top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Umhverfisáhrif kjötáts


Kjöt og kjötát Það er mikið talað um kjöt og kjötát í umhverfisverndarbaráttunni og margir sem hafa skoðanir á því. Vaxandi hópur fólks hefur áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga og horfir með hryllingi á fjöldaframleiðslu dýra og borðar þar af leiðandi ekki kjöt og jafnvel ekki kjötafurðir. Á sama tíma geta aðrir í samfélaginu ekki hugsað sér lífið án kjöts og enn aðrir, og í þeim hópi er ég sjálf, reyna að feta einhvern meðalveg. Mannskepnan er í eðli sínu alæta en kjötát hefur aukist gífurlega í heiminum síðustu áratugina. Á sjöunda áratugnum var árleg meðalneysla kjöts í heiminum um 24 kg á mann en árið 2015 var hún rúmlega 41 kg á mann og því er spáð að neyslan muni hækka enn meira næstu áratugina. Í þróunarlöndunum hefur kjötneysla þrefaldast frá sjöunda áratugnum og í Austur Asíu hefur hún meira en fimmfaldast á þessum tíma. Þegar horft er til heilsufars í tengslum við kjöt þá benda margar rannsóknir til þess að óhófleg kjötneysla hafi neikvæð áhrif á heilsu fólks. Það hefur t.d. verið metið að fyrir hver 50 g af unnum kjötvörum sem neytt er daglega eykst hættan á ristilkrabbameini um 18%. Með unnum kjötvörum er átt við kjöt sem er reykt, saltað eða rotvarið. Einnig bendir nýleg rannsókn til þess að mikil neysla á rauðu kjöti auki tíðni dauðsfalla vegna m.a. krabbameina, hjartasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og heilablóðfalls. Landlæknisembættið mælir með hóflegri neyslu á rauðu kjöti og takmarka hana við 500 g á viku en þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi. Óhætt er því að segja að mikill fjöldi Jarðarbúa, borði allt of mikið kjöt og því fylgir óhjákvæmilega aukið álag á vistkerfi Jarðar, bæði á sjó og landi, ásamt því að stuðla að loftslagsbreytingum.

Hvað borða dýrin sem við borðum? Kjötframleiðslu í heiminum er í grófum dráttum hægt að skipta í tvennt. Í fyrsta lagi er það verksmiðjuframleiðslan, þar sem dýrin éta aðallega tilbúið fóður og sjá varla eða aldrei til sólar og í öðru lagi eru það bú þar sem dýrin eru að einhverju eða öllu leiti frjáls ferða sinna og éta minna tilbúið fóður. Þessum tveimur aðferðum fylgja bæði kostir og gallar. Verksmiðjuframleiðslan er oft ómannúðleg en henni getur fylgt minni losun gróðurhúsalofttegunda á hvert dýr á meðan frjálsum dýrum líður betur en þau fara oft mjög illa með land og landgæði.

Einn fylgifiskur aukinnar kjötframleiðslu í heiminum er eyðing regnskóga. Bæði er verið að rækta nautgripi á svæðum þar sem regnskógur hefur verið ruddur, eða dýrafóður er ræktað á þessum svæðum. Rómanska Ameríka, sem er Suður- Ameríka, Mið-Ameríka, Mexíkó og karabísku eyjarnar, er stærsti útflytjandinn á nauta- og hænsnakjöti í heiminum. Kjötframleiðsla á regnskógasvæðum Suður-Ameríku hefur mjög slæm áhrif á þessi mikilvægu vistkerfi. Dæmi eru um svokallaðan „nautgripaþvott“ (cattle laundering) en þá eru dýrin ræktuð á svæðum sem regnskógur hefur ólöglega verið ruddur, og svo flutt, rétt fyrir slátrun, á lögleg svæði þar sem þau eru stimpluð sem umhverfisvæn framleiðsla. Eitt alvarlegasta dæmið um regnskógaeyðingu vegna dýrafóðurs er stórfelld sojabaunaframleiðsla í fyrrum regnskógum Suður-Ameríku. Um 75% af soja sem framleitt er í heiminum fer í dýrafóður, m.a. í Bandaríkjunum og Evrópu. Það er því alveg eins líklegt að kjötát í Evrópu hafi regnskógaeyðandi afleiðingar sem neytandinn hefur ekki hugmynd um. Að auki eru sojaplantekrur oft sprautaðar með miklu magni af illgresiseyði sem hefur víðtæk og slæm áhrif á lífríki og jarðveg og berst einnig í sojaplönturnar sjálfar og vinnufólk á plantekrum.

