Oft erfitt að vera umhverfisvæn Ég er hugsjónamanneskja af lífi og sál, ég vinn við umhverfismál og umhverfismál eru líka áhugamál mín. Það má því segja að ég sé alltaf í vinnunni, sem hefur bæði kosti og galla. Vinir og fjölskyldumeðlimir hafa stundum ranghvolft augunum þegar ég tek upp box úr töskunni minni fyrir afganga á veitingastöðum eða þegar ég hef verið að laumuflokka í sumarbústaðarferðum og er staðin að verki við að troða tómum kössum af morgunkorni í ferðatöskuna mína af því að sveitarfélagið býður ekki upp á flokkun. Ég bara á rosalega erfitt með að hugsa ekki um umhverfismál í mínu daglega lífi. Þetta er svolítið eins og með bílbeltin, manni líður hreinlega illa ef engin belti eru í bílnum. Ég reyni samt að hemja mig, ég er ekki fullkomin og það er líka gríðarlega erfitt að vera umhverfisvænn í heimi sem hjálpar manni ekki við það. Ég ferðast mikið um í strætó eða á hjóli, en stundum gengur það ekki upp tímanlega séð og því nota ég bílinn stundum. Ég reyni að borða umhverfisvænan mat en það getur verið afskaplega erfitt þegar maður býr á eyju í Atlantshafinu þar sem búið er að flytja matvörur yfir hálfan hnöttinn og pakka inn í mörg lög af umbúðum. Maður spyr sig hvort vistvæn vara sé ennþá vistvæn þegar hún ferðast langar leiðir? Það er kerfisbundið búið að skipta evrópskum matarolíum út fyrir regnskógareyðandi pálmaolíu í sápum og matvöru og það eru meira að segja fluttir inn erlendir ísmolar. Við á Íslandi búum ekki við þær aðstæður að það sé auðvelt að vera umhverfisvænn, og vistspor okkar er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þetta þýðir, að ef allir Jarðarbúar lifðu eins og Íslendingar, þá þyrftum við 5-6 Jarðir til að framfleyta okkur.
Allir verða að vera með Staðreyndin er því miður sú að það skiptir bara næstum engu máli fyrir Jörðina þó að ég, sem einstaklingur, flokki ruslið mitt, hjóli í vinnuna og borði íslenskan mat. Ef ég er ein að berjast í þessu þá breytist ekki neitt og maður þreytist fljótt og gefst upp ef maður siglir endalaust á móti vindinum. Það er miklu auðveldara að loka eyrum og augum fyrir því sem er að gerast í kringum mann og halda áfram „business as usual“. Neyslubrjálæðið fer eins og flóðbylgja yfir heiminn, kerfið stýrir okkur í þá átt að maður verður að vera hipp og kúl og eiga allar nýjustu græjurnar til að vera hamingjusamur. Allt of margir græða á hagkerfinu eins og það er í dag, alveg eins og vopnasalar græða á stríðum. Þar sem við Íslendingar erum, og höfum alltaf verið, háð hafinu þá má nefna að aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem veldur hlýnun jarðar, hefur tvenns konar áhrif á hafið. Í fyrsta lagi er það sjálft hitastigið sem hefur áhrif á lífverur, þar sem til dæmis minnsta breyting hjá svifþörungum getur haft mikil áhrif upp fæðukeðjuna. Í öðru lagi er það súrnun sjávar, sem er beintengd styrk kolefnis í andrúmsloftinu. Súrnun sjávar veldur því að lífverur eins og kóraldýr, krabbadýr, lindýr og skrápdýr eiga erfiðara með að mynda stoðkerfi sitt og skeljar úr kalki. Kóralrifið mikla í Ástralíu er til dæmis í mikilli hættu vegna þessara breytinga í sjónum og stórir hlutar rifsins eru nú þegar dauðir. Þar sem nýlegar vísbendingar eru um að súrnun sjávar hafi einnig áhrif á fiskistofna eins og þorsk, þá hefði maður haldið að allar viðvörunarbjöllur væru farnar í gang hjá fiskiþjóðinni Íslandi og jafnvel að kosningabaráttan sem nú er framundan, myndi að miklu leiti snúast um þessi mál. Hvað ætlum við annars að gera ef nytjafiskistofnarnir okkar hrynja?
