top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Plast úr fötum og snyrtivörum endar í matnum


Plast og örplast Umræðan um plast snýst mikið um plastpoka, einnota umbúðir og einnota borðbúnað. Þessar vörur hafa á tiltölulega stuttum tíma náð að skapa sér stóran sess í vestrænum samfélögum og fólki þykir mjög erfitt að breyta plastneyslu sinni. En þetta plast getur valdið lífríkinu miklum skaða ef það lendir í sjónum. Talið er að um milljón sjófuglar og 100 þúsund sjávarspendýr og skjaldbökur drepist árlega vegna þess að þau festast í eða éta plast. En vandamálin aukast um leið og plastið lendir í sjónum og byrjar að velkjast um. Þar sem plast getur verið afar mismunandi að gerð þá tekur það mislangan tíma að brotna niður. Flestallt plast brotnar niður á endanum en það hverfur samt ekki og verður að jarðvegi heldur verður bara að smærri og smærri einingum.

En til er annarskonar örplast en það sem brotnar niður úr stærri einingum og það eru örplastkúlur sem settar eru í snyrtivörur og örplastþræðir sem skolast úr fötum unnum úr plasti.

Plast í snyrtivörum Það er vægast sagt undarlegt að einhverjum skyldi hafa dottið í hug að setja örsmáar plastkúlur í snyrtivörur en þetta er því miður gert. Örplast hefur m.a. verið sett í tannkrem, sápu og líkamsskrúbba og tilgangurinn er að hvítta tennur og hreinsa húð en í sumum vörum er ekki einu sinni víst að plastið þjóni neinum tilgangi nema að gefa kreminu ákveðna áferð sem fólki líkar. Þegar kreminu er skolað niður enda þessar örsmáu plastkúlur í sjó eða vötnum og safnast þar saman og getur valdið lífríkinu skaða. Íbúar bandarísku fylkjanna sem liggja að vötnunum miklu vöknuðu upp við vondan draum árið 2013 þegar birtar voru fyrstu niðurstöður úr rannsókn á örplasti í vötnunum. Það fundust ógrynni af örplastkúlum allst staðar í vötnunum og stundum var þéttleikinn mjög mikill. Þegar farið var að grafast fyrir um uppruna þessa plasts kom í ljós að stór hluti þess kemur úr áðurnefndum snyrtivörum. Þrýstingur frá umhverfissamtökum og almenningi varð til þess að Holland, Bandaríkin, Kanada, Írland og Bretland hafa sett lög um notkun á örplasti í snyrtivörum þar sem fyrirtæki, sem selja vörur í þessum löndum, þurftu að draga úr notkun plasts í áföngum og hætta svo alfarið notkun á þeim. Á þessu ári, 2017, þurfa því fjöldamörg snyrtivörufyrirtæki að vera búin að skipta plastinu út fyrir önnur efni.

Plast í fatnaði Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því að mikill hluti þess fatnaðar sem er í skápunum okkar er búinn til úr plasti. Jógabuxurnar, spandexgallinn, hjólafötin, nælonsokkabuxurnar og flíspeysan, allt eru þetta plastflíkur. Það sem var kannski sniðug hugmynd einu sinni, að búa til flíspeysur úr plastflöskum er að koma í bakið á okkur núna. Við þurfum nefnilega að þvo flíkurnar og í hverjum þvotti losna örsmáir plastþræðir úr þeim. Þegar flíkurnar eru orðnar gamlar þá snareykst magnið af plastþráðum sem losna. Og þá hugsar maður að stjórnvöld hljóti að passa umhverfið og að það séu einhverjar síur sem fangi allar þessar agnir áður en þær ná út í sjó. En því fer fjarri, því miður. Nær allt íslenskt skólp fer til dæmis óhreinsað beint út í sjó en lönd eins og Svíþjóð og Finnland ná rúmlega 99% af örplasti úr sínu skólpi. Vísindamenn telja að þessi dreifing örplasts verði næsta stóra umhverfisvandamál heimsins.

