top of page
Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Regnskógaeyðandi pálmaolía

Það er auðvelt að láta blekkjast af merkingum umbúða og innantómum loforðum frá framleiðendum, eins og fram hefur komið í umræðunni undanfarið um egg og vistvæna vottun. Því miður er þetta langt frá því að vera eina tilvikið um svik tengd vottun. Ræktun á svokallaðri „sjálfbærri“ pálmaolíu er dæmi um kerfisbundin svik á stórum skala, við bæði fólk og náttúru.

Lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu í dag, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu, sem er ódýrasta jurtaolían á markaðinum. Olíupálminn (Elaeis guineensis) er fljótvaxinn hitabeltispálmi upprunninn frá Vestur Afríku og það má ekki rugla honum saman við kókospálmann sem er allt önnur tegund. Einn hektari af olíupálmum gefur af sér um fjögur tonn af pálmaolíu og hálft tonn af pálmakjarnaolíu á ári.

Pálmaolía er notuð í um helmingi þeirra vara sem seldar eru í stórverslunum í dag, hvort sem litið er til snyrtivara eða matvara. Fyrir stuttu fór ég í matvöruverslun til að freista þess að kaupa pálmaolíulausa köku með kaffinu. Ég skoðaði innihaldslýsingar á öllum þeim kökum, kexi, sætabrauði og kleinum sem þar var að finna og mér tókst, eftir mjög langan tíma, að finna eina erlenda kextegund sem var án pálmaolíu. Það er mjög erfitt í dag sem neytandi að ætla að forðast vörur sem eyða regnskógum. Mig langar að kaupa íslenskar vörur, bæði til að styðja íslenska markaðinn og til að minnka kolefnissporið, en pálmaolían laumar sér á ótrúlegustu staði, meira að segja í rammíslenskar mjólkurvörur og sætabrauð. Snyrtivörur eins og sápa, sjampó og krem eru oft stútfull af pálmaolíu, sem yfirleitt er ekki merkt þannig að fólk skilji að um pálmaolíu er að ræða.

Þegar ómettuð fita, sem finnst í mörgum fljótandi jurtaolíum, er hert eða hituð við mjög hátt hitastig, eins og djúpsteikingu, myndast transfita. Neysla á transfitu hefur verið tengd hjarta- og æðasjúkdómum og því hafa margir matvælaframleiðendur skipt út ómettaðri fitu yfir í pálmaolíu sem inniheldur mikið af mettaðri fitu. Þetta er ein ástæða aukinnar eftirspurnar á pálmaolíu í hinum vestræna heimi en rannsóknum ber þó ekki alltaf saman hvort pálmaolía sé yfirhöfuð heilsusamlegasti kosturinn.

Regnskógar

Regnskógar eru mjög frjósamir með mikinn líffræðilegan fjölbreytileika. Á einum hektara í Amazon skóginum hafa t.d. fundist yfir 230 tegundir trjáa. Þar að auki er skógur miklu meira en bara tré og því miður tapast einnig mjög mikið af dýra- og smádýrategundum þegar skógar eru ruddir. Dýr þrífast ekki nema hafa skjól og heppilegt æti og fæðuvefurinn getur verið mjög flókinn í gömlum regnskógum. Sumar lífverur eru jafnvel háðar öðrum. Margar plöntutegundir geta t.d. ekki stundað víxlfrjóvgun nema með hjálp ákveðinna skordýra, fugla eða spendýra og ef þau hverfa af svæðinu þá deyja plönturnar líka í kjölfarið. Dýr geta þurft stór svæði til að athafna sig og þrífast ekki í litlum afmörkuðum regnskógarleifum. Þetta er ástæða þess að margar regnskógartegundir eru í bráðri útrýmingarhættu.

Regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur Asíu, vaxa á kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því bæði losnar kolefni út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er þurrkuð upp. Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu tengdum pálmaolíuframleiðslu.

Við það að breyta regnskógum í plantekrur, þá er í raun verið að búa til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútan apar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða og gerist í dag þá gætu órangútan apar orðið útdauðir í náttúrunni innan 25 ára. Að auki hefur Amnesty International nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks og barna sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast vegna vinnu þeirra við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.

Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu (Roundtable on Sustainable Palm oil - RSPO)

Talið er að a.m.k. 15 milljón hektara af regnskógi, sem jafnast á við landsvæði á stærð við eitt og hálft Ísland, sé nú þegar búið að fella fyrir framleiðslu á pálmaolíu í heiminum, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Framleiðsla á pálmaolíu hefur tvöfaldast síðasta áratuginn og mun líklega aftur tvöfaldast til ársins 2020. Þetta er að miklu leyti vegna aukinnar eftirspurnar frá Asíu. Árið 2013 voru samtals framleidd tæp 60 milljón tonn af pálmaolíu, þar af voru einungis 16,5 % framleidd undir regnhlíf samtaka sem kalla sig „Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu“ og þar af var helmingurinn með sjálfbæra vottun, sem samsvarar einungis 9% af heimsframleiðslunni. Indland, Indónesía og Kína kaupa um 42% af þeirri pálmaolíu sem framleidd er í heiminum og lönd innan Evrópusambandsins um 10% en þar er einnig mest keypt af þeirri pálmaolíu sem hefur fengið sjálfbæra vottun frá Hringborðinu.

Hringborðið um sjálfbæra pálmaolíu eru samtök sem tengja saman hagsmunaaðila í framleiðslu pálmaolíu í gegnum alla virðiskeðjuna, þar á meðal pálmaolíuframleiðendur, aðra framleiðendur, verslanir, banka og frjáls félagasamtök. Hugmyndafræðin er einföld og falleg og snýr að því að stöðva skógareyðingu og framleiða og votta sjálfbæra pálmaolíu. Því miður er kerfið meingallað. Það má einnig setja stórt spurningarmerki utan um það hvort yfirhöfuð sé til sjálfbær pálmaolía. Er framleiðslan orðin sjálfbær þegar það eru fimm, 10 eða 30 ár liðið frá því að regnskóginum var flett ofan af landinu? Staðreyndin er sú að það var regnskógur á öllu því svæði sem pálmaolía er nú framleidd, hvort sem hún er vottuð sem sjálfbær eða ekki.

Hringborðið nær ekki að koma í veg fyrir frekari regnskógareyðingu og losun gróðurhúsalofttegunda henni tengdri og pálmaolía sem er framleidd á þessum svæðum fær trekk í trekk stimpil sem sjálfbær pálmaolía þó hún sé það ekki í neinum skilningi. Pálmaolíuframleiðendur blanda saman olíu frá gömlum plantekrum, sem sumar eru stimplaðar sem sjálfbærar, og nýjum plantekrum sem eru á svæðum sem eru nýlega rudd af skógi. Þetta vottunarkerfi er eins ógegnsætt og hugsast getur og þetta er dæmi um grænþvott af verstu tegund, en grænþvottur er sú aðgerð að merkja vöru, fyrirtæki eða þjónustu þannig að hún virðist vera umhverfisvænni en hún er í raun. Þarna er verið að blekkja bæði neytendur og framleiðendur á neysluvörum í vestrænum löndum sem halda að þeir séu að kaupa vottaða vöru.

Það er ekki auðvelt að leiðbeina fólki hvað það á að taka til bragðs sem neytendur, þegar vandamálið í sambandi við pálmaolíu er eins risavaxið og raun ber vitni. Meingallað vottunarkerfi er kannski skárra en ekkert vottunarkerfi en samt er ekki hægt með góðri samvisku að kaupa vörur sem eyðileggja regnskóga. Margir framleiðendur í vestrænum ríkjum hafa, vegna mikils þrýstings frá náttúruverndarsamtökum, tekið sig á og kaupa núna eða stefna á að kaupa pálmaolíu sem þeir halda að sé sjálfbær. Getum við sett þá kröfu á fyrirtæki að þau skipti aftur yfir í smjör og aðra olíu sem þeir notuðu áður en pálmaolía kom til sögunnar? Og þá kemur aftur upp sú krafa frá heilbrigðisyfirvöldum um minni notkun á transfitu. Það er engin ein töfralausn í augsýn en neytendur og framleiðendur verða að berja í borðið og setja þá lágmarkskröfu að sú sjálfbæra (að nafninu til) pálmaolía sem þeir kaupa sé í alvörunni sjálfbær.

109 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page