top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Stærsta kóralrif heims að deyja


Hvað eru kóraldýr?

Kóraldýr eru botnlæg sjávardýr sem mynda og hlaða utan um sig kalkkenndu efni sem mynda kóralla og kóralrif. Kóraldýr eru holdýr eins og sæfíflar og marglyttur en ólíkt þeim mynda kóraldýr oft stór sambýli. Einstök kóraldýr minna svolítið á pínulitlar marglyttur á hvolfi en þetta eru rándýr sem veiða smádýr og annað æti með fálmurum sínum. En margir kórallar sem vaxa á grunnsævi fá mestan hluta af sinni orku og næringarefnum í gegnum samlífi við ljóstillífandi þörunga sem einnig gefa kóröllunum ótrúlega skæra og bjarta liti.

Steinkórallar eru ættbálkur kóraldýra sem byggja upp kóralrif og er Kóralrifið mikla við norðausturströnd Ástralíu að mestu gert úr steinkóröllum. Það er um 2.000 km á lengd og yfir 140 km á breidd og er eitt tegundaauðugasta vistkerfi Jarðar því kóralrifin sjálf eru heimili ótal margra tegunda af sjávarlífverum. Margir tengja kóralrif við hitabeltissjó en þau finnast einnig við Ísland og þau geta meira að segja myndað stór kóralrif á djúpsævi.

Ég hef snorklað á kóralrifjum við strendur Malasíu, Madagaskar og Ástralíu og get því sagt með sanni að kóralrif eru eitthvað sem ekki er hægt að fá leið á. Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar litið er undir vatnsborðið er litadýrðin og ég var heppin að sjá margskonar lífverur sem búa á kóralrifjunum. Ég sá fjöldann allan af fiskum ásamt allskonar furðulegum burstaormum, risasamlokum, sæbjúgum og marglyttum. Hjartað tók alltaf kipp þegar ég synti með sæskjaldbökum, það er eitthvað svo magnað að horfa á þær synda um í rólegheitunum, algjörlega áhyggjulausar yfir morgundeginum. En nú er morgundagurinn runninn upp og hann er ekki góður dagur fyrir kóralrifin og lífríki þeirra. Það getur tekið kóralrif margar aldir og jafnvel árþúsundir að myndast og loftslagsbreytingar eru nú þegar farnar að hafa skelfileg áhrif á þessi mikilvægu vistkerfi.

Kóraldýr svelta vegna mikil sjávarhita

Frá Ástralíu berast nú fréttir af stórfelldum skemmdum á Kóralrifinu mikla og talið er að um 90% af rifinu sé að einhverju leyti skemmt og sums staðar er kórallinn allur dauður á mjög stórum svæðum. Vísindamenn tóku fyrst eftir því árið 1981 að kórallinn væri að skemmast vegna of hás sjávarhita. Þetta var sama ár og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) setti Kóralrifið mikla á heimsminjaskrá og kallaði rifið „mikilfenglegasta sjávarsvæði í heiminum“. Þegar hiti sjávar fer yfir ákveðin mörk hverfa þörungarnir sem lifa samlífi með kóraldýrunum og þá missa kóralrifin lit sinn og verða beinhvít. Einnig hætta kóraldýrin að nærast almennilega því þörungarnir sáu þeim að mestu fyrir orku og næringu. Ef sjávarhiti helst of heitur of lengi, svelta kóraldýrin á stórum svæðum og dautt kóralrifið situr eftir, hvítt og eyðimerkurlegt. Dauði kóralrifjanna hefur skelfileg áhrif á allt lífríki sem þeim fylgir. Nokkrir stórir kóraldauðar fylgdu í kjölfarið næstu áratugina í Ástralíu og árið 2016 urðu vísindamenn enn og aftur varir við stóran kóraldauða en núna náði hann yfir um þriðjung Kóralrifsins mikla. Vistkerfið fékk nær engan tíma til að jafna sig eftir áfallið því um 12 mánuðum síðar, eða í byrjun árs 2017 dundi ógæfan aftur yfir og annar þriðjungur rifsins varð fyrir miklum skemmdum vegna hita. Talið er að jafnvel þó öll lönd sem skrifuðu undir Parísarsáttmálann efni loforð sín um að minnka losun á koltvísýringi, þá muni yfir 75% kóralrifja í heiminum skemmast fyrir árið 2070.

