top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Fyrsta ár Trumps og umhverfismálin


Umdeildar aðgerðir Árið 2017 var mjög viðburðaríkt þegar kom að umhverfinu og í heimi þar sem Donald Trump er forseti Bandaríkjanna var við því að búast að margar slæmar fréttir bærust yfir hafið. Trump hótaði mjög miklum breytingum á umhverfisstefnu Bandaríkjanna áður en hann náði kjöri og margt af því var svo fjarstæðukennt að erfitt var að trúa að það yrði nokkurn tíma að veruleika. Sumar aðgerðirnar ógilda mikilvæg stefnumál Obama sem snúa að loftslagsbreytingum og umhverfismengun á meðan aðrar aðgerðir skrúfa fyrir styrki til vísinda og umhverfismála. Sumt af þessu hefur nú þegar gerst og annað er væntanlegt og þetta er vægast sagt allt saman mjög reyfarakennt. Sem betur fer er Trump þó ekki einvaldur, þó hann sýni þannig takta, og vaxandi hópur fólks hefur tekið höndum saman, innan og utan Bandaríkjanna, sem hefur það að markmiði að berjast áfram fyrir umhverfismálum og lágmarka tjón af völdum þessa umdeilda forseta.

Tímaritið National Geographic er með puttann á púlsinum og fylgist með aðgerðum og stefnubreytingum Trumps, í sambandi við umhverfismál, og birtir reglulega nýjar upplýsingar á heimasíðu sinni. Hér kemur stutt samantekt, sem er langt frá því að vera tæmandi, á því helsta sem Trump hefur tekist að gera í sambandi við umhverfis- og náttúruverndarmál á sínu fyrsta ári í embætti Bandaríkjaforseta og oft harkaleg viðbrögð vísindamanna og umhverfissinna við þeim. Það er óhætt að segja að fólk situr ekki þögult og horfir á.

Ritskoðun og vísindagöngur Þegar ljóst var, í nóvember 2016, að Donald Trump yrði næsti forseti Bandaríkjanna, fór alda geðshræringar og reiði yfir þjóðina og í raun heiminn allan. Þrjár milljónir gengu í Kvennagöngunni #WomensMarch í lok janúar til að mótmæla stefnu Trumps sem m.a. gengur gegn réttindum kvenna. Vísindamenn voru einnig áhyggjufullir og í desember 2016 setti veðurfræðingurinn og loftslagsblaðamaðurinn Eric Holthaus tíst á Twitter þar sem hann leitaði eftir hugmyndum til að bjarga mikilvægum loftslagsgagnasöfnum sem stjórn Trump gæti eyðilagt. Í kjölfarið spratt upp þver-vísindaleg hreyfing sem hefur tekið afrit af öllum gögnunum og gert þau opinber almenningi. Trump var ekki búinn að verma forsetastólinn lengi þegar allar tilvísanir um loftslagsbreytingar voru teknar út af heimasíðu Hvíta Hússins. Í kjölfarið voru skipulagðar vísindagöngur í Washington og í meira en 600 borgum um allan heim á degi jarðar þann 22. apríl 2017.

Nýleg skýrsla sýnir að á þessu fyrsta ári Trumps sem forseta, hefur farið fram stórtæk ritskoðun á heimasíðum ríkisvaldsins sem snúa að loftslagbreytingum. Stundum hafa síðurnar verið teknar niður í heild sinni en einnig hefur orðinu loftslagsbreyting verið skipt út fyrir önnur orð eins og sjálfbærni eða þanþol (resilience). Enn sem komið er virðist, sem betur fer, ekki hafa verið fiktað í gögnunum sjálfum.

Í byrjun febrúar 2017 skipaði Trump utanríkisráðherra og fyrir valinu var Rex Tillerson sem er fyrrum framkvæmdastjóri olíu- og gasfyrirtækisins ExxonMobil. Stuttu síðar var Scott Pruitt ráðinn sem forstjóri Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna (EPA) en Scott er góðvinur margra í olíu- og gasfyrirtækjabransanum og hafði beitt sér harkalega gegn stefnu Obama um hreina orku (Clean Power Plan). Sú stefna var sett fram til að minnka losun koltvíoxíðs úr núverandi og nýjum orkuverum og virkjunum. Með þessa tvo sér við hlið, Rex og Scott, sem báðir hafa sterk hagsmunatengsl við olíufyrirtæki, þá var nokkurn veginn hægt að sjá í hvað stefndi.

Stefna í loftlagsmálum ónýtt Á árinu 2017 komu stanslausar sprengjur úr Hvíta Húsinu og Umhverfisverndarstofnuninni. Reglugerð sem kom í veg fyrir að námuúrgangur bærst í nærliggjandi vatnsfarvegi var gerð ógild. Bann á skotfærum úr blýi var ógilt en bannið var sett í á lokadegi Obama í embætti, og átti að vernda dýralíf fyrir blýeitrun. Hætt var við að fara fram á upplýsingar um losun m.a. metans frá olíu- og gasiðnaðinum. Í byrjun árs skrifaði Trump undir tilskipun sem ætlað var að tæta í sundur þá vinnu sem unnin var undir stjórn Obama í loftslagsmálum og tilkynnt var í október að stefna Obama um hreina orku yrði felld úr gildi. Scott Pruitt forstjóri Umhverfisverndarstofnunarinnar sagði að með þessu væri stríðinu gegn kolum lokið. Eins og gefur að skilja hafa þessar ákvarðanir valdið miklum óróa meðal vísindamanna.

Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) felldi úr gildi reglugerð sem kemur í veg fyrir að hvalir og skjaldbökur í útrýmingarhættu festist í netum á vesturströndinni. Einnig hefur stjórn Trumps tekið ákvarðanir sem ganga þvert á verndun ýmissa fuglategunda. Árið 2018 er ár fuglsins og fuglafræðingar ætla að taka höndum saman, fara í mikla vitundarvakningu og sýna fólki hversu mikilvægir fuglar eru og hvað þarf að gera til að vernda þá.

Orðið vísindi (science) var tekið út úr markmiðslýsingu skrifstofu vísinda og tækni hjá Umhverfisverndarstofnuninni í mars og í sama mánuði sagði Scott Pruitt í opinberu viðtali að óvíst sé að koltvíoxíð hafi eitthvað með loftslagsbreytingar að gera sem er andstætt við þá vísindalegu þekkingu sem er til í dag. Í lok árs 2017 tilkynnti Trump að Bandaríkin myndu ekki lengur líta á loftslagsbreytingar sem ógn við þjóðaröryggi. Hann kýs því að líta alveg fram hjá viðurkenndum fylgifiskum loftslagsbreytinga sem eru m.a. hækkun sjávarmáls og öfgaveðrum eins og þurrkum, gróðureldum, hitabylgjum og ofsarigningum, sem eru sannarlega ógn við þjóðaröryggi.

Leyfir mengandi framkvæmdir Í lok mars gaf Trump út leyfi til að byggja hið umdeilda 2000 km langa Keystone XL olíuleiðslukerfi sem tengir olíusanda í Alberta í Kanada við olíuhreinsistöðvar í Texas. Obama hafði áður hafnað þessu kerfi árið 2015 vegna umhverfisáhrifa. Trump samþykkti að auku aðra umdeilda olíuleiðslu, tæplega 2000 km langa neðanjarðarleiðslu, Dakota Access Pipeline, sem einnig hafði verið hafnað af Obama. Þessi leiðsla olli miklu fjaðrafoki og lagadeilum m.a. vegna þess að hún liggur í gegnum verndarsvæði indíána sem leiddi til stærstu mótmæla indíána sem sést hafa og vakti mikla athygli fjölmiðla. Það sem gerir málið sérstaklega óhuggulegt er að Trump átti hlut í fyrirtækinu Energy Transfer Partners, sem bæði byggir leiðsluna og styrkti einnig forsetaframboð hans.

A.m.k. tvö nýleg verndarsvæði eru nú í hættu því Trump vill auka umsvif framkvæmda á alríkislandi. Obama stofnaði Bears Ears verndarsvæðið í Utah rétt áður en hann hætti sem forseti en Trump hefur nú minnkað það um 85%. Trump minnkaði einnig verndarsvæðið Grand Staircase Escalante um helming en það verndarsvæði var stofnað í tíð Clintons árið 1996. Þessar aðgerðir Trumps hafa vakið mikla reiði og indíánar, verndunarhópar og steingervingafræðingar hafa kært þessar umdeildu aðgerðir forsetans.

Vísindamenn Umhverfisverndarstofnunarinnar tóku Scott Pruitt og eyðileggingarstarfseminni í garð vísinda ekki þegjandi og hljóðalaust. Sumir hættu með hvelli eins og umhverfisvísindamaðurinn Michael Cox, sem hafði unnið hjá stofnuninni í 25 ár, en hann skrifaði mjög harðort kveðjubréf sem birt var opinberlega. Tilkynnt var að loftslagsvísindamenn væru „fluttir til“ í starfi en margir hafa hætt og jafnvel flutt úr landi til að geta stundað sín vísindi í friði fyrir þessari ógnarstjórn.

Parísarsáttmálanum hent Um miðjan apríl tilkynnti Scott Pruitt að hann sé persónulega á móti Parísarsáttmálanum um loftslagsmál og kallar hann „slæman samning fyrir Bandaríkin“. Stuttu síðar var heimasíða Umhverfisverndarstofnunarinnar um loftslagsbreytingar tekin úr notkun og á síðunni stendur að ný útgáfa sé í vinnslu sem verði uppfærð þannig að hún endurspegli áherslumál Trumps og Pruitt. Í júní tilkynnti Trump að hann muni draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum.

En þó útlitið virðist vera með svartara móti með Trump á forsetastóli eru góðu fréttirnar þær að fjöldahreyfing hefur myndast í Bandaríkjunum sem berst gegn niðurrifsstarfi stjórnar hans í umhverfismálum. Í hreyfingunni „We are still in“ eru 2500 fulltrúar frá m.a. öllum helstu stórborgum Bandaríkjanna, bæjum, fyrirtækjum og skólum sem ná yfir meira en 127 milljón Bandaríkjamenn og stóran hluta hagkerfisins. Hreyfingin er í öllum fylkjum og snýst um að halda áfram samstarfi þjóða heims í að takast á við loftslagsbreytingar og standa við Parísarsamkomulagið. Framtíðin er því nokkuð björt þegar maður setur fókusinn á jákvæðu hlutina.

8 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page