Gróði ofar öllu Úrslit forsetakosninga Bandaríkjanna komu sannarlega af stað flóðbylgju skelfingar yfir heiminn. Margir eru hræddir, því þessi kosningabarátta var ein sú grimmilegasta og ómálefnalegasta sem sést hefur og Donald Trump sýndi takta sem hægt er að líkja við marga einræðisherra mannkynssögunnar. En í dag er árið 2016, aldrei í sögu mannkyns hefur verið til jafn mikil vitneskja, og maður skilur varla hvernig Trump komst upp með kvenfyrirlitninguna, kynþáttafordómana og allan dónaskapinn. Fasismi virðist vera sú hugmyndafræði sem fólk grípur til þar sem m.a. mikið af innflytjendum er að finna og við höfum nú horft uppá þessa þróun á meginlandi Evrópu og Skandinavíu í mörg ár. Kosning Trumps á því kannski ekki að koma svo mikið á óvart, þetta sýnir hve mikil hræðsla og vanþekking er í samfélaginu og rasistarnir eru eina fólkið sem boðar breytingar. Hinn almenni borgari, sem kaus Trump út af réttindum til að bera skotvopn, fóstureyðingum eða innflytjendamálum, áttar sig kannski ekki á að Trump fylgir einnig skelfilegt stefna gegn umhverfinu.
Bandaríkin, ásamt 192 öðrum ríkjum heims, þar á meðal Íslandi, eru búin að skrifa undir Parísasamkomulagið sem snýst um að sporna við loftslagsbreytingum. Allar þessar þjóðir hafa skuldbundið sig til að breyta sínum háttum og minnka útblástur kolefnis. Það er í raun ekki til mikilvægara samkomulag í mínum augum því þetta snýst um að halda Jörðinni lífvænlegri fyrir komandi kynslóðir. Ef okkur mistekst þetta, þá verður ekki aftur snúið, við munum eyðileggja Jörðina en það er eini staðurinn sem við þekkjum í öllum heiminum sem við getum lifað á. Menn eins og Donald Trump skilja þetta ekki, eða vilja ekki skilja það. Í hans augum snýst allt um að græða sem mest enda er hann í grunninn moldríkur kaupsýslumaður sem svífst einskis. Í kosningabaráttu sinni lýsti Trump því yfir að hann ætlaði sér að rifta Parísarsamkomulaginu og hann er búinn að heita því að eitt af hans fyrstu verkum á forsetastóli verði að afnema öll höft á framleiðslu og notkun jarðefnaeldsneytis, auka olíuvinnslu úr kalk- og sandsteinslögum ásamt því að auka vinnsluna í kolanámum Bandaríkjanna. Þetta þýðir að Bandaríkin, sem er sú þjóð sem mengar mest á eftir Kína, mun jafnvel auka kolefnisútblástur sinn gríðarlega í stað þess að leita allra ráða við að minnka hann. Trump gæti komist upp með þetta, lagalega séð, því Parísarsáttmálanum fylgja engin refsiákvæði ef þjóðir svíkjast undan. Á sama tíma og Trump kynnir þessa afturför í orkustefnu Bandaríkjanna eru kanadísk stjórnvöld með áform um að hætta alfarið kolavinnslu fyrir 2030 og innleiða jafnvel sérstakan kolaskatt fram að þeim tíma.
Koma börnin til bjargar? Trump hefur hótað fleiru sem skaðar umhverfið í kosningabaráttu sinni og á þeim tíma sem liðinn er frá kosningum. Hann hefur til dæmis sagst ætla að ógilda áætlun Obama og Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) um hreina orku (The Clean Power Plan) en sú reglugerð myndi skylda ríki til að setja fram áætlanir um minnkun á kolefnisútblæstri frá orkugeiranum. Trump virðist yfirhöfuð ekki vera hrifinn af Umhverfisstofnun Bandaríkjanna og margir óttast að hann reyni að ráða hagsmunaaðila um jarðefnaeldsneyti og efasemdarfólk um loftslagsbreytingar í hæstu stöður þar eða jafnvel að leggja hana alveg niður.
En þrátt fyrir að Bandaríkin, undir stjórn Trumps, virðast vera á góðri leið með að eyðileggja alla von um að okkur takist að bjarga lífríki Jarðarinnar frá hörmungum vegna loftslagsbreytinga, þá er samt ekki öll von úti og stuðningsmenn er víða að finna.
