top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Plasthreinsun í hafinu


Plastfiskur á diskinn minn Sumarið 2011 fór hinn 16 ára Boyan Slat í köfunarferð til Grikklands. Þessi ungi hollenski strákur vissi ekki þá hvað þessi ferð ætti eftir að breyta miklu, bæði í hans lífi og fyrir Jörðina sjálfa. Hann fór í þessa ferð með von um að sjá undraheima fulla af fiskum og öðrum sjávarlífverum, en raunveruleikinn var allt annar og bitrari. Hann fann fleiri plastpoka í sjónum en fiska. Hann sneri áhyggjufullur til baka og ákvað að gera vísindaverkefni um plast í skólanum sínum. Hann rannsakaði plast og vandamál tengd því og komst að því að um 300 milljón tonn af plasti eru framleidd á hverju ári og hluti þess lendir í sjónum. Plastið heldur ekki lögun sinni í sjónum heldur brotnar niður í minni og minni einingar og endar sem örsmáar plastagnir. Sjávarlífverur, sem hafa frá örófi alda talið að fljótandi agnir í sjónum væru matur, éta nú plast í miklu magni. Yfir 100.000 spendýr og yfir milljón sjófuglar drepast á hverju ári vegna þess að þau innbyrða plast. Vandamálið er margþætt, í sumum tilfellum getur plast vafist utan um dýr og heft hreyfingar þeirra og jafnvel kyrkt þau og einnig geta eiturefni í plastinu skaðað dýrin. Plast getur þar að auki fyllt maga þeirra svo að dýrin halda að þau séu södd en enda á því að hljóta innvortis skemmdir eða svelta til bana. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í miðjum úthöfunum, þúsundir kílómetra frá landi, á stöðum þangað sem jafnvel enginn maður hefur komið, er sex sinnum meira af plasti en svifi. Þar að auki endar hluti af þessum plastögnum á matardisknum okkar í gegnum fiskinn sem við veiðum.

Er útilokað að hreinsa plastið? Plast er að finna nær allsstaðar í sjónum en vegna hafstrauma safnast það saman í risastóra fljótandi plastfláka og búið er að skilgreina fimm svona fláka í heimshöfunum. Einn stærsti plastflákinn er í Kyrrahafinu og nær yfir svæði sem er að minnsta kosti sjöfalt stærra en Ísland og jafnvel mun stærra. Það er erfitt að ná myndum af þessu fyrirbæri því mikið af plastinu hefur brotnað niður í smærri einingar og er orðið að örplasti.

Boyan Slat var undrandi að heyra að það væri nær útilokað að hreinsa plastið úr sjónum. Honum var sagt að það yrði allt of dýrt, og að net gætu jú kannski náð plastinu en myndu alltaf drepa lífríkið líka. Og hvernig átti að ná stórum plasteiningum ásamt því að ná öllu örplastinu? Hann heyrði aftur og aftur hve mikilvægt það væri að koma í veg fyrir að meira plast færi út í hafið, en enginn virtist trúa því að hægt væri að hreinsa það plast upp sem nú þegar var komið í hafið. Hann rakst á marga veggi en missti aldrei trúna á að þetta væri hægt.

Þegar fólk hugsar um hreinsun á sjónum, þá er fyrsta hugmyndin kannski einskonar „ryksuga“ sem siglir um höfin og sýgur upp plast. En svona plastsuga yrði eflaust óhuggulega dýr í rekstri og tæki hundruð ára að ljúka verki sínu. Allt í einu fékk Boyan frábæra hugmynd! Af hverju að sigla um höfin með tilheyrandi tíma og kostnaði þegar sjórinn getur komið til þín? Með því að búa til kyrrstæða plasthreinsistöð þá gætu hafstraumarnir sjálfir séð um að koma plastinu í gegnum stöðina. Þessi hugmyndafræði varð til þess að hann var beðinn um að halda TEDx fyrirlestur árið 2012 sem fékk metáhorf.