Gróðurhúsaáhrif kjötáts Sérfræðingar hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hafa reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá hefðbundinni kjötframleiðslu og framleiðslu dýraafurða í heiminum. Um er aðallega að ræða nautgripi, svín, kindur, geitur, hænur og afurðir þeirra eins og egg og mjólk. Þegar allt er tekið með í reikninginn er áætlað að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi 14,5% af allri manngerðri losun gróðurhúsalofttegunda. Nautgripir, sem ræktaðir eru bæði fyrir kjöt og mjólk, er sú dýrategund sem losar langmest af gróðurhúsalofttegundum. Framleiðsla á kjúklingum og svínakjöti losar þriðjungi minna af gróðurhúsalofttegundum en framleiðsla á nautakjöti. Kjötframleiðendur og umhverfissinnar rífast að sjálfsögðu um þessar tölur, framleiðendurnir telja þær vera of háar og umhverfissinnar telja þær vera allt of lágar. En það skiptir kannski ekki öllu máli hver talan er nákvæmlega, hún er há og það þarf að snúa við þessari óhóflegu kjötneyslu. Ofan á allt saman, ef litið er til matarsóunar, þá er verið að framleiða kjöt með miklum umhverfisáhrifum einungis til að henda þriðjungi af því. Mikið af kjöti, sem er sóað, endar í urðun og þar veldur það enn meiri aukningu á gróðurhúsaáhrifum.

Getur þú minnkað kjötát? Það er að mínu mati óraunhæft að fá alla til að hætta að borða kjöt, en það gætu flestir minnkað kjötneyslu sína. Það hefði bæði afar jákvæð áhrif á náttúruna og okkur sjálf. Þarna er komin mjög góð leið til að minnka kolefnisspor sitt og ekki spillir fyrir að þarna haldast í hendur umhverfis- og heilsusjónarmið þar sem allir vinna. Fyrsta skrefið í átt að umhverfisvænna og heilbrigðara lífi gæti verið að sleppa kjöti einu sinni í viku og einnig er hægt að minnka kjöt í máltíðum. Nautakjöt er með hæsta kolefnissporið af öllu algengu kjöti og því er hægt að minnka neyslu á því og skipta yfir í kjúkling, svín, lamb eða jurtaprótein. Best er að velja innlend matvæli þegar hægt er, því þá er kolefnissporið minna og einnig er gott að stíga það skref að velja kjötvörur frá búum þar sem farið er vel með dýrin. Ein gildra, sem þarf að forðast þegar reynt er að minnka kjöt, er að margir tilbúnir grænmetis- og veganréttir innihalda pálmaolíu sem er afar óumhverfisvæn. Pálmaolía er ódýrasta matarolían á markaðinum og þessi iðnaður er orðinn risavaxinn og veldur mikilli eyðingu regnskóga í hitabeltinu, sérstaklega í SA-Asíu. Fjöldaframleiðsla á matvælum í hitabeltinu eins og framleiðsla á pálmaolíu, sojabaunum og kjöti valda eyðingu regnskóga á gríðarlega stórum skala.

Það virðist oft vera þannig að stór fyrirtæki svífast einskis þegar kemur að því að græða, sem er ein ástæða þess að þau eru stór og valdamikil. Grænþvottur þrífst á innantómum loforðum á umbúðum og vöruverðið er kýlt niður því farið er á svig við lög þegar kemur að umhverfis- og mannréttindamálum. Ef verð á matvöru er of gott til að vera satt, þá er það mjög líklega svo, og getur skýrst af því að vinnufólk fær ekki mannsæmandi laun og gengið er óhóflega á náttúruna. Þetta er auðvitað ekki alltaf svona en sýnir hve mikinn frumskóg neytendur þurfa að berjast í gegnum til að velja umhverfisvænar vörur. Það er ólíðandi að mengandi og regnskógaeyðandi vörur séu ódýrari en þær umhverfisvænu. Þarna þurfa stjórnvöld að koma inn með lausnir en á meðan þurfa neytendur að hafa augun opin. Við neytendur höfum nefnilega miklu meira vald en við höldum, því okkar er valið.

36 views0 comments
bottom of page