top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Slátrað í nafni græðgi og hjátrúar


Dýr í útrýmingarhættu Þegar ég var barn, þá horfði ég til stjarnanna og fannst þessi órannsakaði heimur svo spennandi að mig langaði að verða geimfari þegar ég yrði stór. Ég komst í raun ekki niður á Jörðina aftur fyrr en í menntaskóla en þá áttaði ég mig á því að við eigum bara eina Jörð og það er ekkert plan B ef við eyðileggjum hana. Ég skrifaði ritgerð um dýr í útrýmingarhættu árið 1996, sama ár og afríski fíllinn var settur á listann yfir dýr í útrýmingarhættu. Þrátt fyrir netleysi þá tókst mér að finna heimildir um ótrúlegt ofbeldi gagnvart fílum, nashyrningum, björnum og fleiri dýrum. Ég hafði aldrei á ævinni lesið annað eins, því veiðiþjófnaður er grimmilegt verk þar sem m.a. andlit nashyrninga eru skorin af lifandi dýrum til að ná hornunum af og þyrlur eru notaðar til að skjóta niður fílahjarðir. Þetta breytti einhverju innan í mér. Nashyrningar urðu uppáhaldsdýrið mitt og fjölskyldan og vinahópurinn horfði uppá mig breytast í æst villidýr sem skildi ekki af hverju allir voru ekki eins brjálaðir yfir þessu óréttlæti eins og ég.

Í dag, 20 árum síðar hefur ástandið versnað mjög mikið fyrir bæði nashyrninga og fíla sem og margar aðrar tegundir. Fyrir stuttu kom ákall frá alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum (IUCN) þar sem hörmulegu ástandi þessara dýrastofna var lýst. Samtökin kynntu skýrslu um stöðu afríska fílsins á heimsráðstefnu um ólöglega verslun með villt dýr, sem fór fram í Suður-Afríku í lok september í ár og niðurstöðurnar eru vægast sagt sláandi. Búið er að slátra 111 þúsund dýrum síðustu 10 árin og telur því stofninn í dag einungis um 415 þúsund dýr, sem er um 10% af stofninum frá því í byrjun 20. aldar. Fílabeinssala var bönnuð um allan heim árið 1989 en þrátt fyrir það blómstrar svarti fílabeinsmarkaðurinn því útskornar skögultennur og skartgripir úr fílabeini eru orðið stöðutákn hjá ríkum Asíubúum. Ofan á þetta allt saman er verið að ganga á náttúruleg búsvæði dýranna og ef ekkert verður að gert er mikil hætta á að afríski fílastofninn þurrkist út.

Horn og bein stöðutákn Ástand nashyrninganna er jafnvel enn verra en fílanna. Það eru um 30 þúsund nashyrningar eftir í Afríku, sem er einungis 5% af þeim dýrum sem lifðu fyrir 40 árum. Sumar undirtegundir eru nú þegar orðnar útdauðar og aðrar eru í bráðri útrýmingarhættu. Mikil aukning hefur verið á veiðiþjófnaði á nashyrningum, og á árunum 2006-2015 voru 6000 dýr felld. Nashyrningshorn, sem eru gerð úr keratíni eins og hár og neglur, hafa verið notuð í kínverskum lækningum í 2000 ár og eiga að lækna allt frá timburmönnum til krabbameins. Sums staðar er því jafnvel haldið fram að hornin hafi kynörvandi áhrif, væntanlega vegna lögunar þeirra. En það er alveg sama hversu mikið hornin eru rannsökuð, það hafa ekki fundist neinar vísbendingar um að þau lækni eitt né neitt og vísindamenn benda á að þú getur alveg eins nagað á þér neglurnar eins og að taka inn mulið nashyrningshorn. Þessi aukna eftirspurn eftir afurðum úr dýrum í útrýmingarhættu stýrist af tvennu; hjátrú og græðgi. Ólöglegt smygl á dýrum laðar að sér sömu týpur af fólki, og stundum jafnvel sama fólkið, og þrífst í heimi fíkniefna, mansals og vopnasmygls. Sem dæmi, má nefna að maður frá Laos, Vixay Keosavang, sem var lengi konungur í þessum bransa í heiminum, var kallaður Pablo Escobar hinnar ólöglegu dýrasölu. Í huga þessara glæpona eru þetta ekki lifandi dýr, heldur hrúgur af peningum sem þeir komast auðveldlega upp með að stela, því löggæsla vegna ólöglegra veiða er lítil sem engin. Að sjálfsögðu sogast einnig fátækt fólk inn í þennan glæpaheim sem eingöngu er að brauðfæða fjölskyldur sínar, en það fólk sér minnst af gróðanum.

