top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Rauða eiturleðjan sem enginn vill tala um


Flestir kannast við málminn ál. Þennan létta málm notum við hugsunarlaust í álpappír utan um grillmatinn okkar, í gosdósirnar og utan um sprittkertin. Ál er líka notað í farartæki eins og hjól, bíla og flugvélar. Ál er hægt að endurvinna aftur og aftur án þess að eiginleikar þess eyðileggist. Afskaplega þægilegur og skemmtilegur málmur, ekki satt? Ál finnst hvergi hreint í náttúrunni og því þarf að vinna það úr öðrum hráefnum með orkufrekum iðnaði. Okkur er sagt að álframleiðsla á Íslandi sé svo rosalega umhverfisvæn því hér notum við umhverfisvæna orku. Það er tuggið stanslaust ofan í okkur að ef álið væri ekki framleitt á umhverfisvænan hátt á Íslandi, þá yrði það framleitt með mengandi hætti annars staðar í heiminum.

Á tímum grafalvarlegra loftslagsbreytinga í heiminum erum við mötuð á þeirri mýtu að við Íslendingar ættum glöð að fórna einstakri náttúru okkar á altari loftslagsbreytingabaráttunnar. Með aukinni álframleiðslu á Íslandi værum við í rauninni að sporna gegn loftslagsbreytingum! En staðreyndin er sú að það er varla hægt að finna meira mengandi iðnað en álframleiðslu, sérstaklega ef allt framleiðsluferlið er tekið með í reikninginn. Staðreyndin er líka sú að ef allt ál væri endurunnið og neysla einnota áls væri stöðvuð, þá þyrftum við alls ekki meira ál. En svona vilja álframleiðendur í heiminum ekki að við hugsum því þá yrðu þeir gjaldþrota.

Súrálið, einnig kallað áloxíð, sem notað er í álframleiðslu á Íslandi birtist ekki bara hreint og fagurt í anddyri álveranna. Súrálið er unnið úr málmgrýti sem kallast báxít. Báxítið finnst víða um heim en mest finnst af því við miðbaug og þá er það yfirleitt undir hitabeltisskógum. Það þarf um fjögur tonn af báxíti til að framleiða tvö tonn af súráli og úr þessum tveimur tonnum af súráli er hægt að framleiða um eitt tonn af áli. En hvað verður eiginlega um afganginn? Þegar rafstraumi er hleypt á súrálið klofnar það í ál annars vegar og súrefni hins vegar og þetta er framleiðsluferlið sem á sér stað á Íslandi. En til að ná súrálinu úr báxítinu þarf að skola það með vítissóda í súrálsverksmiðjum. Við þetta ferli myndast um tvö tonn af súráli og tvö tonn af rauðri hábasískri eiturdrullu sem enginn veit hvað á að gera við. Og þetta er sá hluti framleiðslunnar sem álframleiðendur vilja ekki að við spyrjum út í. Þessari eiturleðju er oft safnað í opin lón, kannski hægt að kalla þau leðjulón, og þar situr leðjan bara, baneitruð og bíður eftir umhverfisslysi. Ofan á allt saman þá fylgir báxítvinnslunni stórtæk skógareyðing, sem eykur áhrif loftslagsbreytinga. Hér koma dæmi úr fjórum heimsálfum.

