Ég hef verið spurð að því hvers vegna ég sé að berjast gegn matarsóun og hvernig matarsóun komi eiginlega umhverfismálum við. Raunin er sú að matar- og drykkjarsóun er eitt stærsta umhverfisvandamál Jarðarinnar í dag og spannar allan heiminn og alla virðiskeðjuna. Það getur verið gott að setja matarsóun í stærra samhengi til að útskýra alvöru málsins og ég ætla að taka dæmi um vínber og banana.
Þegar ég var ungur meistaranemi, búsett í Ástralíu og að rannsaka lítið ránpokadýr, þá fór ég á spendýraráðstefnu í Barossa Valley í Suður-Ástralíu. Þar sem þessi dalur er þekktastur fyrir að vera eitt af stóru vínhéruðum landsins þá stóðumst við stúdentarnir ekki freistinguna og stungum af einn eftirmiðdaginn til að smakka þau dýrindis vín sem dalurinn hefur upp á að bjóða. Við flökkuðum alsæl á milli vínekra í marga klukkutíma og okkur var hálfpartinn skúrað út af síðasta staðnum. Á þessum tímapunkti í lífi mínu var ég ekki búin að átta mig á þeim umhverfiskostnaði sem vínframleiðsla felur í sér og vissi einnig lítið um matar- og drykkjarsóun í heiminum. Ég naut því þessarar upplifunar algjörlega samviskubitslaust. Raunin er því miður sú að við framleiðslu á víni þá þarf gífurlegt magn af vatni og oft eru vínekrur staðsettar á sólríkum stöðum þar sem er mikill þurrkur. Þegar víni er sóað þá fara því mikil verðmæti í súginn. Í kjölfar þessarar skemmtilegu ráðstefnu og vínsmökkunarferðar þá sköpuðust miklar umræður í stúdentahópnum mínum og ég lærði hvaða áhrif vínekrur og annar landbúnaður í fylkjunum Nýju Suður-Wales, Viktoríu og Suður-Ástralíu hafa á vatnsbúskap og lífríki í ánni Murray. Murray áin er lengsta á í Ástralíu, rúmlega 2500 km löng, og rennur í gegnum þessi þrjú fylki. Í yfir 100 ár hefur áin verið notuð sem áveita fyrir ýmsar plantekrur, þar á meðal allar vínekrurnar, og blómleg samfélög myndast við árbakka hennar. Um 1,25 milljón manns treysta, til að mynda, á ferskvatn úr ánni. En síðustu 70 árin hefur hins vegar það miklu vatni verið veitt úr ánni að hún nær varla að renna til ósa sinna. Eins og gefur að skilja hefur þetta haft skelfilegar afleiðingar fyrir lífríki árinnar og vistkerfin þar hafa hrunið.
Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess að vínekrur hafi svona mikil áhrif á stórar ár eins og Murray en miklir þurrkar einkenna veðurfar í Ástralíu og því er vatnsbúskapurinn þar allt öðruvísi og viðkvæmari en sem við þekkjum hér á norðurhveli. Vínber eru um 85% vatn en það þarf rúmlega 600 lítra af vatni til að framleiða eitt kíló af vínberjum. Eitt kíló af vínberjum gefur 0,7 lítra af víni og þetta þýðir að það þarf, að meðaltali í heiminum, 880 glös af vatni til að búa til eitt glas af víni. Þetta er rosalega mikið vatn.
En sem betur fer er mikil vitundarvakning í gangi í Ástralíu í sambandi við Murray ána og fyrir okkur sem búum hinum megin á hnettinum er þetta hvatning til að fara vel með mat og drykk sem kemur frá svona þurrum svæðum. Ef þið standið frammi fyrir því að beljan nái ekki að klárast áður en hún skemmist eða færri komu í veisluna en áætlað var og búið er að opna nokkrar flöskur, þá er mjög gott ráð að frysta afgangsvínið og nota síðar í sósuna og málið er leyst!
