top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Tiltekt fyrir umhverfið og okkur sjálf


Loksins virðist heimurinn vera að taka við sér þegar kemur að loftslagsmálunum. Það hefur orðið mikil vitundarvakning um allan heim síðustu árin og jafnvel ef aðeins er horft á síðasta hálfa árið. Áratuga barátta fólks um allan heim virðist loksins vera að hafa áhrif. Umhverfishetjan unga Greta Thunberg hrífur með sér unga sem aldna og fólk er að átta sig á því að eina leiðin til að bjarga jörðinni er að við sem tegund breytum neyslufrekum lífsstíl okkar.

Viðvaranir hunsaðar Þetta er svolítið í takt við umferðarljósin sem eru loksins sett upp eftir að búið er að keyra á barnið. Það er eins og það sé í mannlegu eðli að hunsa viðvaranir þangað til það er orðið of seint. En þegar umferðarljósin eru loksins komin upp þá tekur við það ferli að láta fólk fara eftir umferðarreglunum. Og þó að við séum nú þegar farin að súpa seyðið af afleiðingum loftslagsbreytinga þá er sem betur fer ennþá tími til að bregðast við og tryggja að jörðin verði lífvænleg fyrir afkomendur okkar.

Ýmislegt er hægt að gera Það er mjög margt sem hægt er að gera til að breyta neysluvenjum sínum. Minimalískur lífsstíll er t.d. eitt af því sem fólk er að tileinka sér í auknum mæli. Tiltektarsérfræðingar skrifa hverja bókina á fætur annarri og búa til sjónvarpsefni í gríð og erg. Það virðist nefnilega vera málið að hlutirnir sem veittu fólki stundaránægju (e. instant gratification) þegar þeir voru keyptir eru farnir að valda fólki vanlíðan, kvíða og streitu. Hlutirnir safnast upp og verða að drasli. Það er kannski hægt að líkja þessu að einhverju leyti við óhollt samband okkar við mat og drykk. Við vitum alveg að við erum að kaupa eða borða of mikið en stundaránægjan drífur okkur áfram. Og afleiðingarnar geta verið alvarlegur heilsubrestur.

Stress fylgir draslinu Það sem fólk er í auknum mæli að átta sig á, er að drasl er streituvaldandi. Alveg eins og þegar fólk flykkist til einkaþjálfara eða í ræktina til að ná af sér aukakílóunum eftir jólin þá er núna í boði að fá aðstoð við að losna við drasl úr lífi sínu. Nýjasta æðið í tiltektarheiminum er KonMarie aðferð hinnar japönsku Marie Kondo. Hún hefur skrifað metsölubók um þessa tiltektaraðferð sína og er nýbúin að búa til vinsæla sjónvarpsþætti. Í þáttunum kemur þessi krúttlega japanska kona inn á heimili fólks og kennir aðferðir við skipulagningu og að losna við óþarfa drasl. Hún byrjar á að láta fólk safna öllu dótinu sínu í hrúgur, hvort sem það eru föt, bækur eða eldhúsáhöld, svo viðkomandi átti sig á umfanginu. Stundum eru þessar hrúgur svo stórar að fólk trúir ekki eigin augum. Svo þarf að fara í gegnum allt dótið, taka fyrir einn hlut í einu og ákveða hvort hann veiti fólki gleði eða ekki. Ef enginn neisti er milli þín og hlutarins, þá er honum þakkað fyrir og hann kvaddur. En þegar fólk tekur ákvörðun um að laga til hjá sér þá verður að leggja áherslu á að það nái að viðhalda nýju hegðuninni, annars er hætta á bakslagi. Alveg eins og með megrunarkúra. Þeir virka sjaldnast einir og sér því viðkomandi verður að breyta algjörlega um lífsstíl, annars koma aukakílóin strax aftur. Allt draslið sem liggur í hrúgum inni á heimilum og í skúrum jarðarbúa, sérstaklega Vesturlandabúa, er ein ástæða þess að jörðin okkar er að kikna undan álaginu. Drasl er nefnilega ekki bara drasl heldur mikil sóun á auðlindum og þann punkt finnst mér vanta inn í annars ágætar aðferðir Marie Kondo.

