Samkeppni leiddi af sér sjábærni
Haustið 2014 heimsótti ég dönsku eyjuna Samsø og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Eyjan er bæði stútfull af skemmtilegu og skrýtnu fólki en einnig sveipuð einhverskonar dulúð sem erfitt er að lýsa. Mannkynssaga eyjarinnar hófst við lok ísaldar og þarna er að finna minjar frá steinöld, bronsöld og víkingatímanum. Þegar ég stóð á ströndinni og horfði til hafs þá hefði það ekki komið mér mjög á óvart þó ég hefði séð víkingaskip við sjóndeildarhringinn. En ástæða ferðar minnar til Samsø voru hvorki víkingar né fallegt landslag heldur sjálfbær orka. Þó það búi einungis tæplega 4000 manns á eyjunni, á bóndabæjum eða í litlum þorpum, þá er þetta samfélag 100% sjálfbært um orku. Hvernig gat það gerst?
Forsaga málsins er sú að Danmörk setti sér það metnaðarfulla markmið árið 1996 að auka endurnýjanlega orkuframleiðslu þannig að hún yrði 35% af heildarorkuframleiðslu landsins árið 2030. Eftir þriðja aðildaríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna í Kyoto árið 1997, þar sem Kyoto bókunin var samþykkt, kom Svend Auken, fyrrum umhverfisráðherra Danmerkur spenntur heim. Hann var ákveðinn í að Danmörk skyldi ná markmiðum sínum í orkumálum og efndi til samkeppni þar sem samfélög eða eyjar voru beðnar um að senda inn tillögur að raunhæfri áætlun að 100% umskiptum yfir í endurnýjanlega orku. Umsækjendur þurftu að horfa til margra þátta, þar á meðal þurftu orkuskiptin að eiga sér stað í öllum geirum, sérstaklega í upphitun húsa, rafmagnsframleiðslu og samgöngum. Einnig þurfti að sýna fram á þátttöku og samþykki íbúanna sjálfra, fyrirtækja á svæðinu og sveitarstjórnarinnar. Að lokum þurfti að koma fram í umsókninni hvernig sigurvegarinn myndi kynna sig sem fyrirmynd í sjálfbærri orku fyrir umheiminum. Fjórar eyjar og einn skagi sendu inn umsóknir og eyjan Samsø varð fyrir valinu.
Vindmyllur sem mala gull Eyjaskeggjar sameinuðust í þessu mikilvæga verkefni og létu svo sannarlega hendur standa fram úr ermum næstu árin. Þetta var samt ekki alltaf auðvelt og það fór heilmikið púður í að sannfæra suma íbúa um að þetta væri góð hugmynd. Þar sem engir ríkisstyrkir fengust fyrir framkvæmdunum þurftu íbúarnir sjálfir að fjárfesta í vindmyllum og öðrum sjálfbærum orkugjöfum. Um 3200 manns, um 80% íbúa, fjárfestu persónulega í 70% af þessum sjálfbæru orkumannvirkjum, aðallega vindmyllum, sem kostuðu samtals um 58 milljónir evra. Þessi fjárfesting tókst einungis vegna þess að samfélagið sameinaðist í þessu átaki og búið var þannig um hnútana hjá stjórnvöldum og bankanum að allir íbúar sem vildu verða hluthafar í vindmylluverkefninu fengu lán til þess. Bankarnir töpuðu engu og núna mala þessar vindmyllur gull því öll aukaorka sem er framleidd á þessari vindasömu eyju er seld til meginlandsins. Íbúarnir horfa stoltir á vindmyllurnar sínar og finnst þær miklu fallegri en áður því þær hafa heldur betur breytt lifnaðarháttum á eyjunni til hins betra. Ég hjólaði um alla eyjuna og fannst vindmyllurnar mjög tignarlegar og fallegar því tilgangur þeirra er svo göfugur. Orkan sem kemur með hverjum snúningi knýr daglegar þarfir venjulegs fólk sem var tilbúið að leggja allt í sölurnar fyrir umhverfisvænt líf. En það var ekki bara skipt yfir í sjálfbæra raforku heldur var einnig byrjað að kynda húsin á sjálfbæran hátt. Sólarorka ásamt brennslu á hálmi, sem er aukaafurð í ræktun byggs, ásamt viðarkurli úr skógum Samsø er notuð til að hita vatn og hús. Eyjaskeggjar hafa þar að auki verið duglegir við að skipta bílum sínum út fyrir rafbíla og sveitarfélagið hefur meðal annars sett upp stóra hleðslustöð í bifreiðaskýli sem knúið er af sólarsellum sem er raðað þannig upp að þær eru sjálft þakið á skýlinu. Golfvöllurinn á Samsø er sleginn með sólarrafhlöðuknúinni sláttuvél og þang notað í stað tilbúins áburðar á grasið. Það er meira að segja verið að gera tilraunir með niturbindandi smárategundir í jaðri golfvallarins til að bæta jarðveginn og koma í veg fyrir notkun á illgresiseyði. Þegar ég heimsótti golfvöllinn tók á móti okkur maður sem talaði dönsku með svo þykkum Samsø hreim að það var ekki nokkur leið að skilja hann. En þrátt fyrir þessa hnökra í samskiptum fór ekki á milli mála hve mikla ástríðu þessi ágæti maður hafði fyrir golfvellinum sínum og hve stoltur hann var af umhverfisvænu sláttuvélinni sinni.
