top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Tískusóun bitnar á fólki og umhverfi


Einnota föt Það þekkja eflaust margir ánægjutilfinninguna sem fylgir því að versla mjög mikið af fötum. Maður fær jafnvel klapp á bakið, vá hvað maður var duglegur og vá hvað maður sparaði mikinn pening á útsölunum. Stundum finnur maður eitthvað sem maður var búinn að leita lengi að, en oft er þetta ekkert nema bruðl og tískusóun. Og hvað er eiginlega tískusóun? Jú það er einmitt þetta, að kaupa trekk í trekk föt og aðrar tískuvörur sem maður notar sjaldan eða aldrei. Fötin eru orðin einnota, alveg eins og einnota pappadiskar og plasthnífapör.

Ég verð að viðurkenna að ég var sjálf alveg týpískt ungmenni sem keypti föt í massavís, maður vildi jú alls ekki vera púkó. Að auki þoldu sum ódýru fötin ekki nema nokkra þvotta og þá þurfti að kaupa meira. En sum tískuföt eru samt alls ekki ódýr. Ég man eftir því að hafa fallið í Levi‘s gildruna sem unglingur, ég gerði reyndar þau mistök að fá mér ekki hinar frægu 501 buxur því ég passaði ekki í þær. 510 buxurnar sem ég endaði með þóttu ekki nærri eins svalar og 501 og það var bara þannig í gaggó að ef flíkur féllu ekki í kramið hjá skólafélögunum þá var hætt að nota þær. Manni finnst þetta alveg fáránlegt þegar maður hugsar til baka en tíska hefur sett svip sinn á mannkynið í mörg þúsund ár og mun halda því áfram næstu árþúsundin. Það er í mannlegu eðli að vilja vera hipp og kúl þó að sumir syndi á móti straumnum. Staðreyndin er samt sú að tískusóun hefur aukist margfalt á síðustu áratugum. Úrvalið af fatnaði hefur aukist og búðir eins og Primark og H&M bjóða uppá fatnað sem er mjög ódýr. Íslendingar eru þekktir fyrir að flykkjast í þessar búðir þegar þeir fara í utanlandsferðir og kannski er það ekki skrýtið því þarna er hægt að finna smart föt sem eru þar að auki mjög ódýr. Ég var lengi fátækur námsmaður og því þekki ég þetta alveg af eigin raun.

Raunkostnaður fata En föt eru ekki bara föt. Mikið af fötum sem seld eru í hinum vestræna heimi eru framleidd við hræðilegar aðstæður, bæði fyrir umhverfi og fólk. Primark, H&M og margar fleiri stórar ódýrar fataverslanir eiga það sameiginlegt að stuðla m.a. að barnaþrælkun. Þessir risar eru með stórar yfirlýsingar gegn barnaþrælkun á heimasíðum sínum, en samt er alltaf verið að koma upp um ný og ný tilfelli. Þetta er ein ástæðan fyrir því að þeir geta selt vörur sínar svo ódýrt. Raunkostnaður á venjulegum stuttermabol getur aldrei verið nokkuð hundruð krónur. Inn í verðið vantar allan umhverfiskostnað og þann kostnað sem fylgir því að borga fólki mannsæmandi laun. Til að bæta gráu ofan á svart, þá er því miður engin trygging fyrir því að þessi mál séu í lagi þó að flíkin sé dýr, því búðirnar leggja stundum mjög mikið á flíkurnar, sem þær kaupa ódýrt, og gróðinn fer allur til þeirra sjálfra.

Umhverfismengun fataiðnaðarins Umhverfisvandamál tengd fataiðnaðinum eru margskonar því flíkur eru búnar til úr mjög ólíkum efnum, bæði náttúrulegum trefjum eins og bómull, hör og ull, en einnig úr tilbúnum efnum sem framleidd eru úr hráolíu eins og akrýl, nælon og pólýester. Bómull er notuð í næstum helming allra flíka sem framleiddar eru og það þarf um 20 þúsund lítra af vatni til að framleiða eitt kíló af bómull, sem er um það bil einn stuttermabolur eða einar gallabuxur. Tæplega 75% af bómull sem framleidd er í heiminum kemur af mjög þurrum svæðum þar sem veita þarf vatni á. Eitt frægasta umhverfisslys tengt bómull er Aralvatn í Mið-Asíu sem hefur meira og minna verið þurrkað upp vegna þess að því var veitt á bómullar- og hrísgrjónaakra í nágrenni þess. En bómullarrækt snýst ekki bara um vökvun, heldur fylgir einnig gríðarleg notkun á eiturefnum sem bæði skapa mikla hættu fyrir bændurna sjálfa og hafa einnig skelfileg áhrif á nærliggjandi vistkerfi sem eru háð afrennslisvatni frá ökrunum.

