top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Amma kláraði alltaf af disknum


Hvað kom fyrir yngri kynslóðirnar?

Amma mín var stórmerkileg kona. Hún kenndi mér dýrmætar lexíur í sambandi við matarsóun, löngu áður en orð var búið til yfir þetta undarlega fyrirbæri sem matarsóun er. Hún kenndi mér t.d. að maður ætti að borða allan ostinn og þegar ég fékkst ekki til að borða þurra krumpaða ostendann ofan á brauðið mitt þá hristi hún bara hausinn og borðaði hann sjálf eða notaði í annan mat.

Eldra fólkið okkar skilur ekkert í yngri kynslóðunum að henda mat því það hefur alltaf litið á matvæli sem mikil verðmæti. En hvað kom fyrir yngri kynslóðirnar? Eru þær búnar að missa tenginguna við matvælin, hvaðan þau koma og hvað þau raunverulega kosta? Árið 2013 tóku 27.500 börn og ungmenni þátt í breskri könnun á vegum bresku næringarfræðisamtakanna. Þar kom fram að tæplega 30% barna á aldrinum 5-11 ára héldu að ostur væri gerður úr plöntum. Þar að auki hélt tíundi hver nemandi á aldrinum 11-16 ára að tómatar yxu neðanjarðar og næstum fimmtungur nemenda á aldrinum 5-8 ára hélt að fiskifingur væru búnir til úr kjúklingi. Þetta er svo sannarlega ótrúlegt. Hvaða gervi veröld eru börnin eiginlega að upplifa?

Ég á þetta og má þetta

En spólum aðeins til baka, hvað er eiginlega matarsóun? Matarsóun er, þegar ætum hluta matvælanna er hent. Þetta gerist þegar við hendum mat sem við höldum að sé skemmdur, þegar elduðum afgöngum er hent og líka þegar við nýtum ekki öll matvælin, t.d. eftir að þau hafa verið skorin niður. Það er hins vegar ekki matarsóun að henda kaffikorgi, eggjaskurn, ávaxtahýði beinum og brjóski, því þetta eru hlutar matarins sem við getum yfirleitt ekki borðað. Og ég segi reyndar yfirleitt, því ég á mexíkanska vinkonu sem skilur ekki örðu eftir af kjúklingnum sínum, hún brettir upp ermarnar, notar puttana, kroppar vandlega allt ætt af beinunum eins og hrafn og bryður meira að segja brjóskið. Þetta kalla ég sko nýtingu, því margir sem borða kjöt, skilja oft mikið kjöt eftir á beinunum, það er jú erfitt að ná öllu af þegar maður er penn og notar hníf og gaffal.

En af hverju er svona slæmt að sóa mat? Ég hef heyrt þau viðhorf að þegar maður er búinn að kaupa matinn, þá á maður hann og maður getur bara gert það sem manni sýnist við hann. En málið er bara ekki svo einfalt. Um þriðjungur matvæla í heiminum sóast einhverstaðar í virðiskeðjunni, á akrinum sjálfum, hjá flutningsaðilum, búðum, veitingastöðum og á heimilunum. Í dag er mannkynið komið yfir 7,4 milljarða og auðlindir Jarðarinnar hafa aldrei fyrr verið jafn viðkvæmar og einmitt núna. Því þegar við ræktum mat þá erum við líka að nota auðlindir. Til að rækta matvæli þarf meðal annars landsvæði, vatn, áburð, olíu og orku og þegar við sóum mat þá erum við að sóa þessum auðlindum í leiðinni og stuðla að auknum loftslagsbreytingum. Það er einnig grátlegt að hugsa til þess að dýr séu fjöldaframleidd til matvælaframleiðslu við hræðilegan aðbúnað til þess eins að enda á ruslahaugunum.

Er ísskápurinn líkkista?

Það hafa flestir lent í því að setja afgangs matvæli í ísskápinn í þeirri góðu trú að þau verði borðuð síðar en finna þau svo löngu seinna þegar þau eru orðin ónýt og illa lyktandi. Ísskápar eru því miður margir þannig að þeir líkjast meira líkkistum en matarkistum. Þeir eru troðfylltir af matvælum og svo er öllu reglulega skóflað út sem er orðið ónýtt til að gera meira pláss fyrir mat sem verður svo líka sóað. Þetta á jafnt við um stórfjölskyldur og þá sem búa einir. Áætlað hefur verið að reykvískar fjölskyldur séu að sóa því sem samsvarar sunnudagsmáltíð í hverri viku. En góðu fréttirnar eru þær að með smá skipulagningu á heimilinu, er auðvelt að snúa þessari þróun við og spara í leiðinni heilmikinn pening.

