top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Fengitíminn drepur karldýrin

Karldýrin deyja Árið 2004 rannsakaði ég lítið ránpokadýr í Viktoríufylki í Ástralíu sem ég nefndi fenjapokamús (Swamp Antechinus – Antechinus minimus) en þetta er lítill ættingi Tasmaníudjöfulsins sem einnig er kallaður pokaskolli. Það er stöðug fækkun í stofninum og ástandið er þannig að líkur eru á að tegundin lendi í hættu í náinni framtíð. Þessi litlu ránpokadýr líta út og hreyfa sig eins og mýs en þegar vel er að gáð þá eru þau ekki mjög lík. Ólíkt músum, sem eru með stórar framtennur, þá eru fenjapokamýs með langan beittan tanngarð sem ég fékk oft að finna fyrir þegar ég meðhöndlaði dýrin. Kvendýrin eru ekki með áberandi poka eins og þau pokadýr sem flestir þekkja, en allt að átta ungar eru grónir fastir við spena móður sinnar fyrstu vikur ævinnar. Mæðurnar hlaupa um stokka og steina með ungana undir sér og mér fannst ótrúlegt að ungarnir skyldu ekki flækjast fyrir fótunum á þeim eða hreinlega verða eftir úti í móa. En þær fjölskyldur sem ég fylgdist með urðu sem betur fer ekki fyrir neinum skakkaföllum.

Það sem er svo stórmerkilegt og sjaldgæft við þessa ættkvísl pokamúsa er að eftir ærslafullan fengitíma þá hrynja öll karldýr niður og drepast. Það er meira að segja búið að finna út að þeir hætta að nærast á fengitímanum, þeir keyra sig gjörsamlega út og öll líffæri hætta að starfa. Maður spyr sig hvernig í ósköpunum svona mökunarkerfi geti þróast? Kerlurnar eru skildar aleinar eftir með unga sína sem verður stólpinn af næstu kynslóð því kvendýrin geta sum lifað í örfá ár. Talið er að karldýrin tryggi afkomu gena sinna með því að setja alla orku sína í fengitímann og svo þurfa afkomendurnir ekki að keppa við feður sína um æti þegar þeir komast á legg. Þetta hljómar undarlega en hefur virkað prýðilega hingað til fyrir þessar tegundir. Hins vegar er tvennt sem getur haft örlagarík áhrif á fenjapokamúsina og aðrar pokamýs en það eru innfluttar tegundir og tap á búsvæðum.

Ágengar tegundir Með Evrópumönnum fluttust margar dýra- og plöntutegundir til Ástralíu og hafa nokkrar þeirra orðið ágengar og valdið gífurlegum skaða á náttúru og uppskeru. Kanínur eru ef til vill þekktasta dæmið um ágenga tegund í Ástralíu. Þær komu fyrst til Ástralíu árið 1788 með fyrstu bresku landnámsskipunum en urðu ekki vandamál fyrr en maður að nafni Thomas Austin sleppti 24 kanínum út í náttúruna árið 1859 fyrir veiðar. Hann á að hafa sagt að nokkrar kanínur gætu ekki gert mikið af sér, þær minntu á gömlu heimkynnin og hentuðu vel til skotveiða. En kanínur eru sérstaklega frjósamar og lífseigar, jafnvel í þessum nýju sjóðheitu heimkynnum. Árið 1887, 28 árum eftir að Thomas sleppti fyrstu kanínunum út í náttúruna, voru þær búnar að dreifa sér um alla sunnanverða Ástralíu. Tapið sem bændur urðu fyrir vegna kanínunnar var svo mikið að stjórnvöld auglýstu verðlaun fyrir aðferð til að losna við þessa plágu. Úr varð hinn alræmda kanínugirðing. Þessi girðing var reist í byrjun 20. aldarinnar í Vestur- Ástralíu og náði samtals yfir 3200 kílómetra. Eftir að farið var að dreifa veirusýkingunni myxomatosis uppúr 1950, sem herjar bara á kanínur, þá minnkaði þörfin fyrir girðinguna og þessar aðgerðir fækkuðu kanínum úr um 600 milljónum niður í 100 milljónir dýra. Í dag eru um 2-300 milljónir kanína í Ástralíu og um helmingur þeirra er ónæmur fyrir veirunni þannig að þær eru ennþá vandamál í dag. Kanínur herja ekki bara á ræktarland heldur keppa einnig við innlendu dýrin, þar á meðal fenjapokamúsina, um fæðu og skjól. Innlendu dýrunum stafar einnig mjög mikil hætta af tveimur innfluttum rándýrum, rauðref og villiköttum. Talið er að í dag séu um 6,2 milljónir rauðrefa og 18 milljónir villikatta í Ástralíu. Refir og villikettir bárust einnig til Ástralíu með Evrópumönnum og hafa valdið fækkun í stofnum fjölmargra innlendra tegunda og einnig útdauða nokkurra tegunda. Margar sjaldgæfar tegundir þrífast nú einungis á afskekktum eyjum þar sem engin rándýr finnast, eða á landsvæðum þar sem köttum og refum er haldið í skefjum. Þessi rándýr drepa ekki bara bráð sér til matar heldur keppa einnig um fæðu og skjól við innlend ránpokadýr eins og pokamerði, pokaskolla og pokahreysiketti.