Á ferðalagi mínu með líffræðinemum um regnskóga Súmötru þá stoppuðum við á fallegum stað til að borða nesti. Einhver henti bananahýði á trjábotninn og svo tókum við eftir því að litlu ræmurnar, sem eru utan á bananum þegar maður er búinn að taka hýðið af, virtust ganga í burtu frá okkur. Þetta vakti mikla kátínu meðal okkar líffræðinemanna og við hópuðumst í kringum bananahýðið og sáum að mauraher hafði fundið hýðið á örskotsstundu og var að bera þennan mikla feng heim í bú. Þetta kenndi okkur hve hratt matur og annar lífrænn úrgangur brotnar niður í náttúrunni, sérstaklega í hitabeltinu. Á Íslandi rotna hlutirnir ekki eins hratt niður, en í moltutunnum kemst súrefni að sem hjálpar til við niðurbrotið. En þegar matur er urðaður, þar sem ekkert súrefni semst að, þá myndast metan, sem er 21 x öflugari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt fyrirbæri og án þeirra væri miklu kaldara á Jörðinni og í raun hreint ekki víst að líf hefði yfirhöfuð þróast. Gróðurhúsalofttegundir, eins og til dæmis koltvísýringur, metan, vatnsgufa og óson, virka þannig í lofthjúpinum að þær gleypa í sig varma og virka eins og loft og gler í gróðurhúsi og viðhalda þannig mátulegu hitastigi á Jörðinni. En þegar styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpinum eykst eins og hann er að gera núna, veldur það hlýnun og miklum breytingum á loftslagi. Þar sem mikið af þeim mat sem fellur til vegna matarsóunar fer í urðun, þá er ljóst að matarsóun hefur mikil áhrif á aukin gróðurhúsaáhrif og þar með loftslagsbreytingar. Þegar kolefnislosun frá matarsóun er borin saman við kolefnislosun heilu landanna, þá lendir matarsóun í þriðja sæti, á eftir Kína og Bandaríkjunum. Þetta sýnir að það eitt að minnka matarsóun hefur mjög jákvæð áhrif á umhverfið og hjálpar til í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
En meira um banana. Bananar eru frábærir, það er gaman að segja orðið banani, þeir eru bragðgóðir, orkumiklir og svo eru þeir náttúrulega svo skemmtilegir í laginu. Sumir bananar eru glansandi fallegir og fullkomnir í laginu en aðrir bananar eru það bognir og ljótir að þeir komast ekki einu sinni á markaðinn, eru bara skildir eftir á plantekrunni eða urðaðir. Staðreyndin er samt sú að ljótur banani smakkast alveg nákvæmlega eins og fallegur banani. Þeir bananar sem rata inn á íslensk heimili hafa ferðast yfir hálfan hnöttinn og lent í ótrúlegum ævintýrum. Bananar vaxa í hitabeltinu og fyrst þarf að ryðja regnskóg til að búa til pláss fyrir plantekruna. Þessi regnskógur kemur aldrei aftur og einhverjar tegundir plantna og smádýra hverfa við þessar aðgerðir. Að auki þarf mikla orku og vatn til að koma upp plantekrum og einnig geta aðstæður vinnufólks verið mjög slæmar. Þetta er umhverfiskostnaður sem neytendur hafa oft ekki hugmynd um. Bananarnir eru skornir niður þegar þeir eru enn grænir og óþroskaðir og eingöngu þeir bananar sem eru fallegir og mátulega bognir komast í gegnum síuna og eru settir í kassa til Íslands. Skipið sem bananarnir koma með er knúið olíu og því er kolefnisspor ferðalagsins mjög hátt. Þegar bananarnir koma loksins til Íslands, þá þarf að þreskja þá, því enginn vill borða græna banana, og að lokum komast þeir í búðina og eru seldir. Þegar á leiðarenda er komið, þá eru sumir bananarnir borðaðir strax en kannski er einn skilinn eftir. Við könnumst öll við þetta, hann liggur á borðinu og verður brúnni og sorglegri með hverjum deginum sem líður þangað til honum er loksins fleygt í ruslið. Fólk hugsar æ þetta er bara einn banani, skiptir engu máli, en jú þetta skiptir mjög miklu máli þegar allt ferðalagið er tekið með í reikninginn.
Allur matur og drykkur á sér sína sögu og sitt ferðalag. Stundum er vatns- og kolefnissporið mjög hátt eins og hjá ávöxtum og kjöt- og mjólkurvörum og þá er sérstaklega mikilvægt að sóa þeim ekki. Sem betur fer eru flestir sammála um hve bjánalegt það er að henda mat og það er nauðsynlegt að við tökum öll þátt í baráttunni gegn matarsóun og á sama tíma, baráttunni gegn loftslagsbreytingum.