Fylgifiskar örplasts Það er vandamál í sjálfu sér að þetta örplast lendi í sjónum en það er samt ekki nákvæmlega vitað hvað þetta felur í sér fyrir lífríkið því þetta er tiltölulega nýtt vandamál sem ekki er búið að rannsaka mikið. En jú, dýr geta étið þessar örsmáu agnir, en þessu plastáti fylgir einnig annað jafnvel stærra vandamál sem vísindamenn eru nú að rannsaka. Örplast sogar nefnilega að sér alls kyns eiturefni úr umhverfinu og getur verið margfalt eitraðra en vatnið sem umlykur það. En það er ekki bara eitur sem sogast að örplastinu heldur einnig örverur, sem sumar geta verið sjúkdómsvaldandi. Og það sem meira er, plastið gefur þessum örverum nýjar leiðir til að berast á milli staða og dreifa sér. Þegar fiskar og aðrar lífverur éta örplastið þá fylgja eiturefnin og örverurnar með í kaupbæti og geta valdið þeim skaða. Það sem er sérstaklega óhugnanlegt, er að þessir fiskar lenda iðulega á matardiskinum okkar.

En hvað er til ráða? Þar sem vandamálið með örplast er að minnsta kosti þríþætt, þ.e. í fyrsta lagi plast sem brotnar niður í smærri einingar, í öðru lagi örplastkúlur í snyrtivörum og svo í þriðja lagi plastþræðir úr fatnaði, þá eru mismunandi leiðir færar til úrbóta. Þessar leiðir eru miseinfaldar og í öllum tilvikum þarf kerfisbreytingar og mikla vitundarvakningu til að góður árangur náist.

Við þurfum að minnka notkun á einnota plasti, þetta getum við sem einstaklingar auðveldlega gert með því að nota minna plast, kaupa minna plast og endurvinna plastið okkar. En það þarf einnig að hvetja fyrirtæki til að koma með nýjar lausnir í einnota umbúðamálum og stjórnvöld geta komið inn í það ferli með lagasetningu eða jafnvel umbunarkerfi fyrir fyrirtæki sem standa sig vel. Stjórnvöld víða í heiminum eru farin að grípa svona í taumana og Íslendingar geta lært mikið af þeim.

Það er ánægjulegt að sjá hve þrýstingurinn frá umhverfissamtökum og almenningi hafði mikil áhrif á að banna örplastkúlur í snyrtivörum og sýnir hvað samstaða og fræðsla skiptir miklu máli í umhverfismálum. Við þurfum samt að hafa augun opin, þegar kemur að því að kaupa snyrtivörur, því þetta er ekki alheimsbann og á hverjum degi skolast enn mikið magn af örplastkúlum út í sjó. Það er sorglegt að hugsa til þess hve Ísland er aftarlega á merinni í skólpmálum í samanburði við nágrannaþjóðirnar og þar eru sóknarfæri sem gætu skilað miklum árangri í baráttunni við plastmengun í sjó.

Þegar horft er til plastþráðanna í fatnaði þá vandast málið. Um 60% af fatnaði sem er búinn til í heiminum er úr plasti og það sér ekki fyrir endann á því. Það er því erfitt að ætlast til að allir skipti plastfötunum út fyrir föt úr náttúrulegum trefjum eins og ull, bómull og hör. En við sem einstaklingar getum keypt minna af fötum og stundum þarf ekki að þvo þau eins og oft og við höldum. Það eru meira að segja til allskonar síupokar sem hægt er að þvo flíkurnar í en það væri eðlilegast að fataframleiðendur sjálfir tækju til hjá sér og fari að framleiða föt sem spúa ekki plasti í þvotti. Það er þó hægara sagt en gert því margir framleiðendur hafa ekki einu sinni viðurkennt vandamálið. Plast er þar að auki mjög ódýrt í framleiðslu og hefur ákveðna eiginleika sem kaupendur sækjast eftir. En sem betur fer eru einhverjir framleiðendur farnir að hugsa í lausnum og eru að skoða umhverfisvænni leiðir. Í þessu máli gætu stjórnvöld einnig beitt lagasetningum og umbunum.

Hreinsum plast úr nærumhverfi okkar

En það er eitt sem allir geta gert. Það geta allir tekið til í sínu nánasta umhverfi því plast sem fýkur um á landi mun að öllum líkindum enda í sjónum á einhverjum tímapunkti. Þar að auki eru margar strandir Íslands stútfullar af plasti sem þarf að hreinsa upp. Nú er hafið landsátakið Hreinsum Ísland þar sem vakin er athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi. Hægt er að skipuleggja sína eigin strandhreinsun og Landvernd veitir góð ráð á síðunni hreinsumisland.is. Munið að skila öllu plasti sem fellur til á heimilinu og í hreinsunarátakinu til endurvinnslu. Það getur enginn gert allt en allir geta gert eitthvað. Látum spána um að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050 ekki verða að veruleika.


115 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page