Veidd af kónguló Ég var einu sinni veidd af risakönguló. Þetta hljómar kannski eins og atriði úr Hringadrottinssögu en í raunveruleikanum var þetta aðeins meinlausara en það og aumingja köngulóin kom miklu verr úr þessu en ég. Þessi stóra og litríka könguló tilheyrir fjölskyldu sem heitir Golden orb spider eða gullvefarar. Þetta tilvik gerðist fyrir allmörgum árum þegar ég var bakpokaferðalangur í Ástralíu. Ég var stödd í skógi í norðurhluta álfunnar og gekk fremst í flokki, spennt að sjá hvaða tegundir þarna væri að finna. Allt í einu labba ég grunlaus í gegnum risastóran köngulóarvef sem var svo stór að hann náði á milli tveggja trjáa. Ég skallaði vesalings köngulóna sem spriklaði um allt og þaut frá andlitinu á mér niður allan líkamann. Þetta var ansi óþægilegt verð ég að viðurkenna en þar sem ég elska köngulær þá var ég fljót að jafna mig. Aumingja köngulóin þurfti hins vegar að spinna risavefinn sinn alveg uppá nýtt.
Þessar tegundir köngulóa finnast víða um heim og aðallega í hitabeltislöndum. Búkurinn á þeim er um 5 cm langur, getur farið upp í 7 cm, og svo bætast við lappirnar. Kvendýrin eru alltaf stærri en karlarnir, en þeir eru pínkulitlir og hanga oft margir saman í kringum kvendýrið í von um að makast við hana. Þessar köngulær geta bitið en þær eru hræddari við okkur en við við þær og eitrið er ekki mjög hættulegt mönnum. Ég var því frekar heppin, bæði að sleppa ómeidd úr þessu, en einnig finnst mér ég hafa verið heppin að hafa komist í návígi við þessa flottu könguló.
Mikilvægar fyrir vistkerfið En hvað er annars svona merkilegt við köngulær? Margir eru hræddir við þær og sumir vilja bara losna alfarið við þær úr lífi sínu. Jú, sumar geta vissulega verið hættulegar og svo hlaupa þær líka hratt og eru oft óútreiknanlegar. Ein vinkona mín sagðist vera hræddust við þær þegar þær hverfa, hvert fór hún eiginlega? En köngulær eru sannarlega mjög mikilvægur hluti af vistkerfum jarðarinnar.
Köngulær komu fyrst til sögunnar fyrir um 400 milljón árum síðan og þetta eru algengustu afræningarnir á landi. Köngulær eru ekki skordýr, heldur tilheyra þær þeim flokki liðdýra sem nefnast áttfætlur, sem nafninu samkvæmt eru með átta lappir. Skordýr eru hins vegar alltaf með 6 lappir. Margar köngulær spinna vefi úr silki en sumar tegundir grípa bráðina beint, annað hvort með því að elta hana uppi eða með því að sitja fyrir henni. Allar köngulær nota hins vegar eitur til að drepa bráð sína. Köngulær finnast næstum allsstaðar í heiminum, í öllum heimsálfum nema Suðurskautinu. Þær finnast á ísköldu Norðurskautinu, í heitustu og þurrustu eyðimörkum heims, í djúpum hellum, strandsvæðum, í mýrum og jafnvel á fjallstoppum. Himalaya stökkköngulóin fannst til dæmis í 6.700 metra hæð á Everest og hún lifir á skordýrum sem fjúka upp fjallið. Köngulær geta oft búið margar saman og fundist hafa allt að 1000 einstaklingar á fermetra, en hafið engar áhyggjur þið sem eruð að hlusta, þetta var ekki á Íslandi.
Velgengni köngulóa er m.a. því að þakka að þær eiga auðvelt með að aðlagast erfiðum aðstæðum og svo geta þær dreift sér víða og langar leiðir með því að fljúga um á silkiþráðum. Sumar tegundir geta farið mjög langa leið í fæðuleit, allt að 30 kílómetra á sólarhring. Fæst mannfólk hreyfir sig svo mikið þrátt fyrir að vera margfallt stórfættari en köngulær.
Kóngulær borða og eru borðaðar Það eru alls þekktar yfir 45 þúsund tegundir köngulóa og allar þeirra eru kjötætur. Langmest éta þær af skordýrum og öðrum hryggleysingjum en sumar stórar köngulær narta einnig í stærri bráð eins og froska og eðlur og sumar eru meira að segja með aðrar köngulær á matseðli sínum. Þær eru ótrúlega miklar veiðiklær og éta um 400-800 milljónir tonna af fæðu á ári. Það er um það bil sama magn og mannkynið borðar af kjöti og fiski á ári. En köngulær eru einnig mikilvæg fæða fyrir önnur dýr og yfir átta þúsund tegundir fugla, rándýra og sníkjudýra lifa á köngulóm. Án köngulóa væri heimurinn því talsvert ólíkari því sem við þekkjum í dag og alls ekki jafn áhugaverður.
