top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Úlfarnir í Yellowstone þjóðgarinum


Hægt er að hlusta á pistilinn hér:

Mannfólk og rándýr Mannfólkið hefur frá upphafi átt í baráttu við önnur rándýr. Það er mjög skiljanlegt því bæði erum við hrædd við þessi dýr og einnig hafa þau oft sama matarsmekk og við og éta frá okkur búpeninginn. Hér áður fyrr var lítill sem enginn skilningur á vistkerfum og því þótti eðlilegt að útrýma rándýrum, enda voru þau álitin hin mesta plága. Þetta voru einmitt örlög úlfanna í Klettafjöllunum í Bandaríkjunum þar sem hinn frægi Yellowstone þjóðgarður er. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1872 og síðasti úlfurinn þar var drepinn árið 1926.

Þegar úlfunum fækkaði og var að lokum útrýmt úr Yellowstone þjóðgarðinum fjölgaði skógarhjörtum óstjórnlega í kjölfarið. Ástandið versnaði á stuttum tíma og vísindamenn höfðu miklar áhyggjur af land- og gróðureyðingu. Tré eins og aspir og víðir fóru sérstaklega illa vegna ofbeitar skógarhjartanna því þeir gátu hangið óáreittir á sama stað í langan tíma og nöguðu víða gróðurinn niður að rótum. Þrátt fyrir veiðistjórnunaraðgerðir hélst ástandið áfram mjög slæmt. Árið 1967 var úlfurinn settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu og á þessum tíma hafði skilningur líffræðinga á vistkerfum og mikilvægi rándýra aukist mjög. Líffræðingar komust að því að með því að taka út mikilvæga tegund, sem er ofarlega í fæðukeðjunni, geta afleiðingarnar orðið keðjuverkun niður allan fæðuvefinn. Útrýming úlfanna í Yellowstone þjóðgarðinum var orðið mjög gott dæmi um það. Hugmyndin um að endurheimta úlfa í Yellowstone hafði blundað í fólki í marga áratugi en varð svo loksins að veruleika þegar 14 úlfum var sleppt þar árið 1995 og svo 17 úlfum ári seinna.

Hlutverk rándýra Árangurinn lét ekki á sér standa. Rannsóknir sýndu að úlfarnir í Yellowstone átu ekki einungis hirti í stórum stíl, heldur breyttu einnig hegðun þeirra. Áður en úlfarnir komu aftur til sögunnar gátu hirtirnir eytt löngum tíma áhyggjulausir á beit á opnum svæðum, sem gaf þeim næringarríka fæðu. Nú eru þau svæði ekki lengur heppileg vegna þess að þar eru dýrin auðveld bráð fyrir úlfana. Hirtirnir færðu sig inn í skóginn þar sem þeir fá meira skjól fyrir úlfunum, þó þar sé næringarsnauðari fæðu að finna. Þessi breyting á næringu, sérstaklega á veturna, veldur því að hirtirnir eignast nú færri kálfa. Í dag er hjartarstofninn á svæðinu einungis um 30-40% af því sem áður var en hefur náð jafnvægi, í fyrsta skipti í langan tíma. Vegna minni samkeppni við hirtina hefur vísundum á svæðinu einnig fjölgað.

En úlfarnir höfðu ekki bara áhrif á hirtina heldur einnig sléttuúlfa sem höfðu lifað kóngalífi í fjarveru úlfanna. Einungis tveimur árum eftir að úlfarnir komu aftur, hafði stofn sléttuúlfanna hrunið niður í 50% af því sem áður var. Sléttuúlfarnir færðu sig frá opnum svæðum yfir í klettótt og brött svæði þar sem þeir ná að fóta sig betur en úlfarnir. En áhrif úlfanna stoppuðu ekki þarna því þegar sléttuúlfunum fækkaði, þá fjölgaði refum en þeir höfðu lengi orðið undir í samkeppni við sléttuúlfana. Keðjuverkunin heldur svo áfram niður fæðukeðjuna því þessar breytingar á rándýrum höfðu í för með sér fjölgun dýra eins og héra, dádýra, nagdýra og fugla sem höfðu áfram áhrif á gróðurinn, smádýrin og allt niður í smæstu einingar vistkerfisins.