Drasl er það sem ekki er notað En hvaða hlutir verða að drasli? Drasl í mínum augum er ekkert endilega drasl í annars augum og drasl getur einnig verið verðlaust eða mjög verðmætt. Drasl getur verið peysa, sími, bók, sófi eða fótanuddtæki. Ef þessir hlutir eru ekki notaðir þá eru þeir því miður orðnir að drasli. En þessir hlutir voru allir gerðir úr náttúrulegum eða ónáttúrulegum efnivið og þeir voru líka allir hannaðir og búnir til af fólki. Sumir hlutirnir fóru í gegnum flókið ferli og langa leið til að komast í okkar hendur bara til þess eins að verða að drasli í geymslunni. Regnskógum var flett af landsvæðum til að komast í málminn sem er notaður í símana okkar og tölvur. Eiturefni voru notuð til að rækta bómullina og lita fötin okkar, eiturefni sem menguðu jafnvel grunnvatn. Olíu var pumpað upp úr jörðinni til að búa til eldsneytið okkar og plastið sem er næstum því í eða utan um allt sem við notum. Fólk veikist, er þrælað út og deyr við að búa til hluti sem við látum verða að drasli.

Stærsta umhverfissynd Rannveigar Við erum því miður flest með stórt kolefnisspor, hvort sem við vitum af því eða ekki. Og það er ekki þér að kenna að foreldar þínir notuðu einnota bleyjur á þig sem ungabarn, þau vissu jafnvel ekki betur og það var kannski ekkert annað í boði. Ég á sjálf of mikið af drasli og er að vinna í því að minnka það. Mín stærsta umhverfissynd er líklega sú að ég hef ferðast mjög mikið um ævina, en ævintýrin sem ég lenti í og lærdómurinn sem ég dró af þeim ferðalögum eru reyndar meðal annars ástæðan fyrir því að ég vinn við umhverfismál og náttúruvernd í dag.

Glittir í breytingu Við þurfum að komast upp úr djúpu hjólförunum, sem hafa verið smíðuð og slípuð af fyrirtækjum og stjórnvöldum heims síðustu öldina, sem hafa eitt markmið; að fá fólk til að kaupa hluti. Þegar kom í ljós að gömlu þvottavélarnar, tölvurnar, fötin, símarnir og eldhústækin voru of endingargóð, þá var tekið á það ráð að framleiða vörur sem endast skemur. Allt er þetta gert til að fá fólk til að henda og kaupa, henda og kaupa, kaupa og kaupa meira. Og vegna þessa neyslubrjálæðis eru geymslur fullar af drasli, skápar fullir af fötum, fólk er upp til hópa með samviskubit yfir öllu draslinu og við erum að eyðileggja jörðina okkar. Kröfurnar um græna hringrásarhagkerfið eru orðnar mjög háværar og nú er loksins farið að glitta í breytingu.

Virðing fyrir hlutunum Góðu fréttirnar eru að getum breyst til hins betra, minnkað kolefnissporið okkar og endurheimt geðheilsuna með því að einfalda líf okkar. Markmiðið með minimalískum lífsstíl er að einfalda lífið og að eiga og kaupa einungis þá hluti sem veita manni gleði og öryggi. Sumir praktískir hlutir, eins og t.d. reykskynjarar eru kannski ekki fallegir en þeir auka öryggi og veita manni hugarró. Það þarf að byrja á að losa sig við aukadraslið og endurnýta og endurvinna að sjálfsögðu allt sem hefur lokið sinni tilvist á heimilinu. Mér finnst KonMarie aðferðin falleg að því leyti, að hlutunum sem ekki er lengur þörf fyrir er þakkað. Þetta kann að hljóma væmið og óþarft, en í þessu þakklæti er að finna virðingu. Virðingu fyrir öllu því sem fólst í gerð hlutarins, virðingu fyrir umhverfinu og virðingu fyrir fólkinu sem tók þátt í að gera hlutinn og koma honum í þínar hendur. En svo hefst aðalvinnan, sem er að viðhalda þessum lífsstíl. Við þurfum að vera meðvituð í hvert sinn sem farið er í búð og hugsa um hvern einasta hlut sem kemur inn á heimilið. Það þarf að spyrja sig, veitir þessi hlutur mér gleði eða öryggi á einhvern hátt? Hef ég virkilega þörf fyrir þennan hlut? Þetta þarf einnig að hafa í huga þegar við gefum og þiggjum gjafir. Um leið og hlutur er orðinn að drasli í okkar augum þá þarf annað hvort að losna við hann eða finna honum nýtt hlutverk.

Minna er gott Minimalískur lífsstíll er ein besta leiðin til að vera umhverfisvænn í dag. Það má svo sannarlega borða góðan mat, safna frímerkjum og eiga fallega hluti sem veita gleði, en sýnum öllu sem við eigum virðingu og látum ekki lífsgæðakapphlaupið fara illa með okkur. Á tímum kulnunar og kvíða hefur aldrei verið mikilvægara að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu okkar. Nýr umhverfisvænn lífsstíll er því ekki bara góður fyrir jörðina og budduna heldur einnig fyrir okkur sjálf.

28 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page