Eyðilögð náttúra Tap á búsvæðum er svo annað stóra vandamálið sem pokamúsum og öðrum innlendum dýrategundum í Ástralíu stafar hætta af. Það er stöðugt verið að ganga á búsvæði þeirra, bæði vegna iðnaðar eins og námavinnslu og einnig sívaxandi íbúða- og sumarbústaðabyggða.

Búsvæði fenjapokamúsarinnar sem ég rannsakaði í Viktoríufylki er gróskumikið og þar er mikil tegundafjölbreytni, bæði gróðurs og dýra. Á rannsóknasvæði mínu voru mikil ummerki um kanínur því svæðið var þakið kanínuskít og einnig sáum við refi á svæðinu. Þarna voru líka stígar sem minntu mig á íslenskar kindagötur en ég var fljót að sjá að þetta voru kengúrugötur því þær hoppuðu stundum á harðaspretti eftir þeim.

Stór kolanáma í nágrenninu var stöðug ógn við tilveru lífríkisins á svæðinu þar til henni var lokað árið 2015. Þar sem líffræðilegi fjölbreytileikinn er svo mikill á svæðinu þá verður erfitt að endurheimta þessi búsvæði og það mun taka langan tíma. Námunni fylgdi einnig mikil umferð og mengun. Rannsóknasvæði mitt er staðsett við sjóinn á milli tveggja lítilla þorpa sem árið 2004 voru mjög lítil og ferðamenn sáust nær eingöngu í skólafríum. Í dag, 13 árum síðar, er ástandið allt annað, bæði hefur ferðamönnum fjölgað mjög mikið og einnig hefur byggðin á svæðinu margfaldast miðað við það sem var. Það er því klárt mál að fenjapokamýsnar, sem og aðrar tegundir á svæðinu, stjórnast mjög mikið af manngerðum þáttum.

Hvernig á að breyta stöðunni? Þegar hugað er að dýra- og náttúruvernd þarf að taka allt með í reikninginn því ef dæmið er ekki reiknað til enda getur það stundum valdið enn meiri skaða en ekkert inngrip. Þegar innfluttar tegundir eru búnar að vera lengi á svæðum hefur náttúran komist í annað jafnvægi og það getur verið erfitt að endurheimta landsvæðin í þeirri mynd sem þau voru áður. Gott dæmi um þetta er vandamálið með kanínur, ketti og rauðrefi í Ástralíu. Ef eingöngu væri ráðist í aðgerðir við að útrýma kanínum af tilteknu svæði þá er einnig verið að fækka bráðardýrum rándýranna. Með þessari aðgerð yrði mikil hætta á útdauða innlendu tegundanna sem markmiðið var að bjarga. Það er því nauðsynlegt að gera fyrst ráðstafanir við að fækka innfluttu rándýrunum og takast svo á við kanínurnar. Einnig eru misjafnar skoðanir á því hvernig fara eigi að því að fækka innfluttu tegundunum og er mikilvægt að nota til þess mannúðlegar aðferðir. Vandamálið er að ef ekkert er að gert, þá munum við horfa uppá útdauða fjölmargra dýrategunda í Ástralíu.

Afkomendur fenjapokamúsanna minna sem ég rannsakaði fyrir meira en áratug síðan hlaupa vonandi ennþá sprækir um á svæðinu en hætturnar eru við hvert fótmál. Það hefur verið þrengt að þessum dýrum frá öllum hliðum og það er sérstakt áhyggjuefni þar sem mökunarkerfi þeirra er svo sérstakt. Öll karldýrin deyja eftir fengitímann og ef eitthvað gerist á svæðinu eftir það, til dæmis skógareldar eða þurrkar, sem valda því að fáir ungar komast upp, þá er illt í efni. Sem betur fer hefur kolanámunni á svæðinu verið lokað og unnið er að endurheimt landsvæðisins. Þetta er líka mjög frjó og lífseig tegund sem hefur náð að lifa með innfluttu rándýrunum í langan tíma. Að auki er mikið af fólki á svæðinu sem er mjög annt um náttúruna. Það hefur því birt talsvert yfir tilveru fenjapokamúsarinnar sem fáir vita að yfirhöfuð er til.

13 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page