top of page
  • Writer's pictureRannveig Magnúsdóttir

Góðu umhverfisfréttir ársins 2018


Miklar áskoranir Er hægt að vera bjartsýnn þegar nýjustu fréttir af loftslagsmálum eru þær að hættan sem stafar að mannkyninu vegna loftslagsbreytinga hefur aldrei verið meiri? Í árlegri stöðuskýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í heiminum, sem er nýkomin út, kemur fram að ríki heims hafa aldrei átt jafn langt í land með að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum. Í skýrslunni kemur fram að ríki heims þurfi að spýta hressilega í lófana og minnka kolefnislosun sína fimmfalt meira en miðað er við í núverandi áætlunum, til að hægt verði að halda hækkun meðalhitastigs á jörðinni innan við 1,5 gráður. Á Íslandi hefur losun gróðurhúsalofttegunda meira að segja aukist, þvert á fögur markmið okkar. Útlitið er því miður kolsvart fyrir lífið á jörðinni og fyrir okkur sjálf ef við höldum áfram þessu aðgerðarleysi og blindri trú á að einhver annar reddi þessu.

Þeir sem vinna við eða hafa áhuga á umhverfismálum finna því oft fyrir vanmætti og missa jafnvel móðinn þegar blæs svona hressilega á móti. Þetta kannast ég því miður sjálf allt of vel við. Vandamál eins og loftslagsbreytingar, tap á líffræðilegum fjölbreytileika og plastmengun í hafi eru svo risavaxin að manni finnst maður sjálfur svo lítið geta gert. Á svona stundum, þegar ég fyllist vanmætti, þá hugsa ég um Jane Goodall, sem er ein helsta vísindakona heims. Hún er nú orðin Íslendingum vel kunn eftir að hún kom í heimsókn sumarið 2016. Ég var svo heppin að vera í hópi þeirra sem skipulögðu heimsókn hennar til Íslands og ég naut hverrar einustu mínútu í hennar félagsskap. Jane sagði svo snilldarlega: „Það getur enginn gert allt, en það geta allir gert eitthvað“. Þessi orð eru einmitt það sem gefur manni von þegar allt virðist vera að fara til fjandans. Ég tók saman nokkrar jákvæðar umhverfisfréttir frá árinu 2018, sem sýna að hver og ein manneskja getur látið gott af sér leiða.

Tegund talin útdauð lifir Byrjum í Bandaríkjunum. Rose Marcario, framkvæmdastjóri bandaríska útivistarfyrirtækisins Patagonia, ákvað nýlega að veita 10 milljónum bandaríkjadala, sem er yfir milljarður íslenskra króna, í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Þessi upphæð er ekki tilviljunarkennd því þetta er andvirði þess skattaafsláttar sem fyrirtæki hennar hefur fengið eftir að Donald Trump breytti skattalögum þar í landi. Rose gagnrýnir Trump og þennan óábyrga skattaafslátt sem fyrirtækjum er veittur. En í stað þess að láta þennan pening renna aftur inn í starfsemi fyrirtækisins tók Rose þá ákvörðun að nýta hann í þágu umhverfisins.

Nú skulum við fara til suðaustur Asíu. Árið 1928 fór hinn þjóðsagnakenndi þróunarlíffræðingur Ernst Mayr í ferð til Papúa Nýju-Gíneu. Hátt í fjöllum Wondiwoi skagans varð hann fyrstur hvítra manna til að sjá eitt lítt þekktasta dýr í heimi, Wondiwoi trjákengúruna. Hann felldi dýrið og þetta eina eintak, sem til er í heiminum, er nú vel geymt á Náttúrugripasafninu í London. Næstu 90 árin sást hvorki tangur né tetur af tegundinni og allan þennan tíma var hún talin útdauð. Allt þangað til í júlí 2018 þegar enski líffræðingurinn Michael Smith fór í erfiðan leiðangur til að, meðal annars, freista þess að finna tegundina aftur. Eftir heilmikið brölt, hátt í fjöllunum og hátt uppí trjánum, tókst honum loksins að finna þessa sjaldgæfu trjákengúru og ná mynd af henni. Myndin hefur verið skoðuð af trjákengúrusérfræðingum sem staðfesta að um Wondiwoi trjákengúruna sé að ræða. Nú þurfa líffræðingarnir að fara aftur í leiðangur, ná lífsýni úr dýrinu og bera erfðaefnið saman við eintakið sem Ernst Mayr safnaði árið 1928. Þessi stórmerkilegi fundur á tegund, sem var áður talin útdauð, getur skipt sköpun fyrir vernd svæðisins. Nú þegar eru fjölmargar tegundir plantna og dýra í hættu í regnskógum Nýju-Gíneu vegna ofveiði, skógareyðingar, pálmaolíuiðnaðarins og námugreftri. Það eru einmitt uppi tillögur að gullnámugreftri sem myndi ógna lífríki skógarins enn meira og þegar regnskógur er felldur þá eykur það áhrif loftslagsbreytinga. En með þessum óvænta fundi Wondiwoi trjákengúrunnar eru nú miklu meiri líkur á að draumurinn um þjóðgarð á svæðinu verði að veruleika.