Neikvæð umhverfisáhrif verða einnig við litun á fatnaði, sem á sér aðallega stað í þróunarlöndum. Það hafa verið fundnar nýjar aðferðir við að lita fatnað án þess að nota vatn, en fataiðnaðurinn hefur verið mjög tregur við að nýta sér þær. Það þarf allt að 20 lítra af vatni til að lita einn stuttermabol og um 80% af litnum situr eftir. Afganginum af litnum er skolað í burtu og mengar drykkjarvatn í nágrenninu og eyðileggur beitilönd.

Þrátt fyrir strangari reglur, aukið eftirlit og lokun á verksmiðjum sem fylgja ekki reglum, þá er mengun vatns stöðugur fylgifiskur fataiðnaðarins. Hin síaukna krafa á ódýr föt veldur því að framleiðslu- og litunarverksmiðjur sem fylgja ekki reglum um umhverfismál flytja sig einfaldlega yfir á svæði sem hafa engar reglur. Fataverslanir almennt virðast hafa lítinn áhuga á að breyta til hjá sér, því þær bera sjálfar engan kostnað af menguninni, sem verður á svæðunum þar sem fötin eru framleidd og lituð, og halda því ótrauðar áfram að kaupa þjónustu sína af þessum aðilum.

Fötum hent í massavís Þegar litið er á tískusóunina sjálfa og hvað verður um heilu fjöllin af einnota fötum sem fólk losar sig við, þá er myndin ekki mjög falleg. Á Íslandi hefur verið reiknað út að hver íbúi skili, að meðaltali, sjö kílóum árlega af fötum til Rauða krossins. Þar að auki hendir hver íbúi um 10 kílóum af fötum í ruslið á hverju ári. Í Bandaríkjunum er ástandið enn verra, þar fara um 85% af þeim fötum sem fólk losar sig við í landfyllingu eða brennslu. Þegar föt úr náttúrulegum trefjum eins og bómull og silki enda í landfyllingu þá myndast metangas eins og þegar matur er urðaður, sem veldur auknum gróðurhúsaáhrifum. Þar sem þessi föt eru oft stútfull af eitruðum litarefnum þá henta þau ekki í moltugerð og geta mengað grunnvatn ef landfyllingin er ekki einangruð almennilega. Við brennslu geta þessi eiturefni líka losnað út í andrúmsloftið. Föt, sem búin eru til úr hráolíu eins og pólýester og nælon, eru í raun plast og því alls óvíst hvort þau brotni yfirhöfuð niður. Það er því alveg ljóst að tískusóun, alveg eins og matarsóun, hefur gríðarlega neikvæð áhrif á plánetuna okkar.

Í tísku að ganga í notuðu Þegar ég var í menntaskóla þá kom mjög skemmtilegt tímabil þar sem það þótti mjög smart að ganga í gömlum fötum. Ég man að ég notaði nokkra gamla kjóla af mömmu frá því hún var ung og fannst þeir æðislegir. Ég gróf líka upp gamlan skinnjakka frá ömmu og fór alsæl í þessum gömlu fötum á böll. Það er samt sorglegt að það þurfi utanaðkomandi pressu fyrir ungmenni, sem og aðra, að finnast í lagi að ganga í gömlum fötum. Það er ekkert að því að kaupa ný föt þegar maður þarf á þeim að halda, og sérstaklega gott að kaupa föt sem eru framleidd sem næst manni og á umhverfisvænan hátt. En það er líka nauðsynlegt að minnka tískusóun okkar, nýta fötin sem eru til nú þegar, laga þau sem hafa rifnað eða skemmst og skiptast á fötum þegar maður er orðinn þreyttur á þeim eða passar ekki lengur í þau. Það er jafnvel hægt að hrista aðeins uppí vinahópnum og biðja alla um að koma með nokkrar gamlar flíkur í næsta boð og allir geta valið sér það sem þá langar í. Það er einnig frábært að gefa föt í Rauða krossinn og í aðrar fatasafnanir og munið að þau óska eftir því að fá allan textíl, einnig gömlu nærbuxurnar, slitnu sokkana og sængurverið sem er að detta í sundur. Þetta nýtist allt. Lykilatriði í baráttunni gegn tískusóun eru að kaupa minna af fötum, nýta gömlu fötin, kaupa umhverfisvæn föt og alls ekki henda fötum í ruslið.

45 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page