Hópur barna og ungmenna í Bandaríkjunum á aldrinum 9-20 ára hefur kært alríkisstjórnina ásamt jarðefnaeldsneytisiðnaðinum fyrir að eyðileggja framtíð þeirra með því að gera ekkert til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Eftir erfiða meðferð í réttarkerfinu hefur þeim tekist það sem aldrei hefur gerst áður í bandarísku réttarkerfi, krafa þeirra gegn yfirvaldinu var tekin gild og réttarhöld verða í málinu á árinu 2017. Ungmennin, sem eru tuttugu og eitt talsins, berjast fyrir lífvænlegri Jörð og þau halda því fram að loftslagsbreytingar ógni tilveru þeirra, frelsi og eignarrétti. Kæran snýst um að aðgerðir stjórnvalda í þágu jarðefnaeldsneytisiðnaðarins hafi valdið auknum loftslagsbreytingum. Að auki er því haldið fram að lyft hafi verið undir þennan mengandi iðnað í meira en 50 ár þrátt fyrir að full vitneskja hafi verið um skaðsemi hans. Í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum, hafa þessir krakkar, og margir þátttakendur loftslagsráðstefnunnar í Marrakech, hvatt Obama, fráfarandi forseta, til að koma að samningsborðinu og reyna að ná sáttum í málinu áður en Trump tekur við forsetastólnum þann 20. janúar 2017. Sumir hafa gengið svo langt að telja þessa kæru vera lykilinn í því að bjarga Jörðinni, því skaðinn sem Trump hefur hótað að valda er svo mikill.
Borgarstórar í Bandaríkjunum sendu opið bréf til Trump þar sem hann er beðinn um virða Parísarsáttmálann. Þetta er beiðni frá 33 borgum, þar á meðal sex stærstu borga landsins: New York, Los Angeles, Chicago, Houston, Philadelphia og Phoenix, þar sem næstum 30 milljónir manns búa samtals. Borgarstjórarnir segjast munu halda áfram baráttunni gegn loftslagsbreytinum með eða án stuðnings alríkisstjórnarinnar en biðla til Trump um að standa með sér. Að auki tóku yfir 300 fyrirtæki í Bandaríkjunum höndum saman eftir kosningarnar og sendu Trump, Obama, bandarískum þingmönnum og heimsleiðtogum á loftslagsráðstefnunni í Marrakech opið bréf þar sem þau undirstrikuðu mikilvægi þess að virða Parísarsáttmálann og að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Þessi fyrirtæki, þar á meðal Nike, eBay, IKEA, Hewlett Packard og Starbucks, sögðu það ógn við velgengni Bandaríkjanna ef uppbygging á kolefnislausu hagkerfi myndi bregðast. Fyrirtækin bentu einnig á að sáttmálinn sé hvati fyrir fyrirtæki og fjárfesta sem nú þegar hafa eytt milljörðum dollara í fjárfestingar í hreinni orku og að þessi fjárfesting muni margfaldast ásamt því að koma hreinni orku til allra í heiminum.
Tvísaga og þrísaga forseti Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað er að gerast í kollinum á Donald Trump þessar fyrstu vikur eftir kosningar. Það sem hann segir nú er stundum í engu samhengi við það sem hann sagði í kosningabaráttunni. Hann lýsti því t.d. yfir í kosningarbaráttunni að hann teldi að loftslagsbreytingar væru lygasaga úr herbúðum Kínverja en í nýlegu viðtali við dagblaðið New York Times kveður við nýjan hljóm. Nú segist hann hafa hugsað málið upp á nýtt og það væri kannski einhver tenging milli loftslagsbreytinga og manna. Hann sagðist í viðtalinu ætla að horfa á það með opnum huga hvort hann drægi Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum eða ekki. Þetta eru jákvæðar fréttir, en um er að ræða sjálfan Donald Trump, þannig að það er ómögulegt að spá fyrir um hvað gerist. Eitt er samt víst. Ef Trump ræðst í þær öfgafullu aðgerðir gegn umhverfinu og mannréttindum sem hann hefur hótað, þá má búast við miklum mótmælaaðgerðum í Bandaríkjunum og heiminum öllum næstu fjögur árin.