Plasthreinsistöð verður til Í ársbyrjun 2013, var Boyan kominn í verkfræðinám en hugmyndin um að hreinsa höfin var svo sterk að hann hætti í náminu, setti félagslífið á ís og stofnaði samtökin „The Ocean Cleanup“ sem miða að því að gera hugmyndina um plasthreinsistöðina að veruleika. Í mars 2013 breyttist líf hans svo um munaði því sagan hans fékk heimsathygli. Frétta- og samfélagsmiðlar loguðu og hann fékk þúsundir tölvupósta á dag. Í kjölfarið setti hann á laggirnar hópfjármögnun sem halaði inn 10 milljónum króna á 15 dögum og Boyan bjó til 100 manna hóp sérfræðinga og sjálfboðaliða sem höfðu trú á málstaðnum. Hann var ekki lengur einn í heiminum. Næsta skref var að kanna hvort plasthreinsistöðin væri framkvæmanleg og þar þurfti að spyrja spurninga er tengdust m.a. verkfræði, haffræði, vistfræði, sjórétti, fjármálum og endurvinnslu. Þessi framkvæmdarkönnun tók heilt ár og sýndi fram á að hreinsistöðin væri vel framkvæmanleg. Eðli plasts er þannig að það flýtur á yfirborðinu og því væri hægt að ná bæði stóru plasti og örplasti og aðgerðin myndi líklega hafa lítil áhrif á lífríkið.

En hvernig virkar svona plasthreinsistöð? Ef maður reynir að berjast við sjóinn, þá tapar maður. Plasthreinsistöðin hans Boyan verður botnföst og hönnuð þannig að hún sé eins sveigjanleg og hægt er. Hún hreyfist með öldunum og það er lykilatriði til að þola erfiðustu aðstæður. Stöðin verður knúin af hafstraumunum sjálfum og sólarorku og hefur tvær langar flotgirðingar sitt hvoru megin við sig sem virka eins og tilbúin strandlengja. Þessar flotgirðingar ná fljótandi plasti úr sjónum á meðan sjávarlífverurnar smjúga undir flotgirðinguna með straumnum. Stöðin verður í laginu eins og V og því beinist plastið beint í áttina að miðjunni, þar sem það safnast saman og örplastið er síað frá. Plastinu er svo komið á land og selt í endurvinnslu sem fjármagnar verkefnið.

TIl mikils að vinna Teymið hans Boyan vinnur hörðum höndum við að láta drauminn rætast og árið 2015 tóku 30 skip ásamt flugvélum þátt í rannsóknaleiðangri í Kyrrahafinu sem mat hve mikið magn af plasti væri í plastflákanum. Það kom í ljós að þarna er að finna miklu meira plast en áður var talið. Í júní 2016 var sjósett frumgerð af 100 metra langri flotgirðingu í Norðursjónum við strönd Hollands og var hún kölluð Boomy McBoomface. Þetta verkefni var að miklu leyti styrkt af hollenskum yfirvöldum. Nú er stefnt að því að tilraunaplasthreinsistöð verði starfhæf í Kyrrahafinu í lok árs 2017 og verður hún nokkrir kílómetrar að lengd. Eftir þessar prófanir verður unnið að 100 km langri hreinsistöð sem á að vera tilbúin árið 2020. Teymi Boyans reiknaði út að helmingur plastflákans í Kyrrahafinu gæti verið hreinsaður upp með slíkri hreinsistöð á 10 árum og milljónir tonna af plasti yrði fjarlægt. Það má því segja að sjórinn muni hreinsa sig sjálfur, en svo þarf að sjálfsögðu einnig að koma í veg fyrir að meira plast fari í sjóinn.

Eins og við má búast hafa Boyan og samstarfsfélagar hans fengið vænan skammt af gagnrýni sem þeir hafa svarað fullum hálsi. Það er ekki víst að þetta virki eins vel og á teikniborðinu og þeir ná kannski ekki upp öllu plasti sem finnst í sjónum, en þessi fyrstu ár verkefnisins lofa mjög góðu. Þarna er stór hópur sérfræðinga að vinna saman við að leysa eitt stærsta umhverfisvandamál Jarðarinnar og til mikils að vinna. Það er mikilvægt að vera bjartsýnn þegar kemur að umhverfismálum, sérstaklega þegar útlitið virðist vera svart. Heimurinn þarf á fleiri ungmennum eins og Boyan Slat að halda.

90 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page