top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Þrjár lausnir við plastvandanum


Góðar plastfréttir Fjöldaframleitt plast hefur fylgt manninum frá síðari heimsstyrjöld og þetta undraefni hefur gjörbylt neyslu og hegðun fólks. Einnota vörur þekktust varla hér áður fyrr en núna er hægt að halda heilu veislurnar með einnota vörum. Mörgum finnst afskaplega þægilegt að geta sópað öllu draslinu í stóra svarta ruslapoka eftir partýið og hugsa ekki meir um það. Og þar kristallast einmitt vandamálið því plast er mjög ódýrt og mörgum finnst það einfalda lífið. Þess vegna er erfitt að leysa þetta vandamál. Það er erfitt að biðja fólk um að hætta að nota plast ef ekki eru til hentugar lausnir.

Talið er að um milljón sjófuglar og 100 þúsund sjávarspendýr og skjaldbökur drepist árlega vegna þess að þau festast í eða éta plast. Risastórir plastflákar finnast í heimshöfunum og plast safnast þar saman vegna hafstrauma. Einn stærsti plastflákinn er í Kyrrahafinu og nær yfir svæði sem er að minnsta kosti sjöfalt stærra en Ísland og jafnvel mun stærra. Talið er að um 80% af því plasti sem nú er í sjónum sé frá landi og afganginn megi að mestu rekja til sjávarútvegsins. Plastið í sjónum er því mikið til hlutir eins og einnota umbúðir, plasthnífapör, plastflöskur, plastpokar, föt, sogrör, tannburstar og leikföng. Þessir hlutir brotna svo niður í smærri agnir sem kallast örplast og skapa enn meiri hættu fyrir lífríkið. Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við“ en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050. Þetta eru óhuggulegar staðreyndir sem loksins virðast vera að ná eyrum bæði almennings og stjórnvalda.

Plastbann Fyrsta landið sem setti hömlur á plastnotkun var Bangladesh sem árið 2002 bannaði þunna burðarplastpoka. Þetta bann var sett á í kjölfar þess að plastpokar stífluðu drenlagnir í landinu sem olli skelfilegum flóðum í tveimur þriðju hluta landsins. Stjórnvöld í þónokkuð mörgum löndum hafa nú þegar gripið í taumana og sett takmarkanir eða algjört bann við notkun einnota burðarplastpoka. Sums staðar nær bannið yfir meira en plastpoka. Frakkar hafa t.d. bannað plastglös, plastdiska og plasthnífapör frá og með 2020 og Indland bannaði nýlega plastpoka, plastglös og plasthnífapör í borginni Delí. Í fylkinu Sikkim á Indlandi var árið 2016 sett bann á matarílát úr frauðplasti og einnig er þar bannað að nota vatn í plastflöskum á fundum og viðburðum á vegum stjórnvalda.

Á Íslandi hafa nokkur samfélög dregið út notkun einnota plastpoka og má þá nefna sérstaklega Stykkishólmsbæ þar sem farið var í tilraunaverkefni um burðarplastpokalaust sveitarfélag árið 2014. Yfir 7500 manns hafa skrifað undir áskorun til umhverfisráðherra um að banna einnota plastpoka en með slíku banni gæti Ísland orðið leiðandi afl í umhverfisvernd á heimsvísu.

Umbúðir sem brotna niður í náttúrunni Tilgangurinn með burðarplastpokum er að koma vörunum þínum úr búðinni og heim. Það er frekar auðvelt að skipta burðarplastpokum út fyrir fjölnota poka eða bakpoka. Vandamálin hrúgast hins vegar upp þegar um ræðir annarskonar plast sem notað er í einnota plastvörur eins og umbúðir og einnota glös, diska og hnífapör. Í þessum tilvikum vantar efni sem hafa svipaða eiginleika og plast en brotna algjörlega niður í náttúrunni. Það er búið að gera fjölmargar tilraunir með svona lífplast sem unnið er úr sterkju og ég hlakka til framtíðar þar sem matvöru er pakkað inn í lífplast sem unnið er úr aukaafurðum þeirrar vöru sem um ræðir. Til dæmis gæti rækjusalatið verið pakkað inn í lífplast sem er unnið úr rækjuskel, tómötum í lífplast úr gömlum tómatplöntum og appelsínusafinn í appelsínubarkarlífplast. Möguleikarnir eru óteljandi en það vantar fjármagn til að koma þessum spennandi hugmyndum úr rannsóknastofunum yfir í fjöldaframleiðslu. Hér koma þrjú dæmi um vöruhönnun sem kemur í staðinn fyrir einnota plast.

