinu á okkur. Þessi dýr eru sum hver hættuleg manninum eins og tígrisháfurinn og hvítháfurinn (Great white shark), sem Jaws er byggð á, en margir hákarlar eru algjörlega meinlausir, eins og Grænlandshákarl okkar Íslendinga. Ofsóknir gegn hákörlum verða oft í kjölfar þess að þeir bíta menn. Oftar en ekki eru mennirnir að þvælast á búsvæðum þeirra og þar sem menn líkjast náttúrulegri bráð þeirra þá bíta þeir stundum menn. Þeir eru samt ekki mjög hrifnir af mannakjöti og vilja frekar spikfeita seli eða fisk. Hákarlar eins og í myndinni Jaws, eru ekki til og þó að sú mynd hafi í fyrstu aukið á sjúklegan ótta fólks við hákarla, þá eyddi höfundur bókanna seinni hluta ævi sinnar í vitundarvakningu um þá. Í dag eru sem betur fer margir meðvitaðir um að vernda þurfi þessi mögnuðu dýr því margar hákarlategundir heims eru í yfirvofandi hættu á útrýmingu, þar á meðal hvítháfurinn sjálfur og hinir fallegu og meinlausu hvalháfar (Whale shark).

Hákarlauggasúpa ýtir undir ofveiði Staðreyndin er sú að hákarlar drepa um 10 manns að meðaltali á ári í heiminum. Margfalt fleiri dauðsföll má rekja til árása brjálaðra kúa, bara til að setja þetta í samhengi. En já, 10 manns deyja í hákarlaárásum en á móti þá drepa menn allt að 100 milljón hákarla á ári!! Ástæðan fyrir þessum mikla fjölda er samt ekki eingöngu hefndaraðgerðir eða hákarlaát Íslendinga heldur mikið til vegna þess hve sólgnir Asíubúar eru í hákarlauggasúpu. Þessi súpa rekur uppruna sinn til hins kínverska Song-veldis á árunum 960-1279 en þá var hákarlauggasúpan konunglegur matur sem var sérstaklega útbúin fyrir konungsfjölskylduna og hirðina. Í gegnum aldirnar varð súpan vinsælli og vinsælli og þótti merki um auðævi og völd því hákarlauggar eru mjög dýr vara. Súpan varð ómissandi í brúðkaupsveislur, hátíðir og viðskiptafundi. Það undarlega við súpuna er að hákarlakjötið sjálft er eingöngu notað til að gefa ákveðna seiga, hlaupkennda áferð, sjálft bragðið af súpunni kemur ekki frá hákarlinum sjálfum heldur úr kjúklingasoði.

Til þess að búa til hákarlauggasúpu þarf hákarlaugga, svo einfalt er það. Og þeir eru oftar en ekki fengnir með afar ógeðfelldum hætti þar sem hákarlar af mörgum tegundum eru veiddir í tugmilljónatali ár hvert, uggarnir eru skornir af og deyjandi dýrunum er hent fyrir borð. Á seinni hluta 20. aldar, varð þessi súpa einn vinsælasti rétturinn í Kína og kínverskum veitingastöðum um allan heim. Verð á hákarlauggum gat farið upp í 1-200 þúsund krónur kílóið á Asíumarkaði og aukin auðævi millistéttarinnar leiddu til aukinnar eftirspurnar. Viðskipti með hákarlaugga meira ein tvöfölduðust á árunum 1985-2001 og árið 2004 var talið að markaðurinn væri að aukast um 5% á ári. Sem betur fer, fór af stað vitundavakning um hákarla og hákarlauggasúpuna árið 2006 þegar umhverfisverndarsamtökin WildAid fengu stórstjörnur í lið með sér og þar má telja fyrrum NBA körfuboltastjörnuna Yao Ming. Hann varð einskonar sendiherra fyrir hákarla og kom skilaboðunum um mikilvægi þess, að vernda hákarla og hætta að borða súpuna, á framfæri til almennings og stjórnvalda. Þessi risaherferð varð til þess að Kínverjar hafa minnkað neyslu á súpunni um allt að 80% frá árinu 2011. Nú eru margir veitingastaðir farnir að bera fram súpurnar með kjúklingi eða grænmeti í staðinn. En hákarlar heims eru enn ekki óhultir því þó Kína hafi minnkað neyslu sína á ekta hákarlauggasúpu, þá er hún ennþá á matseðlinum í Hong Kong, Macau og aukning hefur orðið í Taílandi, Víetnam og Indónesíu þar sem hún er vinsæl í m.a. brúðkaupum. Það er því mikið verk enn óunnið í Asíu.

Stórstjörnur og annað frægt fólk, sem veitir umhverfismálum lið, getur breytt viðhorfi milljóna manna. Ein manneskja getur því skipt sköpum þegar t.d. stefnir í útrýmingu tegundar. Yao Ming er ekki eini sendiherra náttúrunnar hjá WildAid samtökunum því þeir eru yfir 100 talsins, þar á meðal Jane Goodall, Richard Branson, William Bretaprins, Leonardo DiCaprio, Minnie Driver, Jackie Chan, David Becham, Harrison Ford, Edward Norton og Kate Hudson. Þetta fólk vinnur að því sameiginlega markmiði að bjarga tegundum frá útrýmingu og sýnir að með einföldum breytingum á lífi okkar þá getum við öll gert heiminn aðeins betri. Jane Goodall orðaði það svo vel þegar hún sagði: enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.

Mynd af Grænlandshákarli: By NOAA Okeanos Explorer Program - http://oceanexplorer.noaa.gov/okeanos/explorations/ex1304/dailyupdates/media/aug16.html, Public Domain, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=28162084

Mynd af hákarlauggasúpu: By harmon from austin, tx, usa - shark fin soupUploaded by Caspian blue, CC BY-SA 2.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=6516538)

51 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page