Miklir peningar í ólöglegri sölu Blaðamenn tímaritsins the Guardian hafa undanfarið ár unnið með samtökunum Freeland, sem hafa í 14 ár barist gegn ólöglegri sölu á dýrum í útrýmingarhættu. Nú hefur verið flett ofan af tveimur nýjum höfuðpaurum, hinum víetnömsku Bach bræðrum, í einu umfangsmesta smyglmáli sem komist hefur upp um á dýrum í útrýmingarhættu. Tímaritið birti greinar sínar um málið á sama tíma og ráðstefnan fyrrnefnda var haldin um ólöglega verslun með villt dýr, í Suður-Afríku. Þar sátu fulltrúar frá 182 þjóðum sem skrifað hafa undir milliríkjasamning um alþjóðlega verslun á dýrum í útrýmingarhættu (Cites) og rökræddu framtíð þessara dýra sem verið er að þurrka út með þessari glæpastarfsemi. Þessi samningur felur samt ekki í sér neina löggæslu og því eru fá úrræði fyrir hendi til að fást við stór glæpagengi. Í glæpahring Bach bræðranna, voru flestar dýraafurðirnar fluttar frá Suður-Afríku og Kenía til Taílands, Laos, Víetnam og Kína. Ólögleg viðskipti á villtum dýrum í heiminum eru metin á 23 milljarða bandaríkjadala á hverju einasta ári. Þetta er gríðarlega há tala og til að setja hana í íslenskt samhengi þá væri þetta nægur peningur til að byggja 125 Hörpur, árlega.

Svört framtíð Efnaðir Asíubúar er hópurinn sem kaupir ólöglegar dýraafurðir og sá hópur er oft nátengdur stjórnmálafólki sem og viðskipta- og athafnafólki eins og Vixay Keosavang og Bach bræðrunum. Glæpamennirnir fela slóðir sínar bak við fyrirtæki sín og koma undan stórkostlegum fjárhæðum í sömu skattaskjól og aflandseyjar og hafa mikið verið í umræðu á Íslandi undanfarið. Sýnt hefur verið fram á pólitískan stuðning fjölmargra ríkja við þessa ólöglegu sölu og að forsætisráðuneyti Laos hafi, síðustu 10 árin, tekið 2% skatt af söluhagnaði þrátt fyrir innlent og alþjóðlegt bann á þessari sölu. Blaðamenn the Guardian hafa ítrekað sent fyrirspurnir til stjórnvalda í Laos um þetta mál en engin svör fengið. Framtíð fíla og nashyrninga í dag er svo sannarlega ekki björt og fjölmargar aðrar tegundir eru í mjög mikilli hættu. Sem betur fer er gott starf unnið á mörgum stöðum í heiminum í sambandi við vernd dýra en það er mjög langt í land. En hvernig í ósköpunum er hægt að bjarga dýrum úr útrýmingarhættu? Í fyrsta lagi er mikilvægt að vernda og endurheimta búsvæði tegundanna því án náttúrulegra heimkynna þá hverfa þær fljótt. Hafa verður í huga að dýr virða ekki ósýnileg landamæramörk og því verða nágrannaþjóðir stundum að vinna saman. En það er ekki alltaf nóg að vera með stórt búsvæði, það þarf einnig að vernda búsvæðin fyrir veiðiþjófum og því þurfa að vera til reglur, virk alþjóðleg löggæsla og refsirammi fyrir lögbrjóta. Það er einnig mikilvægt að vera í góðu samstarfi við heimamenn. Ég á t.d. vin frá Tansaníu sem er svokallaður wildlife warrior eða náttúrustríðsmaður. Starf hans felst í því að þjálfa fyrrum veiðiþjófa, sem oft eru fátækir heimamenn, í að vernda ljón og önnur dýr á svæðinu og fræða fólk um hvernig er hægt að lifa með þeim í sátt og samlyndi. Stundum getur verið mikilvægt að gera dýrin meira virði lifandi en dauð, eins og gert var með fjallagórillur í frumskógum Afríku sem núna eru mjög verðmætar vegna ferðamanna. Síðast en ekki síst þarf að útrýma fáfræði og hjátrú, bæði mennta fólk sem býr í nágrenni dýra í útrýmingarhættu en einnig að koma þekkingu til fólk sem áttar sig kannski ekki á afleiðingum gjörða sinna þegar það kaupir ólöglegar dýraafurðir eða trúir því í blindni að þær lækni sjúkdóma. En það er ekki bara fólk í útlöndum sem er að valda útdauða tegunda, við Íslendingar kaupum því miður ýmislegt, eins og t.d. harðvið og vörur sem innihalda pálmaolíu, sem hefur skelfileg áhrif á regnskóga og dýralíf. Við þurfum öll að muna að það er ekkert plan B, engin önnur Jörð eins og Pandora í myndinni Avatar. Við sem neytendur og kjósendur höfum mikið vald og mikilvægt að við nýtum okkur það. Þannig getum við sjálf stuðlað að betri framtíð fyrir náttúruna og okkur sjálf. Greinar The Guardian um málið: https://www.theguardian.com/environment/2016/sep/26/animal-trafficking-cites-criminal-industry-policed-toothless-regulator?CMP=share_btn_fb https://www.theguardian.com/environment/2016/sep/26/revealed-the-criminals-making-millions-from-illegal-wildlife-trafficking https://www.theguardian.com/environment/2016/sep/27/revealed-how-senior-laos-officials-cut-deals-with-animal-traffickers

4 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page