top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Fíkniefni ógn við náttúruna


Fíkniefni og umhverfið Ein af mínum bestu vinkonum úr doktorsnáminu er frá Bólivíu. Hún eyddi mörgum árum við rannsóknir sínar á litlum ættingja lamadýrsins sem kallast Guanaco. Hún sagði mér ótrúlegar sögur af þessum rannsóknum, en það sem er eftirminnilegast, er að hún þurfti stanslaust að vera að fela sig fyrir fíkniefnasmyglurum. Teymið hennar þurfti stundum að bíða í marga daga í felum, með öndina í hálsinum, því þau vissu að þau myndu ekki lifa það af að rekast á þessa smyglara. En þau gáfust ekki upp, þau komu þarna til að rannsaka lífríkið í þessum skógi og fóru ekki aftur til byggða fyrr en þau voru búin að safna þessum dýrmætu upplýsingum. Ég dáðist að þessari þrautseigju og ástríðu en var líka dauðfegin að vera „bara“ að rannsaka mink á Íslandi. Ég varð líka mjög hugsi yfir því hve mikil áhrif fíkniefnaheimurinn hefur á bæði fólk og náttúru.

Félagsleg og heilsufarsleg áhrif fíkniefna eru vel þekkt og margir átta sig á því að sum fíkniefni, eins og kókaín, skilja eftir sig blóðuga slóð frá framleiðslu til neytenda. En líklega eru samt fæstir fíkniefnaneytendur að hugsa um umhverfismál í samhengi við neyslu sína. Staðreyndin er samt sú að framleiðsla á fíkniefnum drepur ekki bara fólk, hún veldur líka gríðarlegum skaða á náttúrunni og stuðlar að loftslagsbreytingum.

Kókaínframleiðsla á sér aðallega stað í Kólumbíu, Perú og Bólivíu þar sem regnskógi er breytt í kókaínplantekrur og leynilegar verksmiðjur. Skógareyðingin veldur eyðingu búsvæða fyrir dýr, minni lífbreytileika, jarðvegseyðingu, efnaengun og útblæstri kolefnis. Notkun á sterku skordýraeitri mengar jarðveginn, grunnvatnið og loftið. Svo tekur vinnslan á kókalaufunum við en þar er ógrynni af brennisteinssýru, steinolíu og öðrum tærandi og mengandi efnum skolað ofan í jarðveginn.

Þessi skógareyðing og efnamengun hefur stofnað hundruðum tegunda spendýra, fugla, skriðdýra, froskdýra og fiska í vatnasviðum Amazon og Orinoco fljótanna í hættu. Þegar horft er á heróín, sem er framleitt úr valmúa, aðallega í Afganistan og Búrma, þá er skaði á náttúrunni svipaður og við vinnslu á kókaíni.

Eiturefnin sem eyða jörðinni Kannabisplöntur eru ræktaðar víða um heim, einnig á Íslandi. Plönturnar þurfa pláss og þar sem þær eru ræktaðar utandyra þá fylgir þessari ræktun oft skógareyðing, land- og jarðvegseyðing og mengun. Mikil notkun á skordýraeitri og áburði er notuð í plantekrurnar og í sumum tilfellum er notast við rottueitur til að halda meindýrum frá. Þegar kannabisplöntur eru ræktaðar innandyra þá þarf mikla orku í lýsingu, vökvun og til að halda réttu hitastigi.