Fyrsta skrefið í átt að matarsóunarfríu lífi er að skipuleggja máltíðir fram í tímann og vera útsjónasamur þegar kemur að því að nýta afganga. Það er um að gera að nýta frystinn vel og halda vel utan um hvað er í honum svo hann breytist ekki líka í líkkistu eins og ísskápurinn. Ef maður fer svangur út í búð þá er fjandinn laus, ég þekki það af eigin raun, og þegar maður kemur úr búðinni þá er sniðugt að setja nýjustu matvælin aftast í skápana til þess að þau sem fara fyrst inn, fari fyrst út aftur. Svo er gott er að hafa eina til tvær máltíðir í viku sem hreinsa vel úr skápum, nýta allt afgangs kjöt og grænmeti og það sem geymist illa. Það er enginn að segja að það eigi að borða skemmd matvæli, lykillinn er að kaupa minna og borða matinn áður en hann nær að skemmast.

Útrunnið ekki það sama og ónýtt

Það er einnig mjög mikilvægt að átta sig á því að á matvælum geta verið tvær mismunandi „dagsetningar“. Fyrri dagsetningin er „síðasti notkunardagur“ og hún er notuð á mat sem er viðkvæmur fyrir örverum, aðalatriðið hér er að varan getur verið hættuleg heilsu fólks eftir að sú dagsetning er liðin. Seinni dagsetningin er „best fyrir“ og hún er notuð á mat eins og þurrvörur, mjólkurvörur og matvæli í krukkum og dósum. Samkvæmt nýlegri reglugerð um merkingu matvæla mega búðir nú selja vörur sem komnar eru fram yfir „best fyrir“ dagsetninguna ef þær eru í neysluhæfu ástandi. Þær þurfa því að sjálfsögðu að lykta, líta út og smakkast eðlilega og einnig að vera aðgreindar frá öðrum vörum. Ég vona innilega að þetta fari að sjást betur í búðum. En margir eru smeykir við þessar dagsetningar og halda að maturinn skemmist jafnóðum eða jafnvel áður en hin heilaga „best fyrir“ dagsetning á matvöru rennur upp. Ég kannast sjálf við þessa tilfinningu frá því ég var unglingur þrátt fyrir að hafa verið alin upp við nýtni af foreldrum mínum. En þetta er ekkert flókið, ef fólk stendur sig að því að hella niður mjólk lon og don vegna dagsetningarinnar, þá er fólk að kaupa allt of mikla mjólk. Það má líka ekki gleyma því að gamla mjólkin í ísskápnum er fullkomin afsökun til að búa til pönnukökur og vöfflur.

Það er svolítið í tísku núna að eiga flennistóra matardiska. Þeir komast reyndar ekki alltaf inn í skápana því þeir eru svo stórir en þeir geta verið tilkomumiklir á borðinu. Staðreyndin er samt sú að stórir diskar geta stuðlað að matarsóun. Mann hættir nefnilega til, að skammta sér allt of mikinn mat ef það er nóg pláss á diskinum og maginn er galtómur. Ef gamla stellið hennar ömmu er borið saman við nýju stellin, þá sést klárlega hve diskastærðir hafa stækkað í gegnum árin. Nýju desert diskarnir eru í raun svipað stórir og gömlu matardiskarnir. Þetta er svolítið merkilegt.

Hún amma mín var fín og falleg frú sem upplifði alvöru kreppu þegar hún var ung og kunni því að meta lífsins gæði. Hún lét afa minn alltaf klára kartöflurnar og annan afgang, jafnvel þó hann væri löngu orðinn saddur. Ég líkist henni stundum því ég hef tilhneigingu til að gera slíkt hið sama við mitt fólk, sérstaklega á veitingastöðum þar sem ég ræð ekki skammtastærðinni sjálf. En ég mæli alls ekki með því að troða í sig mat bara til að klára, en í huga ömmu, og flestra af hennar kynslóð, þá voru það algjör helgispjöll að sóa mat, það jafnaðist hreinlega á við það að henda peningum í ruslið. Matarsóun er stórt umhverfisvandamál sem tekst ekki að leysa nema við tökum öll höndum saman og ég hvet alla til að byrja nýjan matarsóunarlausan lífsstíl í dag.

42 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page