Kameljónið
Árið 2007 bauðst mér að fara í ferð til Madagaskar til að hjálpa við tökur á heimildamynd um ólöglega sölu á kameljónum. Ég er líffræðingur að mennt og var á þessum tíma nýbúin að klára nám í kvikmyndagerð og því var ég að springa úr spenningi yfir þessari ferð sem átti eftir að breyta miklu í mínu lífi. Kvikmyndagerðamennirnir, sem ég var að aðstoða, höfðu eftir einhverjum krókaleiðum, komist í samband við mann sem stundar ólöglegar veiðar á villtum kameljónum, sem hann smyglar úr landi og selur til Vestrænna gæludýrabúða. Smygl á kameljónum er ein ástæða þess að margar tegundir þeirra eru nú í bráðri útrýmingarhættu.
Þegar við komum inn í þorpið þar sem dýrasmyglarinn bjó og starfaði, tók á móti okkur stór hópur barna eins og gengur og gerist í litlum þorpum á Madagaskar. Þegar þau uppgötvuðu að við vorum kvikmyndagerðarfólk þá hlupu þau út um allt og áður en ég vissi af var ég umkringd börnum sem öll héldu á kameljónum. Við komumst að því að þessi börn eyða stórum hluta af deginum í að veiða kameljón í nágrenni þorpsins sem þau selja smyglaranum fyrir smápening.
Þegar við vorum búin að taka upp myndefni með börnunum lá leiðin til mannsins sjálfs. Hjartað hamaðist þegar við nálguðumst húsið hans og ég hafði ekki hugmynd um hverju ég mætti eiga von á. Það undarlega var að þetta virtist bara vera ósköp venjulegur maður, hann bjó ekki einu sinni í fínu húsi heldur hálfgerðu hreysi eins og flestir aðrir í þorpinu. Eini munurinn á hans híbýlum og annarra var að í bakgarðinum voru stór búr með dýrum, aðallega kameljónum en einnig öðrum eðlum. Hann opnaði öll búrin og sýndi okkur dýrin en við þurftum að passa okkur að taka engar myndir af honum sjálfum því hann var greinilega skíthræddur um að það kæmist upp hann. Hann sýndi okkur hvernig kameljónin voru sett í litla poka og ofan í stóra kassa sem sendir voru úr landi í massavís.
Það var greinilegt að þessi maður græddi sjálfur ekki mikið á smyglinu. Þessi starfsemi er oft þannig að fólk verður að vera ofarlega í smygl-pýramídanum til að efnast á því. En þar sem eftirspurn eftir villtum dýrum í útrýmingarhættu er svo mikil í heiminum, og venjulegt fólk í landi eins og Madagaskar á erfitt með að fá heiðarlega vinnu, þá þrífst svona ólögleg starfsemi mjög víða.
Eftirsótt gæludýr lenda í útrýmingarhættu Okkur var sagt í þessari ferð að einungis 20% þeirra kameljóna sem send eru frá Madagaskar lifa af ferðina og fyrstu mánuðina í nýjum heimkynnum. Þetta er sláandi tala og flestir sem kaupa kameljón úr gæludýrabúð hafa ekki einu sinni hugmyndaflug til að ímynda sér hið skelfilega ferðalag sem dýrið á að baki. Unnendur kameljóna geta þó í dag keypt ræktuð kameljón en fyrir áratug síðan var nær ómögulegt að rækta þau því lítið var vitað um þarfir dýranna. Þrátt fyrir þetta er smygl á kameljónum enn stundað í dag og kaupendur blekktir. Þess má þó geta að slöngur og skriðdýr má ekki flytja inn til Íslands vegna mikillar hættu á salmonellusmiti.
En það eru ekki bara kameljón sem eru eftirsótt sem gæludýr í hinum vestræna heimi því fjöldinn allur af öðrum eðlum ásamt fuglum, fiskum og spendýrum eru veidd í sínum náttúrulegu heimkynnum og flutt við misgóðar aðstæður til gæludýraeigenda sem eru jafnvel til í að borga mjög mikið fyrir rétta dýrið.
Bíómyndir geta haft mikil áhrif á gæludýrahald í heiminum eins og teiknimyndin Leitin að Nemo sýndi og sannaði. Þessi vinsæla teiknimynd varð til þess að eftirspurn eftir hinum litríku trúðfiskum jókst svo mikið að líffræðingar fóru að hafa áhyggjur af tegundinni. Það hjálpar heldur ekki til að heimkynni sjávardýranna í myndinni, kóralrifin við strendur Ástralíu og í Kyrrahafinu, eru í mikilli hættu vegna súrnunar sjávar.