Umhverfisslys í Ungverjalandi

Byrjum í Ungverjalandi. Þann 4. október árið 2010 varð hræðilegt umhverfisslys í súrálsverksmiðju í Ajka þegar stífla brast í leðjulóni eftir miklar rigningar. Um milljón rúmmetrar af rauðri eitraðri drullu flæddu, í margra metra hárri flóðbylgju, yfir tvö þorp þar sem 10 manns dóu og um 150 manns slösuðust. Þessi eitraða flóðbylgja var svo kröftug að hún tók með sér bíla og eyðilagði brýr og fjölda húsa. Eiturdrullan flæddi yfir um 40 ferkílómetra, yfir í nærliggjandi vatnasvæði og að lokum í Dóná, sem er næstlengsta fljót Evrópu. Vatnasvæðið í kringum verksmiðjuna og árnar Torna og Marcal, sem renna í Dóná, urðu fyrir gríðarlegu umhverfistjóni. Meira og minna allt líf í og við árnar þurrkaðist út og neyðarhreinsunaráætlanir voru strax settar í gang. Miklum fjármunum var varið í að hreinsa svæðið og vegna þessara aðgerða þá hafa langtímaáhrif eiturefnaslyssins sem betur fer ekki verið stórvægileg. En þó hafa orðið töluverðar breytingar í samsetningu og útbreiðslu t.d. smádýra í jarðvegi þar sem sjaldgæfar tegundir hafa ekki snúið aftur á menguðustu svæðin.

Mannréttindabrot í Brasilíu

Í Brasilíu er líka verið að búa til rauða eitraða drullu í stórum stíl en þar starfrækir álrisinn Norsk Hydro m.a. stærstu súrálsverksmiðju í heimi sem kallast Hydro Alunorte. Verksmiðjan er staðsett í Amazon-regnskóginum, nálægt árósum Amazon-fljótsins. Báxít námur, leðjulón og súrálsverksmiðjur Norsk Hydro hafa valdið mikilli skógareyðingu, m.a. á Saracá-Taquera svæðinu, sem á að heita verndaður skógur (National forest). Hægt er að sjá skógareyðinguna og námurnar vel á loftmyndum, t.d. á Google Maps. Norsk Hydro stendur nú í lagadeilum vegna mengunar af starfsemi sinni í skóginum og fundist hefur ólögleg frárennslispípa sem hefur mengað drykkjarvatn og valdið lífríki og mannfólki miklum skaða. Íbúar á svæðinu syrgja glataða paradís og óttast um heilsu sína en það er lífshættulegt að mótmæla. Árið 2017 voru 57 umhverfisverndarar drepnir í Brasilíu, sem var um fimmtungur allra dauðsfalla vegna umhverfisverndar í heiminum.

Stríð frumbyggja við álrisa á Indlandi

Færum okkur yfir til Indlands. Fyrirtækið Vedenta Resources er stærsti álframleiðandi Indlands og starfrækir þar m.a. báxítnámur, súrálsverksmiðjur og álver. En saga þessa fyrirtækis er samtvinnuð umhverfissóðaskap og mannréttindabrotum, m.a. í fjallshlíðum Niyamgiri-fjallsins þar sem súrálsverksmiðja var byggð árið 2006 án samþykkis íbúanna. Þessi ákvörðun fyrirtækisins átti eftir að verða örlagarík því hún

mætti mikilli andstöðu meðal 8.000 Dongria Kondh-frumbyggja á svæðinu. Þeim hefur verið líkt við Na‘vi-frumbyggjana í bíómyndinni Avatar. Dongria Kondh-frumbyggjarnir hafa mótmælt áformum fyrirtækisins harðlega um að byggja fleiri báxít námur á landi sínu og árið 2009 tóku þúsundir íbúa höndum saman, bókstaflega, og mynduðu mannlega keðju utan um fjallið í mótmælaskyni og þeim tókst tímabundið að koma í veg fyrir frekari báxtítnámugröft. En ástandið varð óbærilegt vorið 2011 þegar rauð eitruð drulla lak úr leðjulóni fyrirtækisins. Eiturdrullan slapp út um sprungur á illa byggðum veggjum lónsins og flæddi yfir nálæg þorp og út í ár og tjarnir. Mengunin varð til þess að vatnið varð ódrykkjarhæft en sárafátækir íbúar á svæðinu áttu ekki annarra kosta völ en að nota mengað vatnið til þvotta og til að baða sig í. Margir fengu því sjúkdóma í augu, húð og öndunarfæri í kjölfarið. Frumbyggjarnir fengu alþjóðlegan stuðning náttúruverndar- og mannréttindasamtaka og einnig frægra leikara eins og Michael Palin sem er þekktastur úr Monty Python-myndunum. Stórir hluthafar seldu hlutabréf sín í fyrirtækinu, þar á meðal enska biskupakirkjan. Þessi deila var mörg ár í dómskerfinu en endaði árið 2014 í stíl við baráttu Davíðs við Golíat og frumbyggjarnir náðu að stöðva frekari uppbyggingu á landi sínu. Vedenta starfrækir samt ennþá súrálsverksmiðju sína á svæðinu og rauða drullan er því ennþá ógn fyrir íbúana.