Áætlað er að ferjan, sem fer milli Jótlands og Samsø og var knúin díselolíu, skipti alfarið yfir í lífgas (e. biogas) sem verður að öllu leyti unnið úr hráefnum frá eyjunni sjálfri. Í millitíðinni er nú notað jarðgas, sem er mun skárri kostur en díselolía.
Þær vindmyllur, sem staðsettar eru á sjó sunnan við Samsø, framleiða nægt rafmagn til að vega upp á móti þeirri brennslu á jarðefnaeldsneyti sem eftir stendur, þ.e. olíubrennslu á heimilum og bensín- og díselbílum í eigu íbúa. Þannig má segja að Samsø sé 100% sjálfbær um orku, en framtíðarplön eyjunnar eru að losna algjörlega við allt jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030.
Umhverfisvæn á fleiri sviðum Samsø stendur einnig mjög framarlega þegar kemur að öðrum umhverfismálum. Á eyjunni er stundaður mikill lífrænn búskapur og ég verð að segja að allur matur sem ég fékk í heimsókn minni var mjög góður. Við gistum á mjög sjarmerandi gistihúsi sem var líka veitingastaður og þar lagði eigandinn sig fram við að stunda enga matarsóun. Hún sýndi mér hvað hún vandaði sig við skipulagningu á innkaupum, skammtastærðum þar sem gert er ráð fyrir að karlar borði aðeins meira en konur og nýtingu hráefnis. Þegar við horfðum á diskahrúguna eftir kvöldmatinn þá voru næstum engar matarleifar á þeim. Þeim svöngu matargestum sem þykja skammtarnir of litlir, er boðin smá ábót en hún sagði að það væri mjög sjaldan sem það gerðist.
Orkusetur Samsø (Energy Academy) tók til starfa árið 2007 og er vistvænt hús sem er hannað þannig að það sparar orku. Regnvatn er notað til að sturta niður í klósettum, húsið er hitað með brennslu á hálmi, veggir eru vel einangraðir og rafmagn er fengið með sólarsellum og vindorku. Orkusetrið er vettvangur fyrir m.a. vísindamenn, nemendur, fyrirtæki og stjórnmálamenn til að ræða sjálfbæra orku, orkusparnað, nýjar tækniframfarir og læra af reynslu Samsøbúa hvernig þeim tókst á 10 árum að verða sjálfbærir um orku.
Samsø er lítil eyja og þar er að finna viljasterkt og framsækið fólk sem var til í að hoppa út í djúpu laugina í þágu umhverfisins. Þessir hugrökku frumkvöðlar sýndu að framtíð sjálfbærrar orku er ekki bara möguleg heldur felast í henni einnig mörg tækifæri, arðsemi, jákvæð ímynd og von um betri heim. Fleiri samfélög en Samsø hafa valið að fara sjálfbæru leiðina í raforkuframleiðslu og má nefna Orkneyjar og Costa Rica sem dæmi. Þó Ísland sé einnig framarlega í framleiðslu á umhverfisvænni raforku þá er langt í land að við getum kallað okkur kolefnishlutlausa þjóð. Jarðefnaeldsneyti ræður enn ríkjum, m.a. á götum okkar, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði og þörf er á mikilli endurheimt vistkerfa landsins eins og votlendis. Ísland ætti að velja sjálfbæru leiðina og stefna að kolefnishlutleysi sem allra fyrst. Langbest væri ef við gætum farið enn lengra og bundið meira kolefni í gróðri og jarðvegi en við losum. Við getum það alveg ef við fetum í fótspor eyjaskeggja Samsø.