Fíkniefnið MDMA, sem notað er í e-töflur og mollý er framleitt úr olíu sem kallast sassafras- eða safrole olía. Þessi olía er unnin úr ýmsum trjátegundum og ein þeirra, Selasian tréð, sem inniheldur hátt hlutfall af olíunni vex m.a. í regnskógum Cardamom fjallanna í Kambódíu. Þessi trjátengund er nú í bráðri útrýmingarhættu vegna þessarar framleiðslu. Vopnaðir hópar dreifa sér um skóginn, höggva þessi tré ólöglega niður og sjóða trjáboli þeirra og rætur yfir eldi í um fimm daga í risastórum kötlum sem eima olíuna úr. Til að viðhalda eldi til að sjóða eitt tré þarf eldivið úr sex öðrum regnskógartrjám. Við vinnsluna verður mjög mikil efnamengun sem rennur beint ofan í jarðveginn og grunnvatnið og eitrar þannig út frá sér. Olían er síðan seld háu verði til fíkniefnaframleiðenda í Vestræna heiminum. Hóparnar sem stunda þessa ólöglegu vinnu leggja einnig niður snörur og gildrur til að veiða dýr sér til matar en veiða einnig dýr í útrýmingarhættu eins og tígrisdýr sem þeir selja til að fjármagna aðgerðirnar og til að græða enn meira. Það er því ljóst að þessar aðgerðir eyða regnskógi, tæma hann af dýrum og stofna þannig um þúsundum frumbyggja sem lifir í skóginum í hættu.

Svo eru það fíkniefnin sem eyða ekki beint regnskógi en hafa samt mjög slæm áhrif á umhverfið. Þeir sem hafa horft á sjónvarpsþættina „Breaking Bad“ kannast við hvernig metamfetamín er framleitt. Þetta er eitt það allra subbulegasta sem hægt er að fást við. Fyrir hvert kíló af metamfetamíni sem er framleitt, myndast um 5-6 kíló af eitruðum úrgangi. Þar sem þetta er kolólögleg starfsemi sem oft á sér stað í heimahúsum, þá er ekki auðvelt að losna við þennan úrgang og því er honum oft skolað niður vaskinn, eða hent út í skóg, þar sem hann endar í jarðvegi og grunnvatni. Þessi eitraði úrgangur getur valdið mönnum, plöntum og dýrum mjög mikinn skaða.

Fíkniefnaiðnaður í blóma Umhverfismál eru sem betur fer farin að verða hluti af daglegu lífi fólks og margir farnir að lifa nokkuð grænum lífsstíl. Fæstir leiða samt hugann að fíkniefnaneyslu í samhengi við umhverfismál enda er lítið rætt um það í fjölmiðlum. Við fáum fréttir af stríðinu gegn fíkniefnum og gerum okkur flest grein fyrir því hve skelfilegur fíkniefnaheimurinn er. Vinir mínir í Mexíkó óttast til dæmis daglega um líf fjölskyldna sinna og vina því átök tengt smygli geta brotist út næstum hvar sem er, hvenær sem er. Einnig er alveg klárt að fíkniefni geta haft hræðileg líkamleg og sálræn áhrif á fólk og fíkniefnaheimurinn nýtir sér eymd annarra og græðir á tá og fingri. Einhvernvegin loka samt margir augum og eyrum fyrir þessum staðreyndum. Það er kannski skiljanlegt fyrir veika og langt leidda fíkla en þeir sem nota fíkniefni sér til skemmtunar endrum og eins og eru jafnvel miklir umhverfissinnar, ættu að fara í naflaskoðun og leiða hugann að því hvað neysla þeirra hefur kostað, í mannslífum og eyðileggingu náttúrunnar. Kjarni málsins er framboð og eftirspurn og fíkniefnamarkaðurinn blómstrar því það er svo mikil eftirspurn eftir þessum efnum.

Manni finnst maður oft vera lítill og hafa lítið vægi í heiminum þegar kemur að umhverfismálum. Vandamálin eru svo stór, loftslagsbreytingar að hellast yfir okkur og allt svo vonlaust. En þetta er ekki vonlaust, langt frá því. Það er svo margt sem við getum sjálf gert. Það að neyta ekki ólöglegra fíkniefna sem skaða náttúruna er klárlega eitt þeirra, ég tala nú ekki um heilbrigðara. Tölum um þetta, án ásakanna, við vini og ættingja sem neyta fíkniefna og höfum þannig jákvæð áhrif. Fyrir okkur sjálf og náttúruna.

5 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page