Glötuð búsvæði fugla og dýra í Ástralíu

Ástralía er í fyrsta sæti á listanum yfir stærstu báxítvinnslu og súrálsframleiðslu í heiminum. Ástralía er þar að auki ofarlega á listanum yfir stærstu álframleiðendur í heiminum, en langmest af súrálinu er þó selt úr landi, mest til Kína sem trónir langefst á lista yfir álframleiðendur í heiminum. Í Ástralíu eru vandamálin tengd báxítvinnslunni og rauðu drullunni á mjög stórum skala, sérstaklega þegar kemur að náttúruvernd. Sjaldgæfar tegundir fugla, spendýra og skriðdýra eru í hættu því stór landsvæði hafa nú þegar verið tekin undir námur og leðjulón og einnig er yfirvofandi stórfelld skógareyðing sem mun hafa skelfileg áhrif á lífríkið. Dæmi um þetta er sjaldgæf fuglategund, stærsti kakadúi Ástralíu sem finnst einungis á Cape York-skaganum í Queensland. Þrátt fyrir að áströlsk lög kveði sterkt á um verndun sjaldgæfra tegunda þá reyna fyrirtækin að koma framkvæmdaleyfum sínum um báxítvinnslu í gegn með því að sækja bara um eitt leyfi í einu. Heildarmyndin er ekki skoðuð, lögin ná ekki utan um þetta og þegar allt er tekið með í reikninginn þá stefnir í að um 85% af skógarbúsvæði kakadúans verði eyðilagt.

Álframleiðsla er og hefur alltaf verið einn subbulegasti iðnaður í heimi og það er mjög langt í land að viðunandi lausnir séu fundnar á rauðu eitruðu drullunni sem enginn vill tala um. Nú þarf að bretta upp ermar og hætta sóðaskapnum. Ál er gott hráefni þegar það er nýtt skynsamlega, en hættum að framleiða ál fyrir einnota vörur, endurvinnum allt ál sem fellur til og þá þarf ekki að framleiða meira. Það er nú þegar búið að eyðileggja nóg af dýrmætri náttúru fyrir álið, bæði á Íslandi og erlendis.

Heimildir

https://en.wikipedia.org/wiki/Bauxite_tailings

https://link.springer.com/content/pdf/10.1007%2Fs40831-016-0050-z.pdf

https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0048969718325427

https://www.nrk.no/dokumentar/xl/norges-to-ansikter-i-regnskogen-1.14362780?fbclid=IwAR2AlQDA51kBK8NAFcqlZLQC6lSQj5em4BhTnQXlHyGAuKwk-gpCuqbiKEE

https://www.nrk.no/dokumentar/xl/i-hydros-bakgard-1.14335410

https://www.theguardian.com/environment/2018/jul/21/land-grab-corruption-pollution-amazon-rainforest-brazil-maria-do-soccoro-silva

https://www.theguardian.com/environment/2018/feb/02/almost-four-environmental-defenders-a-week-killed-in-2017

https://www.theguardian.com/global-development/poverty-matters/2014/jan/14/india-rejection-vedanta-mine-victory-tribal-rights

https://www.theguardian.com/environment/2016/jun/10/australias-largest-cockatoo-threatened-by-aluminum-mining

229 views0 comments
bottom of page