Ætt plast Fyrsta dæmið tekur á plasthringjunum sem festir eru utan um gos- og bjórkippur. Þessir plasthringir enda oftar en ekki í sjónum og valda lífríkinu miklum skaða. Bæði festast dýr eins og fuglar og skjaldbökur í hringjunum og einnig brotnar plastið niður í minni og minni einingar sem dýrin halda að sé fæða.

Þessir plasthringir hafa einungis einn tilgang og hann er að halda kippu af dósum saman þannig að auðveldara sé að bera þær á milli staða. Um leið og plastið er tekið af dósunum, þá hafa hringirnir misst tilgang sinn og eru orðnir að rusli. Það er vel hægt að endurvinna plasthringina en samt endar hluti þeirra í sjónum. Bandaríkjamenn einir drekka tæplega 23 milljarða lítra af bjór ár hvert og helmingurinn kemur í dósum. Þessum dósum fylgja óhjákvæmilega hinir alræmdu plasthringir og stór hluti af þeim endar í sjónum.

Þetta plastvandamál varð til þess að hugmynd kviknaði hjá litlum bjórframleiðanda í Flórída í Bandaríkjunum. Hvað ef hægt væri að búa til æta bjórkippuhringi sem dýrin gætu étið í stað þess að festa sig í? Þetta litla brugghús sem heitir Saltwater Brewery þróaði æta hringi sem brotna að fullu niður í náttúrunni. Þeir eru búnir til úr þeim bygg- og hveitiafgöngum sem falla til við bjórframleiðsluna. Þarna er því verið að nýta hráefni og aukaafurðir sem annars yrði fleygt og búin til verðmæti úr því. Framleiðsla verður ekki mikið sjálfbærari en þetta. Það fallega við þessa hugmynd er að hún er sprottin úr grasrótinni, frá sjómönnum, brimbrettafólki og öðrum sem elska sjóinn og hafa áhyggjur af lífríki þess. Þetta var stór fjárfesting fyrir lítið brugghús en þau vonast til að hugmyndin hvetji stóru bjór- og gosfyrirtækin til að taka þátt í þessari byltingu og bjarga þannig milljónum sjávardýra úr hættu.

Æt mataráhöld​​

Annað dæmið eru ætu skeiðarnar hans Narayana Peesapaty á Indlandi. Hann hefur miklar áhyggjur af bæði plasti og ósjálfbærum landbúnaði og sló því tvær flugur í einu höggi þegar hann hóf framleiðslu á ætum skeiðum. Þessar skeiðar eru framleiddar úr hirsi sem er vinsæl korntegund á Indlandi. Það þarf 60 sinnum minna vatn til að framleiða hirsi en hrísgrjón og Narayana sá þarna tækifæri til að gera landbúnaðinn aðeins sjálfbærari og losna við einnota plasthnífapör sem valda mikilli mengun á Indlandi. Skeiðarnar eru það harðar að þær endast út máltíðina og í lokin er annað hvort hægt að borða skeiðarnar eða setja í moltutunnuna. Eitt það albesta við þessa hugmynd er að framleiðslan er næstum því jafn ódýr og framleiðsla á plasti en í staðinn er komin einnota vara sem brotnar alveg niður í náttúrunni.

Vatnsflasta úr vatni

Þriðja dæmið eru vatnsflöskurnar hans Ara Jónssonar, nema í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Hann setti sér það markmið að búa til vatnsflösku úr vatni og hefur hannað og útbúið flösku úr gelatíni, rauðþörungum og vatni sem brotnar niður í náttúrunni á nokkrum dögum[8],[9]. Þessi vatnsflaska heldur formi sínu á meðan það er vökvi í henni en brotnar svo sjálfkrafa niður á nokkrum dögum eftir að vatnið hefur verið drukkið. Þar sem flaskan er búin til úr efnum sem eru í raun bara matur, þá mætti jafnvel borða flöskuna líka.

Þessi þrjú dæmi sýna að lausnir á plastvandamálinu eru ekki svo langt undan. Það er ekki raunhæft að fólk hætti alfarið að nota einnota vörur og því er mikilvægt að finna umhverfisvænar lausnir. Það verður að hlúa vel að þessum frumkvöðlum sem finnast út um allan heim, líka á Íslandi, svo að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika.

152 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page