Til að bæta gráu ofan á svart þá eru fleiri hættur sem steðja að Kóralrifinu mikla, þar á meðal mengun frá landi, súrnun sjávar og krossfiskaplágur. Kóralrif geta náð sér ef þau fá tíma til að jafna sig á milli svona áfalla en árlegar skemmdir eins og eru að gerast núna hafa sett Kóralrifið mikla í stórkostlega hættu.

Af mannavöldum

Það er alveg ljóst að dauði Kóralrifsins mikla er ekki náttúruleg sveifla. Þetta stórkostlegasta sjávarvistkerfi Jarðarinnar er að deyja af mannavöldum. Ástandið er orðið það slæmt að árið 2016 var birt dánartilkynning í tímaritinu Outside Magazine. Greinin hófst á þessum orðum: „Kóralrifið mikla lést árið 2016 eftir langt dauðastríð, það var 25 milljóna ára gamalt.“ Greinin fékk heimsathygli en vakti samt ekki mikla kátínu meðal sumra vísindamanna því þeir höfðu áhyggjur af því að fólk héldi að það væri of seint að bjarga rifinu. Málið er nefnilega að það er ekki orðið of seint. Jú, kóralrifið er í stórkostlegum vanda og margar tegundir sjávarlífvera eru í hættu, en með breyttu hugarfari og aukinni baráttu gegn loftslagsbreytingum og súrnun sjávar, verður vonandi hægt að bjarga að minnsta kosti hluta af því. Það er samt ekki líklegt að þeir ferðalangar sem langar að sjá Kóralrifið mikla næstu áratugina muni sjá það sem ég var svo heppin að sjá. Kóralrifin sem ég sá þegar ég ferðaðist um Ástralíu voru svo litrík og full af lífi að mann hreinlega svimaði. Það er mjög sárt að hugsa til þess að núna eru þessi sömu kóralrif líklega orðin að hvítri eyðimörk.

Hvað getum við gert?

En hvað er hægt að gera hér á landi sem hjálpar kóralrifjum hinum megin á hnettinum? Kóraldauðinn er beintengdur loftslagsbreytingum sem einnig hafa mjög neikvæð áhrif á lífríki við Íslandsstrendur. Sem betur fer er margt hægt að gera til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og hér eru nokkur dæmi sem hægt er að gera án þess að það bitni á lífsgæðum okkar. Þessi dæmi geta meira að segja aukið lífsgæði okkar og heilsu ef eitthvað er.

Í fyrsta lagi er hægt að finna umhverfisvænni leiðir til að koma sér á milli staða. Það er hægt að byrja á því að keyra aðeins minna og ganga, hjóla eða taka strætó meira. Útivera og hreyfing eykur þar að auki vellíðan og sparar pening. Þegar næst er keyptur bíll má kanna möguleikann á því að kaupa umhverfisvænan bíl, þetta er sem betur fer orðinn raunhæfur kostur í dag. Ferðalög eru nauðsynlegur þáttur af lífinu hjá mörgum, þar á meðal mér, og í dag er oft hægt að velja vistvæna ferðamennsku þar sem náttúran nýtur vafans og kolefnissporinu er haldið í lágmarki.

Í öðru lagi er hægt að taka til í neyslunni. Ofneysla okkar mannfólksins er að valda gríðarlega neikvæðum áhrifum á loftslagið og eigin heilsu. Einn auðveldur kostur er einfaldlega að kaupa minna. Annar, betri kostur, er að kaupa minna ásamt því að breyta neyslunni þannig að bæði umhverfisvænni vörur séu keyptar og einnig vörur sem hafa ekki verið fluttar yfir hálfan hnöttinn. Öll sóun er skaðleg umhverfinu og eykur á loftslagsbreytingar. Segjum bless við matarsóun, tískusóun og notum hlutina okkar lengur. Endurvinnum svo allt sem við erum hætt að nota.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að ræða lausnir gegn loftslagsbreytingum við fólkið í kringum okkur, fyrirtæki og ekki síst, stjórnmálamenn. Ísland skrifaði undir Parísarsáttmálann og stjórnvöld verða að bretta upp ermar núna strax ef við ætlum að ná markmiðum okkar. Helst þyrfti að gera miklu meira, miklu fyrr og almenningur getur svo sannarlega haft mikil áhrif hvað þetta varðar. Það er mikið í húfi fyrir Ísland að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar, bæði fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð og einnig fyrir okkur sem ferðamenn sem langar kannski að fara einhvern tímann og sjá lifandi kóralrif með eigin augum hinum megin á hnettinum.


61 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page