Þegar ég ferðaðist um og var búsett í Ástralíu var mikið talað um köngulær. Það var reyndar ekki skrýtið því þær voru um allt og sumar hverjar eru mjög eitraðar. Það hefur verið hægt að fá móteitur gegn eitruðustu tegundunum í áratugi og það hefur bara verið eitt dauðsfall vegna köngulóarbits í Ástralíu síðan 1981. Það eru margfalt fleiri dauðsföll af völdum býflugna en köngulóa, en samt er fólk sjúklega hrætt við þær.
Ein köngulóartegundin sem ég kynntist frekar náið á flakki mínu um Ástralíu heitir huntsman spider, eða veiðimannaköngulóin. Þær eru þekktar sem stóru, skelfilegu og loðnu köngulærnar sem hoppa til þegar fólk til dæmis dregur frá gluggatjöldin. En í rauninni bíta þær yfirleitt ekki, eitrið er ekki mjög hættulegt og þær hlaupa yfirleitt í burtu í stað þess að ráðast beint á fólk. Hættan sem af þeim stafar, er miklu frekar sú að ökumenn fara í brjálæðiskast og keyra út af þegar þessar könglær birtast allt í einu inn í bílnum. Þeim finnst greinilega gott að fela sig bak við sólskyggnið eða í mælaborðinu.
En mín reynsla af veiðimannaköngulóm er af öðrum toga. Ég var sjálfboðaliði við spendýrarannsóknir á Vesturströnd Ástralíu í nokkrar vikur og þurfti að vinna ein í nokkrar nætur í miðjum þjóðgarði. Tilgangurinn með þessu brölti var að fylgjast með ferðum sjaldgæfra pokadýra sem höfðu verið radíómerkt. Á 15 mínútna fresti, í nokkra klukkutíma í senn, þurfti ég að taka mælingar en þess á milli sat ég ein í myrkrinu og fylgdist með vetrarbrautinni, sem gnæfði yfir mér og þeim dýrum sem voru í nágrenninu. Ég beindi vasaljósinu í kringum mig til að skoða hvað væri að finna í myrkrinu og tók fljótlega eftir litlum punktum sem endurspegluðust í ljósinu, allt í kringum mig. Þeir voru alltaf tveir og tveir í einu. Þegar ég fór og kannaði málið þá sá ég að þetta voru veiðimannaköngulærnar fyrrnefndu, bókstaflega allt í kringum mig. En þær voru alveg sallarólegar og á lítilli hreyfingu. Þessar köngulær veiða ekki bráð í vefi heldur fara þær um og veiða sjálfar skordýr, aðra hryggleysingja og stundum litlar eðlur. Þær höfðu nákvæmlega engan áhuga á mér og við sátum þarna saman í myrkinu klukkutímum saman, ég og köngulærnar.
Ekki hræðast kóngulær Ég hef fullan skilning á því að fólk geti verið svolítið smeykt við köngulær en sannleikurinn er sá að íslensku tegundirnar, sem eru tæplega 100 talsins, eru allar sárameinlausar. Svo er algengur misskilningur að ein þekktasta áttfætlan á Íslandi sé könguló. Langfætla sem nefnist langleggur er nefnlega áttfætlan, eða köngulóin innan gæsalappa, sem flestir kannast við úr móanum og á að vísa manni á berjamó samkvæmt vísunni. Munurinn á köngulóm og langfætlum er aðallega sá að langfætlur eru hvorki eitraðar né spinna vefi. Langleggur, sem er einmitt með mjög langar lappir, er mjög mikilvægur í vistkerfum Íslands því hann finnst víða og í miklum fjölda um land allt. Hann veiðir önnur smádýr, étur rotnandi plöntuleifar, sveppi og fuglaskít svo dæmi séu tekin og svo er hann og allar aðrar áttfættlur á Íslandi afar mikilvæg fæða fyrir fugla. Þannig að næst þegar þið sjáið könguló utan á húsinu ykkar eða hittið langlegg í berjamó, hugsið vel til þeirra og njótið þess að fylgjast með þessum mögnuðu lífverum sem hafa jafn mikinn tilverurétt á þessari jörð eins og við.
Heimildir:
How high above the ground can life endure? http://www.bbc.com/earth/story/20150428-secrets-of-living-high-in-the-sky
Nyffeler, M. & Birkhofer, K. (2017). An estimated 400–800 million tons of prey are annually killed by the global spider community. Sci Nat 104: 30. https://doi.org/10.1007/s00114-017-1440-1
Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Áttfætlur. https://www.ni.is/biota/animalia/arthropoda/chelicherata/attfaetlur-arachnida
Vísindavefurinn. Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5355