Plöntur ganga líka kaupum og sölum Margir vita að smygl og ólögleg sala á dýrum eða dýraafurðum eins og fílabeini og nashyrningshornum á sér stað, en færri átta sig á því að hið sama gildir um sjaldgæfar plöntur sem notaðar eru m.a. til skreytinga og í lyf. Suðaustur-Asía hefur þann vafasama stimpil að vera bæði miðpunktur ólöglegrar sölu á dýrum og dýraafurðum í heiminum, allt frá sæhestum til tígrisdýra og einnig miðpunktur neytenda sem kaupa ólöglega m.a. fílabein, villt gæludýr og kínversk lyf. Miklu minni fókus hefur verið settur á plöntur en dýr í þessu samhengi en ólögleg sala og smygl á plöntum í Suðaustur-Asíu ógnar tilveru hundruða ef ekki þúsunda plöntutegunda á svæðinu. Salan fer fram bæði á opnum mörkuðum en einnig á netinu þar sem óprúttnir plöntusafnarar óska m.a. eftir sjaldgæfum plöntum og borga himinháar fjárhæðir fyrir.
Samningurinn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES) hefur það að markmiði að vernda þessar lífverur. Það eru skráðar um 30.000 plöntur í þessum samningi á móti aðeins 5000 dýrum, sem sýnir hvað umfjöllunin er skekkt. Í Bretlandi komst t.d. plöntuþjófnaður í fréttirnar fyrir nokkrum árum síðan þegar þjófi tókst að stela eintaki af sjaldgæfustu vatnalilju í heiminum úr konunglega grasagarðinum í Kew. Það sorglega við þetta var að fréttin vakti mikla kátínu hjá fólki á twitter sem fannst þetta eins og fyndið atriði úr Bleika pardusnum. Þegar svipaðar fréttir berast af dýrum þá sýnir fólk yfirleitt miklu meiri samúð því fólk tengir meira við dýr en plöntur.
Mikilvægt samstarf við lögreglu Samtökin Traffic hafa frá árinu 1976 barist gegn ólöglegri sölu og smygli á villtum dýrum- og plöntum. Þessi samtök fylgjast með sölu villtra lífvera í heiminum og eru rekin af bæði Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN) og Alþjóðlega náttúruverndarsjóðnum (WWF). Markmið samtakanna er að sjá til þess að viðskipti með villt dýr og plöntur séu ekki ógn við lífríkið sjálft. Í febrúar 2017 skrifuðu samtökin Traffic og Evrópska lögregluskrifstofan, Europol, undir viljayfirlýsingu þar sem þau hétu samstarfi sín á milli í baráttunni gegn dýra- og plöntusmygli. Þetta er sögulegt samstarf því hingað til hefur baráttan gegn smygli á villtum lífverum mikið til verið í höndunum á heimamönnum og frjálsum félagasamtökum sem hafa ekki bolmagn til að eiga við glæpastarfsemi af þessari stærðargráðu.
Það var svo sannarlega kominn tími til að dýra- og plöntusmygl yrðu að alvöru lögreglumáli en það mun eflaust alltaf eiga sér stað ólögleg sala á dýrum og plöntum í heiminum á einhverjum skala og þessi glæpastarfsemi er ekki alltaf bundin við útlönd eða stór glæpagengi. Við Íslendingar kynntumst þessu kannski fyrst í sambandi við geirfuglinn, þó að honum hafi verið útrýmt áður en þessi starfsemi varð glæpsamleg. Því sjaldgæfari sem tegundin er, því meiri peningur fæst fyrir síðustu eintökin. Erlendir eggjaþjófar koma einnig reglulega til Íslands til að freista þess að stela eggjum sjaldgæfra fugla og svona eggjaþjófnaður er orðinn vaxandi vandamál á Norðurlöndum.
Það er því víða þörf á löggæslu í sambandi við dýra- og plöntusmygl og við Íslendingar verðum að taka þátt í þessari baráttu, bæði með því að vernda náttúruna okkar en einnig með því að taka ekki þátt í kaupum á dýrum og plöntum í útrýmingarhættu.