Ungur umhverfisverndarsinni Færum okkur til Svíþjóðar þar sem hin 15 ára gamla Greta Thunberg er enn að reyna að jafna sig eftir heitasta sumar síðan mælingar hófust fyrir 262 árum síðan. Þessi unga stúlka, sem býr í Stokkhólmi, horfir uppá fullorðna fólkið bregðast komandi kynslóðum með aðgerðaleysi sínu í loftslagsmálum. Núna í haust ákvað hún að gera eitthvað í málunum og fór í verkfall. Hún sat fyrir framan sænska þingið, fyrst á hverjum degi í tvær vikur og síðar alla föstudaga í vetur og neitaði að fara í skólann, til að vekja athygli á loftslagsvandanum. „Af hverju ætti ég að hafa fyrir því að læra eitthvað í skólanum ef stjórnvöld hlusta ekki á staðreyndir vísindamanna og gefa þannig skít í framtíð mína?“, spurði hún. Fleiri og fleiri tóku þátt í mótmælum hennar og hún fékk heimsathygli. Svipuð mótmæli voru fljótlega skipulögð í öðrum löndum, m.a. Hollandi, Þýskalandi, Finnlandi, Danmörku og núna síðast í Ástralíu. Föstudaginn 30. nóvember gengu þúsundir ungmenna í tugum ástralskra borga úr skólum sínum, alveg eins og Greta Thunberg, til að mótmæla aðgerðarleysi ástralskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Fjölmennustu mótmælin voru í Syndey þar sem 5000 ungmenni söfnuðust saman í fjöldaskrópi. Það sem gerði mótmæli áströlsku nemendanna ennþá áhrifameiri var að þau hunsuðu reiðilestur forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, sem tók fyrirhuguðu fjöldaskrópi vægast sagt illa og skammaðist í börnunum inni á þingi. Hinn 17 ára Manjot Kaur svaraði fullum hálsi og sagði að ef Scott vildi að börnin hættu að þykjast vera á þingi þá ætti þingið að hætta að haga sér eins og börn. Hin 11 ára Lucie Atkin-Bolton sagði á mótmælafundinum í Sydney að „þegar við börnin subbum allt út þá segir fullorða fólkið okkur að hreinsa það upp. En þegar fullorðnir leiðtogar okkar subba allt út þá láta þeir okkur börnin líka um að hreinsa það upp“.

Mörg þessara ungmenna höfðu einnig að orði að loksins liði þeim eins og einhver væri að hlusta og að þau væru að hafa áhrif á mikilvæga hluti sem raunverulega skipta máli. Hún Greta Thunberg, þessi hugrakka 15 ára umhverfishetja, og fyrirmynd ungmenna um allan heim, er nú stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi til að segja valdhöfum til syndanna. Hún segist hafa hitt stjórnmálamenn sem hreinlega átti sig ekki á alvarleika málsins og byrji að gráta þegar hún talar við þá. Það er því ennþá von að mannkynið hafi vit á því að koma í veg fyrir þær hörmungar sem eru í vændum ef við höldum höfðinu ennþá í sandinum.

Lúxusvandamálið við gerð þessa pistils var að ég hafði úr svo mörgum sögum að velja. Það er fólk alls staðar í heiminum að umturna lífi sínu í þágu umhverfisins. Auðkýfingar, fyrirtæki og meira að segja Alþjóðabankinn eru að fjárfesta í margvíslegum verkefnum sem miða að því að vinna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við afleiðingum þeirra. En stórkostlegar kerfisbreytingar þurfa að eiga sér stað. David Attenborough sagði, á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi, að aðgerðarleysi í loftslagsmálum þýði hrun siðmenningar og endalok stórs hluta hins náttúrulega heims. Þetta mun því ekkert reddast af sjálfu sér og við þurfum öll að opna augun og taka þátt í þessari vegferð, því það er bókstaflega allt í húfi.


17 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page