Áhrif úlfanna gætir víða Úlfarnir höfðu einnig áhrif á stofn bjóra. Þar sem úlfarnir höfðu breytt hegðun hjartanna náðu víðitegundir, sem vaxa við árbakkana, að jafna sig á ofbeitinni en bjórar þurfa víði til að lifa af veturinn. Árið 2001 var einungis ein bjórafjölskylda í Yellowstone en árið 2011 voru þær orðnar níu talsins. Í vistkerfum eins og þeim sem er að finna í Klettafjöllunum gegna bjórar mjög mikilvægu hlutverki. Bjórar eru einskonar vistfræðilegir verkfræðingar því þeir byggja stíflur í ám, hægja á flæði vatnsins og koma þannig í veg fyrir flóð. Að auki koma stíflurnar í veg fyrir landeyðingu og búa til tjarnir og votlendi sem eru mikilvæg búsvæði fyrir fjölda tegunda eins og elgi, otra, mink, vaðfugla, fiska og froskdýr. Vegna þess hve vel víðirinn tók vel við sér eftir að löng ofbeit hjartanna hætti, þá hafa þar myndast ný búsvæði fyrir spörfugla. En sagan heldur áfram því hræ sem eru skilin eftir af úlfum nýtast fjöldamörgum tegundum eins og marðartegundum, björnum, örnum og ýmsum ránfuglum.

Úlfurinn er lykiltegund sem þýðir að hún hefur hlutfallslega meiri bein og óbein áhrif á vistkerfi en aðrar tegundir. En bjórinn er einnig lykiltegund og því er sérstaklega áhugavert að fylgjast með hve endurkoma þessara tegunda hefur jákvæð áhrif á þetta raskaða vistkefi sem Yellowstone þjóðgarðurinn er. Endurkoma þeirra hafði ekki bara áhrif á aðrar tegundir heldur einnig hvernig árnar flæða um þjóðgarðinn. Það er því óhætt að segja að endurkoma úlfsins hafi haft stórkostlega jákvæð áhrif á þennan annars fallega og merkilega þjóðgarð. Með því að endurheimta þessar lykiltegundir þá er vistkerfið að finna aftur jafnvægi en endurheimt svona vistkerfis tekur oft mjög langan tíma, og er ekki lokið. Þetta er alveg einstakt tækifæri til að rannsaka hvað gerist þegar lykiltegundir eru endurheimtar því í heiminum í dag er því miður miklu meira um að dýrategundir hverfi en uppbyggingu af þessu tagi.

Úlfar mikilvægir víða um heim Ég kynntist sjálf mjög röskuðu vistkerfi þegar ég eyddi tveimur mánuðum í skosku hálöndunum til að leita að mink í upphafi doktorsnáms míns. Ég var í þónokkurn tíma á landareign sem heitir Alladale. Þessi staður er í eigu manns að nafni Paul Lister sem á sér draum um að endurheimta úlfa í skoskri náttúru. Fyrir um 7000 árum síðan var náttúra Bretlands líklega svipuð þeirri sem nú finnst í víðernum Alaska þar sem finna mátti úlfa, birni, gaupur, elgi, krónhirti og ógrynni annarra dýra og plantna. En á þúsundum ára tókst manninum að temja bresku náttúruna þangað til lítið var eftir. Í dag er skoski krónhjörturinn, sem er náskyldur skógarhirtinum í Ameríku, vandamál því ofbeit kemur m.a. í veg fyrir að náttúrlegur skógur geti vaxið á ákveðnum svæðum. Þetta vandamál hljómar við fyrstu sýn svipað og vandamálið í Yellowstone því hér vantar augljóslega lykilrándýrategund sem myndi halda hjörtunum í skefjum. En þar sem Skotland hefur verið úlfalaust í mörg hundruð ár og fólk býr meira og minna alls staðar, eru hugmyndirnar um endurheimt úlfastofnsins síður en svo vinsælar meðal bænda og almennings. En Paul Lister hefur, þrátt fyrir mótstöðuna, látið nokkra drauma sína rætast. Alladale landareignin, sem er algjörlega girt af, er 93 ferkílómetrar að stærð og þarna hefur hann fengið vísindamenn í lið með sér sem hafa m.a. rannsakað villisvín og innlendar skoskar trjátegundir. Þegar ég var þarna vorið 2008 hafði hann flutt inn tvo elgi frá Svíþjóð sem var gaman að fylgjast með og núna er hann með nokkra skoska villiketti á afmörkuðu svæði.

Paul ber þann draum í brjósti að flytja inn úlfa, birni, gaupur og villiketti og endurheimta þannig náttúru Skotlands. Þetta er fallegur draumur en líklega er langt í land. Það má samt vona að skosk yfirvöld sjái í framtíðinni hag sinn í því að endurheimta skoska náttúru í sátt og samlyndi við íbúana. Þessar sögur sýna einnig að við Íslendingar þurfum að hlúa betur að okkar eina innlenda spendýri sem hefur verið ofsótt öldum saman, en það er tófan. Við mannfólkið þurfum að læra að lifa með náttúrunni, og þeim rándýrum sem þar eru, því heilbrigð vistkerfi eru lykillinn að því að við getum andað að okkur súrefni, drukkið hreint vatn, borðað mat og átt skjól yfir höfuðið.


167 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page