Loftlagsmál eiga að vera þverpólitísk Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú, í sögu mannkynsins, að breyta hegðun okkar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og brennslu á jarðefnaeldsneyti. Ísland, ásamt 194 öðrum þjóðum heims, er búið að skrifa undir Parísasamkomulagið sem snýst um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og með aukamarkmið að reyna að stefna að því að hlýnun verði innan við 1,5°C. En hvað þýða þessar tölur? Ein til tvær gráður á Celcius hljómar ekkert skelfilega mikið og margir hugsa sér jafnvel gott til glóðarinnar um heitari sumur, en hér er verið að tala um meðaltöl. Ef hlýnun Jarðar fer, að meðaltali yfir 2°C, og hér er miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu, þá munum við t.d. horfa upp á eyðileggingu flestra kóralrifja í heiminum og bráðnun jökla auk þess sem yfirborð sjávar mun hækka og sökkva stórum landsvæðum. Lífríkið, bæði á landi og í sjó mun taka miklum stakkaskiptum og erfiðleikar munu aukast í matvælaframleiðslu. Vísindamenn um allan heim vara við því að fara yfir tveggja gráðu markið, en samt eru loftslagsmál ekki forgangsatriði í stefnuskrám allra flokka sem bjóða sig nú fram til Alþingiskosninga.
Málið er að loftslagsmál eiga að vera þverpólitísk og alls ekki einkamál vinstriflokka. Við, bæði sem Íslendingar og heimsborgarar, höfum hreinlega ekki efni á að niðurstöður einstaka kosninga hafi mögulega áhrif á hvort komandi stjórnvöld ætli að takast á við loftslagsvandann eða ekki. Það er allt of mikið í húfi. Loftslagsbókhald Jarðarinnar rúmar til að mynda ekki fyrirhugaða olíuvinnslu á Norðurslóðum.
Græna hagkerfið Mér finnst ekkert gaman að vera umhverfisnördinn í hópnum, sú sem er sívælandi yfir endurvinnslu og alltaf með dómsdagssögur um loftslagsbreytingar, regnskóga og dýr í útrýmingarhættu. Það er heldur ekkert gaman að fólk haldi að allir þeir sem taki strætó hljóti að hafa misst bílprófið. Mig langar að búa í samfélagi og heimi, þar sem það er sjálfsagt mál að vera umhverfisvænn og að umhverfissóðarnir séu þeir sem litnir eru hornauga. En loftslagsvænt samfélag byggist ekki upp nema með pólitískum vilja og samstöðu borgaranna. Það þarf því að stokka umhverfis- og loftslagsmálin inn í allar ákvarðanatökur, hvort sem þær tengjast orkumálum, mannvirkjum, samgöngum, iðnaði, hönnun, matvælum eða tísku, svo eitthvað sé nefnt. Við getum öll, sem einstaklingar, tekið þátt í að minnka áhrif loftslagsbreytinga með því t.d. að hætta að sóa mat, nota umhverfisvænar samgöngur og minnka neysluna og með kerfisbundinni breytingu, þvert á allar flokkslínur, getum við búið til grænt hagkerfi sem styður við bæði fólk og náttúru.
Þrátt fyrir að vera lítið land þá hefur Ísland mikla möguleika á að verða framúrskarandi í loftslagsmálum á heimsvísu. Verum óhrædd við að velja okkur þannig framtíð. Umhverfissinninn David Brower sagði einu sinni þessu frægu orð: „Það er ekki hægt að eiga viðskipti á dauðri plánetu“. Svo einfalt er það.